Föstudagur, 27. febrúar 2009
Geðrækt á víðsjárverðum tímum
Það eru víðsjárverðir tímar. Áður þekkt kerfi er hrunið og óvissa blasir við. Við þurfum að rannsaka hvað gerðist, hreinsa upp úr rústunum og byggja upp að nýju. Til þess að vel takist til þurfum við að vera vel á okkur komin, andlega sem líkamlega. Þannig getum við betur mætt þeim mótvindi sem blæs um samfélag okkar. Það er mikilvægt fyrir ríki og sveitarfélög að vanda sig vel og kasta ekki krónunni fyrir aurinn. Sparnaður getur komið út sem gríðarlegur aukakostnaður annars staðar ef dæmið er ekki reiknað til enda. Sem dæmi má taka að vanúthugsaður niðurskurður í velferðarkerfinu getur reynst okkur dýrkeyptur þegar upp er staðið. Heldur þarf að bæta í velferðarkerfið þannig að það geti sótt fram. Sókn er besta vörnin.
Eitt þeirra mörgu atriða sem huga þarf að er andleg heilsa okkar. Við þurfum að stunda geðrækt sem og líkamsrækt til þess að halda hug okkar og líkama í góðu jafnvægi. Þegar við lifum þá tíma sem nú eru uppi þar sem neikvæðni, streita, álag og óvænt áföll eru algeng verður mikilvægi sjálfsræktar enn meira. Ritað hefur verið um það víða, meðal annars á vef Lýðheilsustöðvar (sjá http://www.lydheilsustod.is/) að einn af hverjum fjórum Íslendingi þjáist af geðheilsuvanda af einhverjum toga á hverjum tíma. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) eru kvíði og þunglyndi meðal helstu orsaka heilsubrests og skerðingar sem hlotist getur í kjölfarið. Slíkt kostar samfélög gríðarlegar fjárhæðir fyrir utan þær afleiðingar sem ekki er hægt að mæla sem hljótast af slíku. Þunglyndi og kvíða hefur jafnvel verið líkt við faraldur sem herjar á hið vestræna samfélag. Og þessar spár komu fyrir kreppu... Núna er sennilega enn meiri hætta á ferðum því streita, álag og óvænt áföll auka líkur á þunglyndi og kvíða.
Þessu þarf að bregðast við af fullum þunga og það þarf að gerast strax. Auka þarf aðgengi almennings að sálfræðingum og öðru fagfólki með því að niðurgreiða þjónustu þeirra á sama hátt og annarra heilbrigðisstétta. Taka þarf í taumana strax og andleg vanlíðan lætur á sér kræla. Mikilvægt er að bregðast við fljótt og vel og helst áður en til lyfjameðferðar þarf að koma. Hentugt er að nýta þá miklu og góðu þekkingu sem skapast hefur í tengslum við verkefnið Geðrækt sem starfrækt er á vegum Lýðheilsustöðvar. Verkefnið er fræðslu- og forvarnarverkefni um geðheilsu og áhrifaþætti hennar. Því er ætlað að fræða fólk um geðheilbrigði og geðraskanir, um forvarnir og eflingu geðheilbrigðis og draga úr fordómum. Þar má finna ýmis verkfæri sem hver og einn getur nýtt sér geðheilsunni til góða eins og geðræktarkassann og geðorðin tíu. Einnig má þar finna upplýsingar um annað verkefni sem er mjög spennandi og er sérsniðið með það að markmiði að efla geðheilsu barna. Það heitir Vinir Zippý og er alþjóðlegt lífsleikninámsefni sem er ætlað að efla geðheilbrigði 6-7 ára barna og hefur verið notað með góðum árangri víða um heim. Verkefnið er nú þegar kennt í mörgum skólum og er vonandi nýtt vel hér í Mosfellsbæ.
Góð geðheilsa er gulli betri!
Höfundur er nemi og félagi í Framsóknarfélagi Mosfellsbæjar.
(grein birt í dag í Mosfellingi, sjá á http://www.mosfellingur.is/)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:47 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.