Miðvikudagur, 25. mars 2009
Rannsókn aldarinnar undir leiðsögn Evu Joly
Aðeins er mánuður til kosninga...
Ansi fátt hefur breyst. Sama þrasið daginn inn og daginn út sem skilar þjóðinni ekkert áleiðis. Menn orðnir svo örvæntingarfullir í úrræðaleysinu að þeir grípa til sinna ráða og setja á fót framhaldsmenntun í kannabisræktun sem lýkur með meistaranafnbót og alles... já, sæll! Ekki alveg sú atvinnuuppbygging sem lagt var upp með af forvígismönnum þjóðarinnar!
Ráðamönnum og ábyrgðarmönnum þeirra aðgerða sem komið hafa okkur í þessa klípu virðist fyrirmunað að bera kennsl á eigin þátt og eigin ábyrgð í þessu hruni. Það eru nokkuð margir sem benda mætti á í einni svipan sem geta ekki hlaupist undan slíku ... Að viðurkenna mistök virðist mönnum algerlega fyrirmunað og það vantar alveg í forystusálina á Íslandi. Undirhreyfing Sjallanna gerði tilraun til þess við dræmar undirtektir. Menn virðast verja sig og sína fram í rauðan dauðann og þess vegna sitjum við föst í sama pyttinum og komust ekki upp úr honum.
Ég vil sjá rannsókn aldarinnar framkvæmda á Íslandi sem taki til allra þeirra þátta sem mögulega eiga þátt í þeirri ömurlegu stöðu sem við erum í. Ég er ánægð að heyra að Eva Joly muni mögulega koma að slíkri rannsókn til ráðgjafar því umfang íslenska efnahagsklúðursins (áður íslenska efnahagsundursins) er þvílíkt að við þurfum færustu sérfræðinga í efnahagsglæpum sem völ er á.
Ég hef ekki trú á því að stjórnmálamenn eða embættismenn hafi endilega með beinum hætti tekið þátt í svikamyllu örfárra manna sem spiluðu með þjóðarauð okkar en gáleysi þeirra og getuleysi er þyngra en tárum taki. Ég er uppfull reiði yfir því að menn hafi sest upp í einkaþotur til þess að setja á svið leikrit og segja mönnum úti í heimi sem sáu í hvað stefndi að hér væri allt í gúddí... á sama tíma og vinnumenn þessa lands lögðu sparnaðinn sinn inn í góðri trú sem endaði svo sem spilapeningar útvaldra manna.
Ég vil líka sjá miklu skýrari leiðir frá öllum flokkum um það hvernig þeir ætla sér að gera upp þessa fortíð, hvað þeir ætla að gera í núinu og hvert þeir sjá okkur stefna í framtíðinni. Allt leikur þetta á huldu fyrir mér og menn einhvern veginn ekki að horfast í augu við aðstæður heldur meira í "business as usual" eins og Sjallar sem eyða hverjum dýrmætum tímanum á fætur öðrum í leiksýningar sínar og væl í þinginu!
- Ég vil nýjar leikreglur
- Ég vil nýtt eftirlit
- Ég vil nýtt fólk
- Ég vil nýja stjórnarskrá unna á stjórnlagaþingi
- Ég vil nýja framtíð
Það er ekkert lengur til á Íslandi sem heitir "business as usual" og því fyrr sem menn átta sig á því, því betra. Nú verður að snúa bátnum við og hætta að láta hann fljóta undan vindinum. Það verður að stýra honum og það þurfa allir að leggjast á árarnar en til þess þarf áhöfnin að setja skýra, trausta stefnu í einlægni og sinni bestu trú á framtíð fyrir okkur öll.
Stjórnin hljóp á sig í tveimur málum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.