Í dag kýs ég Framsókn X-B

Á eftir fer ég ásamt skólafélögum mínum til móts við ræðismanninn hér í Aarhus til þess að kjósa.

Ég ætla að setja X við B.

Ég ætla að kjósa Framsókn fyrir okkur öll, Framsókn fyrir alla - konur og karla!

Ástæðan er sú að ég treysti Framsókn best til þess að koma með raunverulegar lausnir í þeim mikla vanda sem við búum við á Íslandi. Framsókn ýtti málunum af stað í vetur þegar allt sat frosið og ekkert fararsnið var á Sjálfstæðismönnum eða Samfylkingu úr ríkisstjórn þrátt fyrir algert úrræðaleysi. Framsókn hefur nú þegar lagt fram tillögur í 18 liðum til þess að takast á við efnahagsvanda þjóðarinnar.

Kosningarnar sem haldnar verða núna 25. apríl n.k. er eitt þeirra skilyrða sem Framsókn setti fyrir að verja minnihlutastjórn falli. Það er gott og svar við ákalli þjóðarinnar um að fá að kjósa sér nýja stjórn til þess að taka á bráðavandanum á strandstað og koma þjóðarskútunni á farsæla siglingu á ný. Stjórnlagaþing hefði verið rökrétt framhald þess að leggja valdið í hendur fulltrúa þjóðarinnar til þess að endurvinna stjórnarskrána okkar og hugsa málin upp á nýtt. Það varð því miður ekki úr þar sem Sjálfstæðismenn virðast óttast það meira en heitan eldinn að færa raunverulegt vald þjóðarinnar yfir til hennar sjálfrar og koma ákvæði um auðlindir þjóðarinnar í stjórnarskrá til að verja rétt þjóðarinnar yfir þeim. Þriðja atriðið var að ráðist yrði í bráðaaðgerðir til handa heimilum og fyrirtækjum í landinu til að forða hruni. Margt gott hefur verið gert, en ekki nóg, ekki nógu hratt. Í dag eru 18 þúsund manns atvinnulaus og 10 fyrirtæki fara í þrot á dag!

Það er ástand sem verður að stöðva með öllum mögulegum leiðum strax!

Við þurfum öll að leggja höfuðið í bleyti og kanna hvað við getum lagt af mörkum til þess að koma þjóðinni okkar og landinu til aðstoðar út úr þeim hremmingum sem við er að etja. Stjórnmálaflokkar eru ekki lokað vígi eins og margir halda fram, af því hef ég persónulega reynslu úr Framsókn. Flokkarnir eru einungis fólkið sem er í þeim! Ég hvet fólk til þess að skoða vel hvað flokkarnir eru og hafa fram að færa í dag í stað þess að leggja einungis mat á þá út frá liðinni fortíð.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband