Vor í lofti hjá Framsókn

Kjördagur er liðinn. Sögulegar kosningar eru að baki. Kosningar sem við Framsóknarfólk komum til leiðar eftir mikla undiröldu í samfélaginu.

Það er vor í lofti og gleði í hjörtum Framsóknarfólks í dag. Eftir erfiðan vetur er farið að vora hjá okkur og sumarið er framundan. Loksins rættist sá draumur að sjá flokkinn minn þar sem ég þekki hann m.a. af kynnum mínum og trú á grasrót hans og vil ég sjá hann vaxa og dafna :).

Ný Framsókn er svo sannarlega orðin að veruleika og er einungis upphafið að því sem koma skal.

Flokkurinn hefur farið í gegnum róttæka endurnýjun, hefur endurraðað í sveitir sínar með glæsilegum hætti og gengur nú í góðum takti. Forystan er forysta grasrótarinnar og hjörtu okkar slá í takt. Það mun verða lykillinn að þeim góða árangri sem flokkurinn mun ná næstu misseri. Við höfum gott fólk, gífurlega sterka málefnastöðu og góða stemmingu!

Við viljum berjast fyrir breytingum svo við getum lagt okkar lóð á vogarskálarnar að betri tíð framundan hjá íslensku þjóðinni. Allar okkar tillögur og starf hafa miðað að því markmiði.

Ég tel kosningarnar í gær hafa verið ákaflega mikilvægar fyrir þjóðina. Mikilvægar til þess að komast aftur á heillavænlegri braut til farsæls samfélags. Sú stefna einstaklingshyggju og ný-frjálshyggju sem fest hefur fætur síðustu ár með hressilegu græðgis- og spillingarívafi var þjóðinni til mikilla óheilla og hana þarf að leiðrétta.

Hófsöm samvinnustefna, gömul gildi og hinn gullni meðalvegur er það sem er íslenskri þjóð til farsældar. Með samstilltu afli getum við haft áhrif á þjóðfélag okkar með dýrmætan lærdóm liðinna missera til leiðsagnar.

En það sem ekki má gleymast er að hvert og eitt okkar er mikilvægasta breytingaraflið. Stjórnmálaflokkar breyta ekki hverju og einu okkar eða leysa öll okkar vandamál. Eins og sagt er þá þarft þú að vera sú breyting sem þú vilt sjá í öðrum! Þannig breytum við heiminum. Ef við viljum öflugt Ísland og betra samfélag þá þurfum við hvert og eitt að horfa inn á við og kanna hvernig við getum lagt okkar vigt á lóðarskálarnar til þess að byggja upp fyrirmyndarsamfélag þar sem hvert og eitt okkar nýtur sín til fulls. Þannig beislum við íslensku orkuna sem býr í þjóðinni sjálfri. Við erum dýrmætasta auðlindin og hvert og eitt okkar er mikilvægur hlekkur að betra Íslandi.

Ég vona svo innilega að allir hafi það í huga í þeim erfiðu verkefnum sem framundan eru að það sem skiptir mestu máli er að ná sátt og ná að beisla íslensku orkuna í rétta átt þannig að þjóðin gangi í takt og byggi sér saman upp fyrirmyndarsamfélag.

Til hamingju með daginn kæru vinir, mikið verður gaman að koma af fullum krafti inn í Framsóknarvorið og horfa til þess sumars sem senn mun koma hjá flokknum okkar.

Sumarið er tíminn... þegar hjartað verður grænt Smile.


mbl.is Nýtt Alþingi Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband