Fiskidagurinn mikli á Dalvík

Um síðustu helgi var ég fyrir Norðan og sótti Fiskidaginn mikla á Dalvík.

Það var alveg frábær upplifun að sækja Dalvíkinga heim og upplifa dýrðir Fiskidagsins mikla. Á föstudagskvöldinu var virkilega notaleg stemning að rölta um bæinn og skoða fallegar skreytingar og flest húsin uppljómuð með ljósaseríum. Þar fyrir utan var iðandi mannlíf um allan bæinn og nóg fyrir forvitið gestsaugað að sjá. Það eina sem klikkaði var að súpan hafði runnið svo ljúft niður að engin var hún eftir þegar okkur bar að garði. Á einum stað var næg súpa en engir bollar þannig að ekki gekk á tímum svínaflensu að allir stykkju bara á pottinn og sypu af... Ég legg til að á næsta ári mæti fólk bara með sína eigin bolla til að láta ausa í. Það er miklu umhverfisvænna og ódýrara.

Á laugardeginum röltum við svo á milli bása og runnu fiskveitingarnar ljúflega niður, hvort sem um hrátt hrefnukjöt var að ræða eða krakkafisk. Allt var þetta mikið lostæti að mínu mati. Mannlífið var alveg dásamlegt og hitti ég mikið af skemmtilegu fólki. Svo mikið var af mat að ekki náði maður einu sinni að smakka allt sem maður hefði viljað. Ég upplifði Dalvíkinga sem einstaklega góða gestgjafa og að þessa helgi hefðu hjörtu bæjarbúa slegið í sama fiskitaktinum. Allir voru einhvern veginn með á einn eða annan hátt. Kvöldið var svo toppað með magnaðri flugeldasýningu þar sem meðal annars bar að líta mikinn ljósfoss svo hvert andlit í brekkunni ljómaði og gapti af undrun.

Hátíðina upplifði ég sem mikla fjölskylduhátíð og það var gott að finna þá gleði sem sveif yfir vötnum Dalvíkur. Allt var til fyrirmyndar og til dæmis var búið að hreinsa upp strax á laugardagskvöldinu eftir veru 30 þúsund manna þar fyrr um daginn. Hinn íslenski dugnaður og kraftur var altumlykjandi.

Ég mæli með þessari hátíð við hvern sem er og veit að þetta er einungis mín fyrsta af mörgum ókomnum Fiskidögum á Dalvík.

Mér varð hugsað til Lífsspeki fisksins sem ég lærði um í minni gömlu vinnu hjá SSR (Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík) þar sem ég sá fiska hangandi í öllum heimsins litum, formum og mynstrum. Sú speki gengur einmitt út á það að: Vera til staðar, leika sér, gera öðrum daginn eftirminnilegan og velja sér viðhorf (www.fishphilosophy.com). Speki sem væri upplagt fyrir hvern einn og einasta Íslending að kynna sér og hafa í huga um ársins hring.

Takk fyrir mig :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus  Garðar Júlíusson

Komdu sæl...verði þér að góðu og takk fyrir falleg og góð skrif.
Júlíus Júlíusson framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla :)

Júlíus Garðar Júlíusson, 27.8.2009 kl. 11:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband