Miðvikudagur, 19. ágúst 2009
Í ruglinu
Vísir, 19. ágú. 2009 13:30
Get ekki ímyndað mér að gengið verði að bónustillögum Straums
Stefán Einar segist telja að tillögurnar um bónusgreiðslurnar séu úr öllum takti við það sem samfélagið horfir upp á í dag. Mynd/ Rósa.
Jón Hákon Halldórsson skrifar:
Þetta er auðvitað mjög vel í lagt og algerlega úr takti við það sem samfélagið horfir uppá í dag," segir Stefán Einar Stefánsson viðskiptasiðfræðingur um þá hugmynd stjórnenda Straums að starfsmenn bankans fái bónusgreiðslur í samræmi við endurheimtur á eignum bankans. Bónusgreiðslur sem gætu numið allt að 10 milljörðum króna á fimm árum eða 222 milljónum á hvern starfsmann bankans.
Stefán segir að miðað sé við endurheimtuhlutfall sem bendi til gríðarlegra búsifja kröfuhafa. Og ég get ekki ímyndað mér að menn gangi að tillögum sem þessum," segir Stefán Einar.
Nú er þetta lokað félag - þetta er einfaldlega eignasafn sem verið er að gera upp. Þetta er ekki banki sem er í rekstri. Og ég leyfi mér að efast um að núverandi stjórnendur séu svo þarfir til verksins að þessar fjárhæðir endurspegli mikilvægi þeirra. Ég get bara sagt að væri ég kröfuhafi myndi ég leita til annarra fagmanna um þetta," segir Stefán Einar. (tekið af www.visir.is í dag).
Þessir menn eru algjörlega í ruglinu.
Þegar maður les svona fréttir þá fyllist maður reiði. Hvernig er hægt að láta sér detta svona rugl í hug!!! Menn sem bera sumir hverjir ábyrgð á því í hvaða stöðu heil þjóð er og setja fram slíkar kröfur á meðan almenningur liggur á hliðinni ættu að kunna að skammast sín. Hversu langt er hægt að ganga í trú á eigið ágæti?
Stjórnvöld þurfa að taka vel á þessum atriðum þannig að það rugl sem viðgengist hefur undanfarin ár og náði hámarki með algjöru kerfishruni geti aldrei nokkurn tímann endurtekið sig. Það þarf að rannsaka ítarlega öll óeðlileg tilvik, gjaldfella lán á þessa menn, taka eignir þeirra upp í skuldir (erlendis sem hérlendis) og dæma þá. Endurskoða þarf það ónýta regluverk og eftirlitskerfi sem leiddi til þess að svona hlutir gátu gerst frá grunni.
Þetta þurfa stjórnvöld að gera og gera vel til þess að koma í veg fyrir að hér sjóði upp úr á næstu misserum. Hinn almenni skattborgari sem vinnur sína vinnu af samviskusemi hefur ekki endalaust langlundargeð til þess að horfa upp á slíka menn sem telja sig langt yfir aðra hafnir. Svo langt að þeir telja sig nánast vera gulls ígildi. Það eru ákveðin takmörk fyrir því hversu ómissandi þú getur talið þig vera og hversu mikið þú telur þig geta verðlagt þig sem einstakling og vinnuframtak þitt. Enginn er svo rosalegur starfskraftur að hann eigi skilið tekjur sem eru margföld árslaun meðalmannsins á dag.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.