Miðvikudagur, 19. ágúst 2009
Ófær og ósanngjörn leið Samfylkingar
Vísir, 19. ágú. 2009 03:30
Stjórnarliðar ræða um afskriftir skulda
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.Almenningur þrýstir mjög á þingmenn að gera eitthvað til að laga skuldavanda heimilanna, til lengri tíma séð.
Um leið hafa lánastofnanir fundið fyrir minni greiðsluvilja, því lánin hækka á sama tíma og eignir lækka í verði.Þetta segir formaður félagsmála- og trygginganefndar Alþingis. Nú ræði þingmenn um almennar afskriftir húsnæðisskulda.
Nefndin fjallaði um úrræði skuldara í gær og fékk á sinn fund fulltrúa viðskiptabanka ásamt fulltrúa nefndar félagsmálaráðherra um endurmat á löggjöf og úrræðum fyrir skuldsett heimili.Það er búið að færa fé frá skattgreiðendum til fjármagnseigenda í gegnum peningamarkaðssjóði og það ríkir ekki almenn sátt um það. Það er óhjákvæmilegt að afskrifa einhverjar skuldir heimilanna, eins og það þarf að afskrifa skuldir fyrirtækja," segir formaður félagsmálanefndar, Lilja Mósesdóttir.
Hún kallar þetta að lágmarka það tap sem samfélagið hefur af gjaldþrotum". Mikilvægt sé að viðhalda greiðslugetu fólks. Frysting erlendra lána hafi takmarkað gildi, og greiðsluaðlögun hafi ekki gengið sem skyldi. Krafa sé uppi um skýrar aðgerðir til lengri tíma.
Spurð hversu hátt hlutfall skulda sé rætt um að afskrifa segir Lilja að það mótist af því hversu miklar afskriftir hafi orðið af húsnæðislánum, þegar þau voru færð úr nýju bönkunum og yfir í þá gömlu. Bankarnir hafi enn ekki gefið það upp.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, varaformaður nefndarinnar, lítur öðruvísi á málin. Hún vill afskriftir fyrir þá sem verst standa. Almennar niðurfellingar eru ekki á stefnuskrá Samfylkingar né í stjórnarsáttmála. Það eru engir fjármunir til í þetta og ég sé ekki hvaðan þeir ættu að koma. En við þurfum að taka á okkur álögur vegna fólks sem er í alvarlegum vandræðum. Þær byrðar eigum við að bera saman. En þeir sem tala fyrir almennri niðurfellingu hafa aldrei beinlínis sagt hver á að borga fyrir þetta. Það væri gaman að vita."
Þessi leið Samfylkingarmanna að ætla sér að fella einungis niður skuldir þeirra verst settu er að mínu mati ófær og ósanngjörn. Það er engin leið að meta á sanngjarnan hátt hver ætti rétt á slíku og hver ekki. Slík leið gæti til dæmis umbunað þeim sem fóru hvað mest fram í lífsgæðakapphlaupi því sem tíðkast hefur undanfarin misseri hér í landi. Á að fella niður skuldir þeirra sem keyptu sér stærstu skuldahalana, stærstu flatskjána, bröskuðu með fleiri en eina íbúð og óku um á Game Over og Bömmer? Að sama skapi eiga þeir sem sýndu aðhald í fjármálum sínum og eyddu ekki langt um efni fram látnir greiða fyrir þá sem "misstu sig". Þessi leið mun einungis sundra þjóðinni og nóg er nú samt. Þetta er einnig varasamt í þjóðfélagi sem er jafn smátt og hér er því þarna er kjörinn jarðvegur fyrir enn frekari spillingu eins og þá að lán sumra yrðu felld niður en ekki annarra.
Það væri mun sanngjarnari aðferð að finna leið til þess að færa öll lán hlutfallslega niður eins og við Framsóknarmenn höfum barist mikið fyrir. Þannig er ekki verið að mismuna fólki og allir sitja við sama borð við það að skaði sá sem orðinn er verði lágmarkaður fyrir alla.
Ég geri mér grein fyrir því að hér er hluti okkar þegna sem á við verulega kröpp kjör að stríða. Þann hóp þarf að skoða sérstaklega en sá hópur er ekki svo stór. Þá á ég við þá sem hafa framfærslu sína einungis af tekjum frá Tryggingarstofnun vegna örorku, einstæðir foreldrar með mörg börn á framfæri, ungar fjölskyldur með mörg börn á framfæri og fleiri í þeim hópi. Þetta er allt annar hópur en sá sem spennti bogann langt umfram það sem hollt getur talist og ætlast til að fá niðurfellingu skulda sinna. Björgólfsfeðgar eru ýktasta dæmið um slíkt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:01 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.