Miðvikudagur, 26. ágúst 2009
Framsóknarleiðin í leiðréttingum lána
Ég er sátt með mína menn að standa fast í lappirnar og með sannfæringu okkar Framsóknarmanna um það að ekki sé hægt að samþykkja Icesave málið. Tilefni þessa pistils er hins vegar skylt mál en annað.
Ég fylgdist með Lilju Mósesdóttur í Kastljósinu í kvöld í góðu viðtali um afskriftir lána sem mikið hefur verið í umræðunni undanfarið. Ég vil byrja á því að þakka fyrir og hrósa þeim þingmönnum Vg (Lilju, Guðfríði, Ögmundi og Ásmundi) sem hafa kjark og þor til þess að taka ákvarðanir út frá sinni sannfæringu en ekki eftir flokkspólitískri línu Steingríms.
Það sem rann upp fyrir mér er að það sem Lilja var að ræða um í viðtalinu varðandi almennar afskriftir er keimlíkt 20% leiðréttingu okkar Framsóknarmanna sem við héldum mikið á lofti fyrir kosningar. Sú tillaga hlaut ekki meðbyr stjórnvalda og meiru púðri var eytt í að berja hana niður heldur en að skoða hana með sanngjörnum hætti. Það kom einnig fram í viðtalinu að mörg þau rök sem Lilja notaði eru þau sömu og við Framsóknarfólk notuðum í vor. Þau rök eru m.a. þau að erfitt sé að greina að hver ætti að fá aðstoð og hver ekki og sé of mikið bákn til að það geti virkað, þeir sem "þurfi ekki" leiðréttingu muni skila súrefni inn í hagkerfið með m.a. aukinni neyslu (sem bætir aftur heildarhag okkar, betra sé að grípa í taumana strax áður en fleiri fara í þrot og skaðinn verður meiri og einnig hefur verið nefnt að það sé ekki nema sanngjarnt að hluti af þeim afskriftum sem nú þegar hafa orðið eigi að sjálfsögðu að renna til þeirra sem sitja uppi með stórbrengluð lán í stað þess að einungis sé brugðist við gagnvart fjármagnseigendum og kröfuhöfum en skuldarar skildir eftir í pyttnum.
Ég skil ekki hvernig Samfylkingarfólk og sumir í Vg ætla sér að afskrifa lán sumra en ekki annarra á jafn fámennu landi án þess að úr verði gríðarleg óánægja, spilling, sundrung og nánast borgarastyrjöld. Halda þau að almenningur sem situr uppi með kexrugluð lán en hefur sýnt skynsemi í að standa sínar skuldir muni sitja hljóður og borga sín himinháu lán á meðan t.d. Jón Jónsson sem "missti sig" í góðærinu, situr uppi með fleiri en eina íbúð, lúxusbíla og flatskjái fær bót sinna mála? Þarf eitthvað að ræða það? Í mínum huga er þetta glapræði og aðgerð yfir alla línuna er það eina sem vit er í þó ég geri mér fulla grein fyrir því að slíkt er flókið og dýrt í framkvæmd. Heildarhagsmunum okkar er þrátt fyrir það betur varið þannig að mínu mati og þannig er óvenjuleg staða okkar allra leiðrétt með sanngjarnari hætti.
Óvíst um sjálfstæðisatkvæði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:24 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.