Mánudagur, 7. september 2009
Auðlindir okkar eiga að vera í sameiginlegri eigu allra landsmanna og arðurinn af þeim á að renna í sjóði okkar
Við íslenska þjóðin erum að mörgu leyti mjög heppin. Við erum fámenn en mjög vel menntuð og framsækin þjóð sem náð hefur að skapa sér ótrúleg lífskjör á skömmum tíma. Við búum einnig á einu fegursta landi í heimi með ómetanlegum náttúrudjásnum, nægu plássi, hreinu vatni, hreinu lofti, fisk í sjónum landið um kring, hreinum landbúnaðarafurðum, iðandi orku í iðrum jarðar og svona má lengi upp telja. Við vinnum svo sem ekki í veðurlóttóinu oft en það gerist og veðrið er alveg bærilegt þó það gæti verið betra. Höfum meira að segja vott af okkar eigin sólarströndum.
Við höfum með elju, þor og dugnaði byggt okkur upp góðar samfélagslegar stoðir, félags- og heilbrigðiskerfi og menntakerfi sem er okkur að mestu leyti til sóma og hefur verið í stöðugri þróun. Það sem hefur kannski staðið okkur aðeins fyrir þrifum er að stundum gleymum við okkur aðeins í "þetta reddast" hugsanahættinum, kunningjasamfélaginu og þurfum að vera stórust í heimi! Þetta eru okkar lestir en geta í sumum tilfellum verið okkur til framdráttar.
Á Íslandi eiga ALLIR að geta haft það verulega gott miðað við allt og allt.
Þess vegna er það mikill ábyrgðarhluti þeirra sem standa í brúnni að tryggja það að hér glutrist ekki niður það góða sem við eigum og að lærdómur hljótist af því sem við höfum gert vitlaust áður fyrr.
Eitt af því sem ég tel vera mikilvægt atriði er að allar þær auðlindir sem við eigum séu ávallt tryggðar í eigu samfélagsins alls. Það á enginn að eiga íslenskar auðlindir nema íslenska þjóðin sjálf. Þjóðin velur sér svo leiðtoga sem hún treystir til þess að halda vel utan um og varðveita auðlindir sínar og leigja þær út eða reka þær þannig að arðurinn af þeim renni beint í sameiginlega sjóði landsmanna og tryggi okkur þannig góð lífskjör beint og milliliðalaust. Þeir einkaaðilar sem vilja nýta auðlindir eiga að greiða leigu af notkuninni og ekki á að vera hægt að leigja auðlindir nema til skamms tíma að mínu mati.
Ég tel okkur hafa farið flatt á því áður fyrr að færa auðlindir úr beinum höndum þjóðarinnar hvort sem það er gert gegn greiðslu eður ei. Sá sem vill komast í auðlindir okkar er ekki að því til þess að gera okkur greiða. Hann veit að þær eru gulllkista og þær gefa góða milligjöf frá því sem hann greiðir fyrir þær eða fyrir langtímaafnot af þeim. Seljum okkur því ekki ódýrt þrátt fyrir að við séum að horfast í augu við erfiða tíma. Það gæti orðið skammvinnur gróði.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
...algerlega sammála !
Agnar Bragi, 9.9.2009 kl. 12:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.