Glæsikerrueigandi á ekki í stöðumæli

Í gær sat ég á einu af mínu uppáhalds kaffihúsum Café París og fékk mér kaffibolla.

Þar sem ég fylgdist með mannlífinu út um gluggann varð ég vitni að atviki sem vakti mig til umhugsunar. Auðvitað gæti þetta bara hafa verið tilviljun en ég ákvað að líta á þetta sem dæmi um ýmislegt sem gerst hefur í okkar samfélagi. Vel klæddur maður kom að BMW stífbónaðri glæsikerru sinni (eflaust amk. 10 milljóna virði) og fussaði yfir stöðumælasekt sem komin var á bílinn við stöðumælavörðinn. Hann tók ekki sektina einu sinni af glugganum heldur settist inn í bílinn og þeystist af stað á fleygiferð á svæði þar sem gríðarlega mikið er af gangandi vegfarendum í bræði sinni.

Átti maðurinn ekki í stöðumæli? Var hann svona óheppinn?

Það skiptir í rauninni ekki máli. Það sem skipti mig máli var það að þetta fannst mér vera ágætis myndlíking af því sem gerst hefur í okkar litla samfélagi.

Ákveðin auðmannastétt hefur orðið hér til á undanförnum árum þar sem sumir í þeim hópi telja sig hafna yfir þann samfélagssáttmála sem við búum öll í. Fólk sem keyrir um á glæsikerrum en telur sér leyfilegt að sleppa því að borga í stöðumæli og leggur upp á gangstéttir til þess að þurfa ekki að ganga of langt. Þetta er aðeins lítil mynd þess sem birtist í stærri mynd þar sem auðmenn telja eðlilegt að þeirra skuldir séu afskrifaðar á meðan almenningur á að greiða sitt upp í topp með þykku aukalagi sem skapast vegna þess efnahagsklúðurs sem þessir sömu auðmenn bera ábyrgð á. Að sama skapi hverfa milljónir og milljarðar úr bönkunum án þess að tekið sé eftir á sama tíma og fólk sem vinnur í opinbera geiranum t.d. sem forstöðumenn á sambýlum (umhverfi sem ég þekki) þarf að standa skil á hverri krónu í sínu bókhaldi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband