Grænt hjarta til þín

0E812366
Það kemur að þeim tímapunkti í lífi þínu að þú áttar þig á því,
hver skiptir þig máli
..og hver ekki
og líka, hver gerir það ekki lengur..
og hver mun aldrei gera það.
Og eins, hver mun ævinlega skipta öllu máli..
HAFÐU ÞVÍ EKKI ÁHYGGJUR AF FÓLKI ÚR FORTÍÐINNI,
Það var ástæða fyrir því að þau tilheyra ekki framtíð þinni.
Færðu hverjum þeim sem þú þekkir og vilt ekki glata, þetta hjarta,
þar á meðal mér.., ef þér er annt um mig.
Reyndu að krækja í 12, það er ekki víst að það reynist auðvelt..
Vertu vingjarnlegri en þú átt að þér, því allir sem þú hittir eiga við sinn vanda að stríða..

Þennan fallega texta fékk ég sendan í kvöld frá henni Þórey minni.

Það er mikið til í honum.

Lífið er ferðalag fullt af nýjum áskorunum, nýrri upplifun og nýju fólki. Suma rekst maður á í þessu lífi og deilir með þeim ákveðnum vegarspotta lífsins. Að því loknu skiljast leiðir og maður kveður fólk með ýmsar minningar í bakpokanum. Þær geta verið góðar, slæmar og oftast er það hvoru tveggja. Þá er um að gera að læra af þeim slæmu og líta á þær sem reynslu en fagna þeim góðu og varðveita sérlega vel. Ég er svolítið örlagatrúar og tel það ekki vera hreina tilviljun hverja maður rekst á í þessu lífi. Að vissu leyti á maður líka oft val um það hverjum maður fylgir og hverjum ekki. Suma rekst maður svo á aftur og aftur. Sumir ná svo langt inn í hjarta manns að manni finnst skrýtið að samfylgdin hafi einungis varað í þessu lífi jafnvel þó um stuttan spotta sé að ræða. Ég hef hitt nokkrar manneskjur í þessu lífi sem eru nánast eins og púsluspil inn í mína lífsgöngu. Manneskjur sem hafa verið mér ómetanlegar og munu vera það allt lífið.

Það sem kemur fram í lokin á þessum texta finnst mér skipta miklu máli. Þar segir að maður eigi að vera vingjarnlegri en vanalega því allir eigi við sinn vanda að stríða. Þetta er mjög mikilvægt. Oft þegar við rekumst á einhvern sem við upplifum að komi illa fram við okkur eða er hreinlega bara önugur í erli dagsins þá erum við fljót að túlka það okkur í óhag... "Hann þolir mig ekki, mikið hlýt ég að vera leiðinleg". Þegar mergur málsins er sá að oft líður fólki bara mjög illa sjálfu og hefur því ekki neina gleði að gefa þann daginn án þess að það tengist manni sjálfum á neinn hátt. Þess vegna er ágætt að spyrja fólk bara vinalega í stað þess að búa sér til órökstuddar getgátur.

Gerðu eitthvað góðverk á hverjum degi, þó ekki sé nema bara að hrósa einhverjum fallega, brosa til ókunnugrar manneskju, rétta einhverjum eitthvað, hjálpa starfsmanni að stóla upp í stað þess að horfa á hann gera það og þannig má endalaust telja upp. Með því verður heimurinn okkar strax mun vingjarnlegri og betri.

Ég held að þessi tímapunktur sem maður átti sig á hver skipti máli og hver ekki sé ekki til. Það er ekki ein stund sannleikans þar sem þetta rennur allt upp fyrir manni heldur er þetta eitthvað sem maður er stöðugt að meta og endurmeta.

Svo er þetta líf svo merkilegt að maður veit ekkert hvað er framundan. Fortíðin er liðin, nútíðin er hér og framtíðin er ókomin. Ég er einmitt að fylgjast með þætti í sjónvarpinu sem heitir framtíðarleiftur og fjallar um að allir jarðarbúar missa meðvitund í tvær og hálfa mínútu og sjá hálft ár fram í tímann í framtíðarleiftri. Það væri nú ákaflega áhugavert að vita hvernig staðan verði og hvar maður verði eftir hálft ár!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband