Föstudagur, 13. nóvember 2009
10 hollráð fyrir þig sem hyggur á þátttöku í stjórnmálum - samtakamáttur kvenna
- 1. Láttu vaða - ekki draga úr kjarkinum með afsökunum eins og reynsluleysi eða þekkingarskort. Reynslan og þekkingin kemur með tímanum.
- 2. Skráðu þig í stjórnmálaflokk - taktu þátt í grasrótarstarfinu í flokkunum, þar er tækifærið til að hafa áhrif á stefnuna og koma áhuga sínum á framfæri.
- 3. Láttu í þér heyra - æfðu þig í því að taka til máls, skrifaðu greinar og taktu þátt í fundum.
- 4. Lærðu af reynslu annarra - taktu eftir því hverjir hafa áhrif og hvernig.
- 5. Vertu raunsæ - skoðaðu hvernig má samþætta vinnu, fjölskyldulíf og pólitíkina. Ekki ætla þér að vera fullkomin á öllum sviðum heldur gerðu þitt besta.
- 6. Tryggðu þér stuðning fjölskyldunnar - þátttaka í stjórnmálum krefst tíma og þá er mikilvægt að hafa traust bakland og að skyldum heimilisins sé jafnt skipt.
- 7. Styrktu tengslanetið - vertu dugleg að sækja fundi og taka þátt í félagsstarfi hjá hinum ýmsu þrýstihópum, það veitir reynslu og styrkir tengsl.
- 8. Forgangsraðaðu - nýttu kraftana þar sem áhugasvið þitt liggur og reynsla þín nýtist best. Það gerir vinnuna skemmtilegri og árangursríkari.
- 9. Vertu þú sjálf - stattu við sannfæringu þína og hafðu umburðaðlyndi fyrir skoðunum annarra.
- 10. Mundu að staðan veitir tækifæri - með þátttöku í sveitastjórnarmálum getur þú haft áhrif á nærumhverfið og færð rödd til að láta í þér heyra í stjórnmálum og fjölmiðlum. Nýttu fagþekkinguna innan kerfisins.
Að auki má bæta því við að konur innan stjórnmála eru flestar meðvitaðar um mikilvægi þess að styðja og styrkja hver aðra á þeim vettvangi sem karlar hafa verið ráðandi. Nýttu þér reynslu annarra kvenna hvar í flokki sem þær standa og leitaðu ráða.
Sjáumst í baráttunni!
Þórey A. Matthíasdóttir, formaður Landssambands framsóknarkvenna
Drífa Hjartardóttir, formaður Landssamands sjálfstæðiskvenna
Drífa Snædal, framkvæmdastýra Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs
Kolbrún Stefánsdóttir, varaformaður Frjálslynda flokksins
Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar
(grein birt m.a. í Fréttablaðinu í dag, á www.visir.is og fleiri stöðum)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Kveðja til þín frænka frá Florida..Bara að kíkja á bloggið..Klukkan hjá mér er rúmlega tíu..
Sigurbjörg Eiríksdóttir, 15.11.2009 kl. 03:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.