Fyrstu tillögur efnahagsnefndar SUF

Tillaga
- að aðgerðum vegna skuldastöðu heimila

 
Lagt er til að heimilum verði veitt heimild til að skila veðsettum eignum auk þess sem stofnaður verði óháður og gagnsær uppboðsmarkaður eigna.
 
Heimild til að að skila veðsettum eignum
Gera þarf banka og fjármálastofnanir ábyrgari fyrir útlánastarfsemi sinni með því að veita eigendum fasteigna og bifreiða heimild til að skila veðsettum eignum auk álags af höfuðstól skuldarinnar. Samhliða því falli niður krafa á hendur skuldara.
 
Uppboðsmarkaður fyrir eignir
Stofna þarf óháðan og gagnsæjan uppboðsmarkað fyrir eignir banka og fjármálastofnana sem hafa verið yfirteknar eða skilað inn. Slíkur uppboðsmarkaður yrði á forræði opinberra aðila og mun auka skilvirkni fasteignamarkaðarins.
 
Greinargerð
 
Skuldsetning á Íslandi
Vandinn er tvíþættur, annars vegar þung greiðslubyrði lána og hins vegar neikvæð eigin-fjárstaða skuldara. Mótaðar hafa verið ákveðnar lausnir fyrir þá sem eru í greiðsluvanda en stjórnvöld hafa hvorki tekið nægjanlega skýra afstöðu gagnvart þeim sem hafa neikvæða eiginfjárstöðu, né til endurreisnar á áreiðanlegra og öruggara regluverki á fjármálamörkuðum til framtíðar.
 
Staðan í dag 
Ójafnvægi hefur ríkt milli lánveitenda og lántakenda undanfarna áratugi, lántakendum í óhag. Koma þarf í veg fyrir að óvandaðir fjármálagjörningar dragi óhóflega úr virkni samfélagsins. Mikilvægt er að jafna ábyrgð lánveitenda og lántakenda. Eftir óhóflega lántöku og lánveitingar á Íslandi undanfarin ár eiga stjórnvöld að beita sér fyrir aukinni ábyrgð lánveitenda og þar með draga úr ábyrgð samfélagsins á útlánastarfsemi fjármálafyrirtækja.
 
Stefnan
Nýleg lög ætla fjármálafyrirtækjum að leysa úr skuldavanda heimila. Þar með leggja stjórnvöld grundvöll að ánauð til langs tíma fyrir þá skuldsettu. Tilgangur laganna er að hámarka greiðslugetu en um leið er dregið mjög úr greiðsluvilja skuldara. Ólíklegt er að skuldarar muni geta staðið undir framtíðargreiðslum þegar laun hækka umfram verðlag. Nefna má Japan sem dæmi þar sem þung skuldabyrði dregur úr hagvexti og leiðir til efnahagslegrar stöðnunar.

Óþarflega stór hluti samfélagsins stefnir í þrot. Þar með verður sá hópur óvirkur í uppbyggingu samfélagins og það samfélagslega tap sem Íslendingar eiga enn eftir að verða fyrir. Að óbreyttu reisum við að nýju það regluverk sem átti hlut í að skapa vandann.
Til framtíðar

Áðurnefndar tillögur eru tveir af mörgum hornsteinum sem Ísland þarf að leggja áður en við getum sannfært þjóðarsálina og umheiminn um að hér geti risið fyrirmyndarsamfélag. Þar er gagnsætt regluverk með ábyrgum lánveitendum og lántakendum nauðsynlegt til að endurheimta trúverðugleika fjármálakerfisins.
 
Nánari útfærsla
 
Heimild til að skila veðsettum eignum
Allir einstaklingar fái heimild til að skila veðsettum eignum til fjármálastofnana auk þess að greiða álag af höfuðstól skuldarinnar. Fellur þar með niður heimild lánveitenda til frekari krafna á lántaka vegna þeirra tilteknu viðskipta. Mikilvægt er að gera fjölskyldum kleift að halda heimilum sínum með forleigurétt á skiluðum eignum, ef eignirnar seljist ekki á uppboðsmarkaði.
 
Dæmi
24 milljóna 80% lán er tekið fyrir íbúð (lögheimili) að verðmæti 30 milljónir:
 
Eignin rýrnar síðar niður í 25 milljónir og lánið sem var 24 milljónir stendur nú í 34 milljónum. Lántakinn skilar lyklinum og fellur þá skuldin niður en fyrir þetta greiðir lántakinn 1,7 milljónir króna (5% af 34 milljónum).
 

  • Lagt er til að álag á lögheimili verði 5% og 10% á aðrar eignir einstaklinga.
  • Þak verði sett á hve oft einstaklingar geti nýtt sér heimildina og skal það bundið við eina eign á hverjum áratug.
  • Skattstjóri haldi skrá um innskilanir.
  • Ríkið leggi til 2% álag með hverri innskilaðri eign til að milda áhrifin á fjármálakerfið, út árið 2010.
  • Þegar um lán til fyrstu kaupa á fasteign er að ræða, ábyrgist ríkið 5% endurgreiðslu að auki til lánveitenda komi til innskilana. Er þar miðað við allt að 90% lán til fyrstu kaupa fasteigna til að stuðla að eðlilegum möguleikum fyrir ungt fólk að koma sér þaki yfir höfuðið.


Helstu kostir
 

  • Bankar fá hluta af kröfum sem eru í raun tapaðar.
  • Útlán verða að vera framkvæmd af vandvirkni, m.t.t. verðþróun veða.
  • Ábyrgð lánveitenda er aukin.
  • Þegar losnar um yfirveðsettar eignir skapast möguleiki til að virkja fé sem liggur bundið í fjármálastofnunum.
  • Leiðin stuðlar ekki að hærri vöxtum, en dregur þess í stað úr óhóflegum lánveitingum fjármálastofnana.
  • Dregin er sanngjarnari lína á milli þeirra sem geta losað sig úr erfiðri stöðu og þeirra sem ekki verður bjargað.
  • Það dregur úr kostnaði samfélagsins vegna landflótta og óþarfa gjaldþrota.


Óháður uppboðsmarkaður fyrir eignir
Öllum fjármálastofnunum verði gert skylt að auglýsa þær eignir sem teknar eru með nauðungarsölu, auk allra innskilaðra eigna, á óháðum og gagnsæjum uppboðsmarkaði. Ljóst er að mikil tortryggni ríkir í þjóðfélaginu í dag varðandi starfsemi fjármálastofnana og hvernig farið er með þær eignir sem eru yfirteknar. Nauðsynlegt er fyrir uppbyggingu samfélagsins að allt ferli sé gert lýðræðislegt og gagnsætt þar sem allir eigi jafna möguleika til þátttöku. Með það að leiðarljósi skal skylda allar fjármálastofnanir til að auglýsa allar þær eignir sem skipta eiga um eigendur þ.m.t. þær eignir sem teknar eru yfir með nauðungarsölu. Fjármálastofnunum er ekki gert skylt að selja allar þær eignir sem teknar eru yfir og skilað inn, heldur gert að fara eftir ákveðnum reglum komi til sölumeðferðar eigna. Við frekari mótun reglna fyrir uppboðsmarkaðinn er hægt að hafa til hliðsjónar reglur Kauphallar Íslands og reglur fiskmarkaðanna.

Auglýsa skal eignirnar líkt og uppboð á eignum eru auglýst í dag auk frekari upplýsinga á þar til gerðri vefsíðu. Á vefsíðunni skal birta allar nauðsynlegar upplýsingar um eignirnar sem öllum gefst kostur á að bjóða í, hvort sem er eignasöfn s.s. fyrirtæki eða stakar eignir. Hið opinbera myndi stofna og starfrækja slíkan uppboðsmarkað. Markaðurinn tryggir jafnræði milli aðila, gagnsæi í þjóðfélaginu og dregur þar með úr óheilbrigðum viðskiptaháttum, samfélaginu til hagsbóta. Þessi leið mun flýta fyrir óhjákvæmilegri lækkun eignaverðs og vonandi ljúka lækkunarferli eigna. Markaðurinn sér um eftirlit  með forleigurétti þeirra sem áður hafa skilað inn sínum eignum, sem gefur því fjölskyldum kost á að halda í heimili sín.
 

  • Lagt er til að lágmarks auglýsingatími verði 2 vikur.
  • Auglýsingar verði sambærilegar venjubundnum fasteignaauglýsingum og verði birtar á almennum leitarsíðum fyrir fasteignir.
  • Ef hæstu boðum er hafnað ber fjármálastofnunum að gera grein fyrir þeim ástæðum sem liggja að baki til Fjármálaeftirlitsins.


Helstu kostir
 

  • Dregur úr tækifærum til misnotkunar.
  • Kemur hreyfingu á fjármagn og viðskipti.
  • Stuðlar að endurreisn á trúverðugleika fjármálakerfisins og fjármálafyrirtækja.
  • Jafnræði varðandi sölumeðferð eigna.
  • Ýtir undir þróun leigumarkaðar en þó mun aðferðin líklega flýta fyrir óumflýjanlegri lækkun á fasteignaverði.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband