Ljósviti hugans

0111viti-nota

Ég tel það ákaflega mikilvægt að finna sitt innra logandi ljós, sinn innri vita til þess að farnast vel í lífinu.

Ég held að margir sigli í hringi vegna þess að þeir hafa ekki fundið sinn vita og flest lendum við einhvern tímann á skeri því við sigldum ekki eftir okkar eigin stefnu.

Kveikjan að þessum hugsunum er samtal sem ég átti við mætan mann um daginn og ég dáðist svo að því hversu skýrt mótaðar skoðanir og viðhorf hann hafði á þeim málefnum sem við ræddum og það var svo bersýnilegt að hann var ekki að reyna að segja hluti sem hann vissi fyrirfram að féllu í kramið hjá mér eða öðrum áheyrendum en hann var heldur ekki að reyna að vera bara fúll á móti. Hann hafði bara mjög skýra sýn á sinn eigin vita, hvaða skoðanir og viðhorf hann hafði og hann stóð mjög sanngjarnlega með sjálfum sér.

Og ég held að þetta sé einmitt kjarni málsins.

Þetta hljómar svo sáraeinfalt. Stattu með sjálfri þér/sjálfum þér og allt það en... gerum við það alltaf? Er ekki oft svo miklu auðveldara að segja eitthvað, gera okkur upp viðhorf, skoðanir, tilfinningar eða annað sem falla vel í það umhverfi sem við erum stödd í og tryggja okkur velvild og vinsældir annarra. Ég held að fæstir geri þetta meðvitað en flestir vilja að öðrum líki vel við sig og þess vegna getur okkur hætt til þess að missa svona sjónar á okkar eigin vita og sigla í hringi eða eftir óljósri stefnu annarra.

Ég held að það sé bara heilmikil vinna að þroska sjálfan sig á þann veg að geta fundið hratt og vel út hvaða skoðun, viðhorf, tilfinningu maður hefur í sínum innsta kjarna og geta hikstalaust varpað henni fram án þess að óttast höfnun eða önnur neikvæð viðbrögð annarra. Sem sagt að setja upp sinn eigin vita í kollinum sem lýsir manni í hvaða átt maður vill sigla hverju sinni.

En með því að sigla svona eftir eigin vita þá aukast líkurnar á því að vera heill í því sem maður segir og gerir og vera í samræmi við sjálfan sig. Einstaklingur sem jafnvel viljandi hagar seglum eftir vindi á verulega á hættu að lenda í ósamræmi við sjálfan sig og missa þannig trúverðugleika.

Veltu því fyrir þér á næstunni þegar þú ert í einhverjum aðstæðum hvaða skoðun, viðhorfi eða tilfinningu þú varpar fram, hvaðan það kemur, hvort það sé litað af stefnu annarra, möguleikum á að þóknast öðrum eða hvort þú ert að standa með þér á sanngjarnan hátt og stendur fyrir þínu. Hvort þú siglir eftir því ljósi sem þinn viti lýsir þér!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Flott hjá þér frænka. Ég gæti trúað að vitinn verði ekki fullkláraður hjá fólki fyrr en í lok ævinnar. Við erum alltaf að þroska okkar eigið sjálf....

Kveðja.

silla.

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 9.12.2009 kl. 08:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband