Föstudagur, 11. desember 2009
Ríkisstjórn sem er ekki sammála þjóð sinni
Hvernig stendur á því að ríkisstjórn sú sem vill kenna sig við félagshyggju og virkt samráð skuli gera sig svona hróplega seka um það að dengja hrikalegum skuldum á saklausa íbúa þessa lands án þess svo mikið sem að reyna að standa í lappirnar og skoða þær leiðir sem mögulegt er að skoða áður en skuldasúpan er kokgleypt?
70% þjóðarinnar vill að forsetinn staðfesti ekki Icesave.
33 þúsund manns hafa skrifað undir á lista Indefence (www.indefence.is) um að hann skrifi ekki undir. Hvet þig til að skrifa undir ef þú ert ekki þegar búin/nn.
Fólk vill fá að taka sjálft ákvörðun um þetta stóra mál. Eigum við sem almenningur ekki rétt á þjóðaratkvæðagreiðslu um jafn umdeilt og afgerandi áhrifamikið mál sem mun snerta hag okkar allra um langa ókomna tíð?
Það eru bara alls ekki allir sammála þeirri meðhöndlun sem þetta mál hefur fengið í þinginu og margir telja að ekki hafi verið fullreynt að leita réttar okkar á því að takast á hendur skuldbindingar sem leggjast á okkur með mjög vafasömum lagalegum hætti og snúa að ábyrgð fleiri landa en okkar. Það er bara ekki réttlætanlegt að leggja slíkar skuldir einkaaðila sem fengu að spila með óútfylltan tékka án eftirlits eða regluverks á almenna borgara. Hvorki eftirlit né regluverk var í lagi hér á landi eða erlendis og almenningur á Íslandi látinn gjalda fyrir það.
Þetta mál á skilið réttláta dómsmeðferð í alþjóðasamfélaginu og íslensk stjórnvöld eru aumingjar að beygja sig undir slíkt ofbeldi án þess að steyta hnefann og kokgleypa þetta yfir þjóð sína.
Vinnubrögðin hafa einkennst af því að reyna að keyra þetta óséð í gegnum þingið, þekkingarleysi á flóknum lagalegum atriðum og hótunum í upphrópunarstíl. Þar að auki bregðast afbragðs þingmenn á undarlegasta hátt við eins og Atli Gíslason sá ágæti maður sem er of upptekinn að sinna skyldum á lögfræðiskrifstofu sinni til þess að taka þátt í einni mikilvægustu atkvæðagreiðslu sem nokkur þingmaður þarf að taka þátt í. Trúverðugt?
Er það vegna þess að ef við greiðum ekki þennan tékka þá fáum við ekki að vera með í ESB klúbbnum? Á svo að nota það sem agn til að lokka þjóðina inn í ESB að við gætum fengið eitthvað af þessu fellt tilbaka. Það er ljótur leikur sem ég vona svo sannarlega að sé ekki í gangi.
Tek undir með Páli Óskari í Kastljósinu áðan! Ég er ein þeirra sem vil fá að greiða atkvæði um þetta. Að auki vil ég ríkisstjórn sem getur staðið í lappirnar fyrir mína hönd og lætur ekki ginnast af gylliboðum og hótunum ESB og handbendla þeirra.
Ég vil ríkisstjórn sem stendur með þjóð sinni!
Icesave mun ekki hverfa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:40 | Facebook
Athugasemdir
Já sammála í einu og öllu hér. Krefjumst Ríkistjórnar sem stendur með okkur, hefur þor og kjark. Kveðja.
Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 11.12.2009 kl. 22:10
Frábært blogg hjá þér. Vinstri grænir verða að fara að vakna af Þyrnirósasvefninum. Það virðist ekki vera hægt að vekja Samfylkinguna. En Lilja Mósesdóttir og Ögmundur standa sig vel, vonandi Atli Gíslason og Ásmundur Einar Daðason þegar þeir átta sig og standa í lappirnar fyrir þjóð sína. Því Icesave verða umræða næstu 30 ára þegar þegnar landsins verða að borga allt að 6% af sköttum sínum í breska og hollenska ríkiskassana.
Þórey A. Matthíasdóttir (IP-tala skráð) 11.12.2009 kl. 23:25
Góð að venju mín kæra..Þú veist kannski ekki að bóndi minn er framsóknarmaður!
Kveðja.
Sigurbjörg Eiríksdóttir, 11.12.2009 kl. 23:45
Sammála því að ég vil ríkisstjórn sem stendur með þjóð sinni. Sjaldan hefur nokkur ríkisstjórn svikið jafn mikið af kosningaloforðum á jafn skömmum tíma. Fyrrverandi formaður Samfylkingar sagði reyndar við kjósendur þessa lands "þið eruð ekki þjóðin" og kannski segir það meira en mörg orð. Kjósendur eru til einskis í huga núverandi stjórnarflokka nema síðustu daga fyrir kjördag.
Jón Óskarsson, 12.12.2009 kl. 14:30
Ég var á fundi um daginn, með Borgarafunda-hópnum. Lára Hanna er með góða lýsingu af hvað fór fram á þeim fundi, sem okkur var þá sagt frá, þ.e. nánar tiltekið fundi þessa hóps með fulltrúum AGS ásamt þingmönnum Hreyfingarinnar:
Sjá hér
Punkturinn er sá, að Ísland er gjaldþrota, og leið ríkisstjórnarinnar er augljóst blindstræti.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 13.12.2009 kl. 13:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.