Viðsnúningur kl. 17:47 - bjartari tímar framundan?

Í dag er lengsti dagur ársins. Sennilega finnur hver einasti Íslendingur fyrir þunga skammdegisins hvernig hann liggur á herðunum á okkur og hefur verið að leggjast æ þéttar á okkur undanfarnar vikur. Það sem heldur okkur gangandi eru fallegu jólaljósin, einfaldleiki lífsins og vonin sem við sjáum í augunum á hverju öðru.

Kl. 17:47 mun þetta allt breytast til batnaðar. Þá fer í bókstaflegri merkingu stjörnufræðanna að birta hjá okkur á ný og daginn að lengja sem ná mun hámarki í júní. Þá verður þessi erfiði vetur að baki og nýtt sumar með sól og fögrum fyrirheitum tekið við. Sama hversu erfitt árar þá bræðir sólin alltaf ísinn að lokum og nýtt líf kviknar með vorinu og söng fuglanna.

En það eru hins vegar váleg tíðindi í kortunum fyrir okkur íslenska þjóð. Við erum að berjast við ægivald annarra þjóða og sitjum undir kúgun og fantabrögðum. Við sitjum í súpu sem við flest áttum lítinn þátt í að hræra í. Og það kaldhæðnislega í þessu er það að þeir sem lögðu mest til hráefni í þessa súpu eru snyrtilega komnir með póstfang í Bretlandi. Já, hluti þeirra sem sökktu okkur í þetta skuldafen vegna græðgi og óhófs kýs það að borga Gordon Brown og Alistair Darling frekar skattana sína heldur en taka þátt í endurreisn sinnar eigin þjóðar. Þrátt fyrir að hafa keyrt þetta litla samfélag á heljarþröm. Þeir vilja frekar styrkja þjóð þá er setti hryðjuverkalög á Ísland vegna þeirra eigin gjörða en sýna ábyrgð og moka upp eftir sig hér á landi. Og það sem enn merkilegra er að upphaf þess fjármagns sem þeir hafa spilað með eins og pókerpeninga í útlöndum má meðal annars rekja allt ofan í sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar. Er það furða að þjóðin sé reið og vonlaus og með ögn af svartsýni?

Ríkisstjórninni hefur nefnilega stórlega mistekist enn sem komið er að ráða eitt við neitt og með nýjasta útspilinu, auðlindagjaldinu þá hafa þeir hvatt til þess að hluti "þeirra ríku" (hvaðan svo sem auður þeirra er nú kominn) kjósa frekar að borga Gordon Brown en leggja til samfélagsins hér. Þetta leiðir til þess að dugleg íslensk millistétt sem eytt hefur stórfé í að mennta sig eða afla sér reynslu mun þurfa að borga fyrir sukk súpuna sem mun svo aftur auka verulega hættuna á því að sá hópur flýji land bjóðist grænna gras annars staðar. Þetta er ekki í lagi og það er ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af þessu. Á meðan efnamenn flýja í hrönnum til Bretlands eða aflandseyja hér og þar sitjum við hin eftir og greiðum fáránlega háa skatta, jafnvel hátekjuskatt af okkar lágu tekjum. Á sama tíma er öll þjónusta skert svo verulega að hætta skapast af því að stór bakreikningur myndist víðs vegar í kerfinu t.d. velferðarkerfinu.

Ég er því svartsýn eins og stjórnarandstaðan og deili ekki bjartsýni hæstvirts fjármálaráðherra sem virðist ekki sjá afleiðingar hinnar ógurlegu vinstri leiðar að skattleggja hér og þar og alls staðar svo allir hafi það nú jafn skítt og hver maður sem getur forði sér undan ef mögulegt er.

Ég er þó bjartsýn kona að eðlisfari og ætla að fagna bjartari tímum á landi hér og síhækkandi sól á lofti. Ég hef fulla trú á íslensku þjóðinni, krafti hennar, þor, þekkingu og dirfsku. Íslenska þjóðin mun alltaf bjarga sér. Hitt er annað mál að það skiptir máli hér að um raunverulegt réttlæti verði að ræða. Það skiptir máli að það náist í skottið á þeim sem bera ábyrgð og það skiptir máli að endurheimt verði það fé sem stolið hefur verið af þjóðinni. Það skiptir einnig máli að raunverulegur lærdómur verði uppskera þessara ömurlegu aðstæðna og breyting verði á regluverkinu, eftirlitinu og stöðu þeirra sem ábyrgð bera á öllu saman. Öll getum við lært eitthvað af þessu, mismikið eftir því hversu djúpt við sukkum í súpuna.

Við megum ekki verða meðvirk í þessu sjúklega ástandi og þakka bönkunum bara kurteist og pent fyrir að lengja í lánunum okkar með öllum sínu fínu vel auglýstu leiðum. Sömu bönkunum og vildu ólmir lána okkur allar heimsins fjárhæðir fyrir öllu og engu. Þeir græða svo hressilega á sínum eigin mistökum þar sem flest þessara úrræða eru þannig að reikningurinn verður hærri fyrir skuldarann. Búið að tryggja fjármagnseigendur og afskrifa hjá þeim sjúklega gráðugu en íslenskur almenningur skal bara greiða sín kexrugluðu lán með bros á vör og þakka fyrir góða þjónustu við þessi frábæru úrræði sem eiga að taka á þeim vanda sem bankarnir og stjórnendur þeirra bera stóra ábyrgð á. Merkilegur heimur sem við búum í. Á sama tíma má fjölskyldum og fyrirtækjum í landinu blæða út og ekki hugnast stjórnendum þessa lands að koma til móts við skuldaþrælana sína með afskrift eða nokkurs konar leiðréttingu.

Og ofan á allt þá keppast stjórnvöld við að klípa af beinagrindum í stað þess að skera fituna af feitustu skrokkunum með fáránlegum hugmyndum eins og því að fresta mánuði af töku fæðingarorlofs um heil þrjú ár eins og það sé svo auðvelt að skutla sér úr vinnunni þremur árum seinna, taka barnið af leikskóla og skapa þá ónýtt pláss þar svona til að kóróna ruglið. Hver er ráðgefandi fyrir þessa ríkisstjórn? Á það fólk ekki börn eða hvað? Svona vanhugsaðar hugmyndir eiga ekki einu sinni að geta litið dagsins ljós, hvað þá að fara í umræðuna! Skera í kerfi sem búið er að höggva tvisvar sinnum í og verðandi foreldrar með barn á leiðinni geta ekki staðið sín fjárhagsplön þar sem breytingar á kerfinu sveiflast eins hratt og gengi krónunnar.

Það er því full ástæða fyrir okkur öll til þess að vera vel á verði og veita blessuðum stjórnvöldum okkar öflugt aðhald því vanhugsaðar ákvarðanir þeirra geta haft mun meiri áhrif á daglegt líf hvers og eins okkar en okkur geðjast að og við viljum horfast í augu við.


mbl.is Fjármálaráðherra segir bjartari horfur framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Hverju orði sannara frænka!

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 21.12.2009 kl. 17:27

2 identicon

Góð færsla hjá þér .

Aðalheiður Þórisdóttir (IP-tala skráð) 21.12.2009 kl. 18:26

3 identicon

Veturinn verður erfiður okkur Íslendingum. Deili áhyggjum þínum. Ríkisstjórnin ræður ekki við málin.

Þórey A. Matthíasdóttir (IP-tala skráð) 22.12.2009 kl. 09:50

4 identicon

Góð grein hjá þér Kristbjörg.

Eins og talað frá mínu hjarta.

Jólakveðja 

Sveinn Halldórsson.

Sveinn Halldórsson (IP-tala skráð) 22.12.2009 kl. 12:21

5 identicon

Góð færsla hjá þér vinkona. Mín skoðun er sú að það megi moka öllu þessu fólki útaf alþingi og fá fagfólk í sætin. Hef ekki trú á nokkrum þarna innan dyra til að koma okkur útúr þessu.

 En..vonandi hef ég rangt fyrir mér..kemur í ljós:)

Linda (IP-tala skráð) 25.12.2009 kl. 18:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband