Hið nýja Ísland Samfylkingarinnar

Þorbjörn Þórðarson skrifar:

Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, hefur tilnefnt sjálfan sig í stjórn Íslandsbanka. Jón Sigurðsson hefur verið tilnefndur sem formaður í stjórn bankans. Jón var stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins á síðasta ári þegar skilanefnd Glitnis var skipuð, en Árni Tómasson var einmitt skipaður af FME.

Skilanefnd Glitnis bíður nú eftir samþykki FME á þeim 6 stjórnarmönnum sem skilanefndin hefur tilnefnt í bankaráð Íslandsbanka. á meðal þeirra sem eru tilnefndir er Jón Sigurðsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, en Jón var stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins fram að hruni, en hann var skipaður formaður þess í ársbyrjun 2008.

Jón Sigurðsson hefur rík tengsl við Samfylkinguna og var skipaður stjórnaformaður FME af Björgvini G. Sigurðssyni viðskiptaráðherra. FME skipaði síðan skilanefnd Glitnis, sem stofnaði ISB Holding ehf. sem tilnefndi Jón Sem stjórnarformann Íslandsbanka og fimm aðra stjórnarmenn.

Glitnir er þrotabú og getur lögum samkvæmt ekki átt banka. Þess vegna var farin sú að leið að stofna ISB Holding ehf. sem sótti síðan um leyfi hjá FME til að eiga 95 prósent hlut í Íslandsbanka. Í stjórn þess félags eru Marta Eiríksdóttir, fyrrverandi stjórnarmaður í Íslandsbanka. Ólafur Ísleifsson, hagfræðingur og María Björg Ágústsdóttir, starfsmaður skilanefndar Glitnis.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hafði ISB Holding ekkert með tilnefningu Jóns og Árna að gera, heldur hafði tilnefning hans verið ákveðin áður. Ákvörðun um tilnefningu var tekin af skilanefnd Glitnis.

Á glærukynningu sem sýnd var lokuðum hópi kröfuhafa, svokölluðum ICC-kröfuhafahópi, var Árni sjálfur nefndur sem stjórnarmaður ásamt Jóni. Í stuttu máli er það því Árni Tómasson sem skipar Árna Tómasson, í stjórn bankaráðs Íslandsbanka. (tekið af www.visir.is í dag).

Áhugaverð lýsing á þessum sama Jóni tekin af vef Egils Helgasonar http://silfuregils.eyjan.is/:

...Skiptir þá engu að Jón var annar helsti valdamaðurinn í þeirri stofnun sem átti að hafa eftirlit með íslenska bankakerfinu á tímanum þegar það hrundi.

Þrátt fyrir það telur Herðubreið að hann njóti mikillar virðingar erlendis.

Rifjast þá upp að forstjóri FME hélt hundrað fundi á síðustu misserum bankakerfisins þar sem hann lýsti því hvað það væri frábært. Og að í ágúst 2008 stóðust íslensku bankarnir álagspróf FME með glans, það var innan við tveimur mánuðum fyrir hrun.

Og að sjálfur stjórnarformaðurinn kom fram í auglýsingapésa frá Landsbankanum þegar Icesave reikningarnir voru opnaðir í Hollandi – fyrripart árs 2008. Bæklingurinn bar yfirskriftina Icesave launched in the Netherlands en fyrirsögn viðtals við Jón Sigurðsson sem þar birtist var Finances of the Icelandic banks are basically sound...

Er þetta það sem Samfylkingin ætlar að bjóða fólki upp á? Er þetta hið nýja Ísland þessa flokks? Glæsileg byrjun! Þetta fer að minna óhugnanlega á Fagra Ísland sama flokks sem aldrei varð pappírsins virði.

Flokkurinn sem gagnrýnt hefur harðlega fyrri ríkisstjórnir keppist nú við það eins og enginn sé morgundagurinn að raða sínu fólki á jöturnar til þess að japla á þeim feitu bitum sem eftir eru og urðu ekki brunanum að bráð. Þar að auki virða þeir að vettugi sjálfsagðar óskir skuldaþræla þessa lands eins og þær að breyta vinnubrögðum til hins betra eins og að auka gagnsæi. Sjálfsagt þykir þeim að auki að semja við einn mesta geranda hrunsins um það að taka þátt í uppbyggingunni.

Sami flokkur og keppist nú við í samstarfi við flesta Vinstri græna að sökkva landsmönnum og komandi kynslóðum í skuldafen skulda sem þessir nýju skuldaþrælar bera enga ábyrgð á. Þessum flokki finnst greinilega ekki borga sig að taka neina áhættu á því að fara með slíkt vafamál fyrir dómstóla til þess að reyna á hvort við eigum að greiða þessa vægast sagt vafasömu skuld sem er m.a. tilkomin vegna gallaðs regluverks Evrópu.

Sennilega vegna þess að með því að setja niður fæturnar og standa í lappirnar gætum við mögulega styggt einhvern og átt erfiðara með að komast inn í Evrópusambandið sem þessum flokki er svo afar umhugað um að komast í, sama hvað það kostar. Eitt af fáum kosningaloforðum sem þeir ætla sér að efna. Þó það kosti það að þjóðin sé skuldsett 320% af vergri landsframleiðslu og þó búið sé að nefna það af málsmetandi aðilum að við 240% sé komið yfir markið sem þjóðin geti ráðið við. Þrátt fyrir að færustu sérfræðingar og greiningar mæli gegn því að takast þessa skuld á hendur.

Nei, skuldirnar skulum við borga sama hvað tautar og raular. Við skulum ekki veita neina mótspyrnu heldur beygja okkur undir kúgun þessara stórvelda sem okkur langar svo mikið að komast í klúbbinn með. Sama þó það kosti það að lífskjör hér verði með versta móti, miðstéttinni verði útrýmt og fólk flýji land. Við skulum hækka skatta upp úr öllu valdi og við skulum setja á auðlindagjald þannig að þeir sem eiga fjármagn hér (stolið eða óstolið) keppist við það að flytja ríkisföng sín til annarra landa svo þeir geti greitt skattana sína til annarra þjóða eins og góðvina okkar Breta sem ætla að auki að rukka okkur um 3 milljarða vegna óskilgreinds kostnaðar. Ofan á hinar litlu 45 milljarða sem við ætlum að greiða þeim í vexti af Icesave á ári.

Okkur þvengmjóu mjólkurkýrnar (þær sem mjólka rjómann er fluttar) sem enn eru eftir hér á landi munar nú ekkert um það að mjólka ofan í þá 100 milljónir á dag í vexti af Icesave, er það nokkuð? Við klípum líka bara meira af eldri borgurum, barnafólki og þeim sem minna mega sín og tökum kaffi af öllum kaffistofum landsins þá hlýtur þetta að hafast.

Og þegar við höfum gert þetta í nógu langan tíma, selt slatta af auðlindum okkar upp í skuldir þá hljótum við að fara að verða gjaldgeng í samfélag þjóðanna á ný. En verður það spennandi samfélag sem verður á að líta hér?

Glæsileg framtíðarsýn. Þvílíkt hugrekki, þor og dirfska sem býr í ríkisstjórn þessa lands. Minnir mann bara á þorskastríðin. Maður fyllist bara stolti, já eða þannig.


mbl.is Lokaumræða um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Kristbörg heldur því sem sagt fram að okkur standi til boða að semja ekki um IceSafe og borga þar af leiðandi ekki krónu. Þetta er óábyrgt tal og þjóðinni er heiður í að vera sýnd sú virðing að samið sé við okkur. Það þýðir á mannamáli að við höldum ennþá haus í pólitískum skilningi. Að ætla sér að "fara í stríð" út af þessu mun skaða málstað okkar til allra átta og innviðir þjóðfélagsins þola ekki hvað sem er.

Innganga í ESB hefur ekkert með málið að gera, ekki frekar en fyrir 15 árum þegar slíkt var fyrst reifað. Spurningin hvort ósætti þjóðarinnar við tvær bandalagsþjóðir muni hafa þýðingu í slíkum viðræðum er hinsvegar augljós en það hefur efnislega ekkert með málið að gera.

Gísli Ingvarsson, 28.12.2009 kl. 22:02

2 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Bara að benda þér á Kidda að Árni Tómasson er framsóknarmaður! Og að hvorki Samfylking né Framsókn eiga aðkomu að skipun Stjórnar Íslandsbanka þar sem að kröfuhafar eiga um 95% í bankanum. Held að kröfuhafar erlendir hafi ekki áhuga á að stjórnmálamenn séu að skipta sér af stjórnarskipun eftir að þeir gjörningar eru komnir í gegn. Síðan er rétt að benda á að það er sérstök bankasýsla sem fer með eignarhluti ríkisins í bönkunum. En ef menn vilja búa til vandamál þá er það auðvita hægt alltaf.

Þannig held ég að þú gætir ekki nefnt mér neinn sem gæti stýrt stjórn banka af þekkingu án þess að hann hafi unnið í eða í tengslum við banka sem hafa orðið fyrir tjóni, hruni og ríkisstjórn þurft að grípa þar inn í. Jafnvel þó þú færir til útlanda að leita. Allir reyndir sérfræðingar í bankamálum góðir og slæmir hafa tengsl hér við hrunda banka.

Og án þess að ég sé sérstaklega þessu bót með Jón Sigurðsson þá bendi ég á að skoða reynslu hans fyrir utan þessa mánuði sem hann var í FME áður en hrunið var.

   Stúdentspróf MA 1960. Fil. kand. í þjóðhagfræði, tölfræði o. fl. frá Stokkhólmsháskóla 1964. M.Sc. Econ. í þjóðhagfræði frá London School of Economics and Political Science 1967.
Hagfræðingur við Efnahagsstofnun 1964—1967, deildarstjóri hagdeildar þar 1967—1970, hagrannsóknastjóri þar 1970—1971. Forstöðumaður hagrannsóknadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins 1972—1974. Forstjóri Þjóðhagsstofnunar 1974—1986. Fastafulltrúi Norðurlanda (executive director) í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 1980—1983. Skip. 8. júlí 1987 dóms- og kirkjumála- og viðskiptaráðherra, einnig ráðherra Hagstofu Íslands, lausn 17. sept. 1988, en gegndi störfum til 28. sept. Skip. 28. sept. 1988 viðskipta- og iðnaðarráðherra, lausn 23. apríl 1991, en gegndi störfum til 30. apríl. Skip. 30. apríl 1991 viðskipta- og iðnaðarráðherra, lausn 14. júní 1993. Bankastjóri Seðlabanka Íslands og formaður bankastjórnar 1993—1994. Aðalbankastjóri Norræna fjárfestingarbankans 1994—2005.
Dómandi í kjaradómi 1970—1980. Varafulltrúi Íslands í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 1974—1987. Fulltrúi Íslands í stjórn Norræna fjárfestingarbankans 1976—1987, stjórnarformaður 1984—1986. Fulltrúi Íslands í hagþróunar- og hagstjórnarnefnd OECD 1970—1980 og 1983—1986. Formaður ráðherrafunda OECD 1989

Sennilega sá Íslendingur sem hefur mesta þekkingu á bankamálum þó hann hefði átt að beita meiri festu sem formaður stjórnar FME. Hann m.a. sagði í febrúar 2008 að brýnt væri að koma útbúum Landsbankans í dótturfélög en gerði ekki nóg til að svo yrði.

Magnús Helgi Björgvinsson, 28.12.2009 kl. 22:13

3 Smámynd: Höskuldur Pétur Jónsson

Já mikil er andskotinn í öðru veldi "sagði pabbi gamli þegar honum var misboðið"

En þetta er bara það sem koma skal ef gamla krataklíkan á að fá að ráða einu sinni en,voru það ekki þeir sem komu helvítis verðtrygginguni á á sinum tíma ?ég man ekki betur, og rökin voru að það þyrfti að tryggja peninga gamlafólksins.

En hvar eru þeir peningar núna? jú í vösum þjófa og fjármagnseigenda,verðtryggingin var nefnilega búin til fyrir þá,og nú dugar hún ekki til lengur þá bara fella þeir gengi og nú fer fram sú mesta eignaupptaka sem sögur fara af í hinum vestræna heimi,og eingin gerir neitt.

Er ekki kominn tími til að gera eitthvað róttækt t.d. nýja byltingu og hún gæti heitið amboðabyltingin sem sagt skoplur og haka og fl.

Nei í alvöru ætlum við vinnandi fólk að láta ræna okkur öllu sem við höfum náð að nurla saman í gegnum árin ,ég er sjálfur 62 ára og ef fram heldur sem horfir þá verð ég eignalaus og stór skuldugur og börnin,barnabörnin,barnabarnabörnin verða látin borga óreiðuna og glæpamennskuna sem þau eiga enga sök á,hverslags þjóðfélag erum við að búa til inn í framtíðina.

Hvað réttlætir það að lána fólki peninga til að koma sér upp húsnæði og þegar liðin eru ekki nema 1 til 2 ár og blekið varla þornað á pappírunum þá hækka allar skuldir um 130% í einu vetfangi af því bankamennirnir sem stálu bönkunum klúðruðu sínum málum algjörlega ,þeir þurfa ekki einu sinni  að borga persónulegar skuldir sínar þeir bara afskrifa þær .

Ef krata klíkan fær að ráða verðum við komnir í EVRÓPUSAMBANDIÐ áður en við höfum snúið okkur við ,undirbúningurinn er þegar hafinn með ráðningu kratana í allar lykil stöður,og það verður eingin þjóðaratkvæðagreiðsla um málið ef þeir fá að ráða ,ekki frekar en í Icsev málinu .

Við verðum að koma þessu liði frá eins fljótt og hægt er áður en þjóðinni blæðir út ég kalla þetta fólk landráðamenn  ef fram heldur sem horfir, og hvet ég allt mitt fólk til að yfirgefa þetta volaða land sem það verður um ókomna tíð ef þetta fólk sem kosið var til allt annarra hlut en að gera alla að ölmusumönnum sem hér búa fær að ráða.

Ég skil ekki VG eru þeir allir á lyfjum eða hvað.

Með þeim aldna þingmannsher ,

fólkið stjórnvöld smána,

hæstarréttarrakkarner,

rífa stjórnarskrána.

Mbk DON PETRO

Höskuldur Pétur Jónsson, 28.12.2009 kl. 22:21

4 identicon

Góð og þörf áminning um þetta mikilvæga mál... ég spyr hvað gerist svona hræðilegt ef við fellum þessa samninga....framtíðin er augljóslega ekki svo glæsileg í því skuldafeni sem býður okkar!

Ég vil kosningu, við erum sjálfstæð þjóð og rödd okkar á að heyrast...skilaboðin eru nokkuð ljós í skoðunarkönnunum til ríkisstjórnarinnar um að þetta er ekki það sem við viljum og er ekki réttlátt fyrir fólkið í landinu ofan á allar skattahækkanirnar.

Anita Karin Guttesen (IP-tala skráð) 28.12.2009 kl. 22:45

5 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Hvaða væl er þetta Gísli og Magnús um að allt fari fjandans til ef við samþykkjum ekki Icesave mér sýnist allt vera farið traustið, peningarnir, þjófarnir og viljinn.

Sigurður Haraldsson, 29.12.2009 kl. 00:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband