Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Aðgengi barna að sálfræðiþjónustu

ChildrenSíðastliðinn föstudag var ég stödd á haustþingi Sálfræðingafélags Íslands. Umfjöllunarefni þingsins var aðgengi barna að sálfræðiþjónustu, núverandi staða og framtíðarsýn. Hér má sjá ágætan pistil um þingið.

Góð erindi voru flutt á þinginu þar sem Hákon Sigursteinsson sálfræðingur og deildarstjóri sérfræðiþjónustu við leik- og grunnskóla á Þjónustumiðstöð Breiðholts fjallaði um sálfræðiþjónustu við börn á Þjónustumiðstöðvum, Ingibjörg Sveinsdóttir sálfræðingur á heilsugæslunni Firði fjallaði um þá sálfræðiþjónustu sem veitt er á heilsugæslunum og Hrefna Haraldsdóttir frá Sjónarhóli fjallaði um málið m.a. út frá sjónarhóli notenda og fjölskyldna þeirra. 

Mín upplifun af fundinum var sú að flestir væru sammála um það að bæta þyrfti aðgengi barna að sálfræðiþjónustu, efla þyrfti framlínuþjónustuna og stuðla þyrfti að því að stofnanir ynnu betur saman. Koma þarf í veg fyrir það að börn bíði mánuðum eða árum saman eftir þjónustu á biðlistum.

Meðal annars var rætt um það að endurskoða þyrfti mannaflaþörfina í stofnunum eins og skólum og heilsugæslum. Víða þykir það sjálfsagt að þar starfi námsráðgjafar og hjúkrunarfræðingar en sálfræðingar starfa ekki lengur í sjálfum skólunum og aðeins eru sálfræðingar á nokkrum heilsugæslustöðvum sem sinna eingöngu börnum og unglingum og foreldrum þeirra.

Með því að efla þá þjónustu sem veitt er strax í upphafi er hægt að draga verulega úr þörf á dýrari og flóknari þjónustu á síðari stigum vandans og stytta biðlista. Teikn eru á lofti um það að aukinn þungi sé að færast í umræðu um mikilvægi forvarna og inngripa á fyrri stigum vandans. 

Flest vægari tilfelli má leysa strax í upphafi í nærþjónustu við barnið og fjölskyldu þess. Á Þjónustumiðstöð Breiðholts er t.d. verið að keyra PMT foreldrafærni námskeið, Klókir krakkar sem er námskeið fyrir börn og foreldra barna með kvíða, Mér líður eins og ég hugsa HAM námskeið fyrir unglinga, sjálfstyrkingarnámskeið fyrir fullorðna og fleira. Margt fleira gott er í vinnslu í Breiðholti eins og það að allir nemendur í 9. bekk sem það samþykkja eru skimaðir fyrir þunglyndi og kvíða. Þessi þróun er ákaflega jákvæð að mínu mati og um mikið og gott frumkvöðlastarf að ræða. Hópnámskeið og skimanir eru úrræði sem eru mjög hagkvæm í framkvæmd en skila miklum árangri. 

Aðkoma heilsugæslunnar var einnig rædd en í dag eru starfandi 6 sálfræðingar á 8 heilsugæslustöðvum á Reykjavíkursvæðinu sem þjónusta eingöngu börn og ungmenni. Þetta veldur því að ekki sitja allir íbúar landsins við sama borð þegar kemur að sálfræðiþjónustu í heilsugæslu.

Sálfræðimeðferð hefur sýnt fram á sambærilegan og jafnvel betri árangur en lyf við ýmsum vanda. Auk þess hefur mikið verið rætt um mikilvægi þverfaglegs samstarfs í heilbrigðis- og félagsþjónustu.  Samkvæmt klínískum leiðbeiningum m.a. í Bretlandi og á Íslandi á að veita bestu mögulegu gagnreyndu meðferð og skv. þeim á að veita sálfræðimeðferð við vægari til miðlungs tilfellum og jafnvel alvarlegum tilfellum af vissum tilfinningavanda/geðröskunum eins og kvíða og þunglyndi.

Það er þjóðþrifamál að bæta úr þessu þannig að öll börn hafi gott aðgengi að sálfræðiþjónustu bæði í gegnum heilsugæslu og skóla. Einnig þarf að bæta aðgengi fullorðinna að sálfræðiþjónustu en rannsókn mín til Cand.psych gráðu sýndi að helmingur þeirra sem sitja á biðstofum heilsugæslu finna fyrir vægum, miðlungs eða alvarlegum einkennum kvíða og/eða þunglyndis. Frekari útleggingar á þeim niðurstöðum og framtíðarsýn er efni í fleiri pistla.


Gagnsæi, réttlæti, sanngirni hvað?

GagnsæiOkkur er öllum tíðrætt um gagnsæi í kjölfar hrunsins.

Allir tala um gagnsæi og allir vilja gagnsæi. Það þykir sjálfsagt mál. "Gagnsætt og glansandi" eins og hin efnilega Ásta Hlín Magnúsdóttir formaður Sambands ungra framsóknarmanna notaði um daginn.

Hver hefur ekki heyrt talað um raunverulegt gagnsæi og að nú skuli allt vera uppi á borðum! Það virðist hins vegar ekki alveg ljóst uppi á hvaða borðum málin eigi að vera og það virðist auðveldara að tala um og ætla öðrum gagnsæi en ástunda það sjálfur.

Raunverulegar breytingar virðast vera erfiðar viðfangs!

Dæmi: Einkavæðing bankanna hin fyrri hefur löngum verið ákaflega gagnrýnd og er ég í þeim hópi. Það sem verra er að einkavæðing bankanna hin síðari er að mínu mati enn verra klúður ef eitthvað er og lengi virðist vont geta versnað. Þetta eru ekki bankarnir okkar því enginn veit hver á þá! Bankana sem eru grunnstoð atvinnu- og efnahagslífs hér á landi. Bankarnir virðast vera í blóðugum hrömmum hrægamma vogunarsjóðanna sem hafa allt annað að markmiði en velferð íslensks almennings og skuldara. Enda hefur nýlega komið í ljós að stór hluti gróða bankanna rennur úr landi. Ekki nóg með að íslenskum almenningi blæði út heldur rennur blóðið líka erlendis. Enn hefur heldur ekki neitt verið gert í því að skipta bönkunum upp í viðskiptabanka og fjárfestingabanka. Enn hefur ekkert verið gert að mínu viti varðandi kennitöluflakk þannig að menn geta bara stofnað fyrirtæki, steypt í gjaldþrot, hirt eignirnar en skellt skuldunum á almenning, stofnað nýtt fyrirtæki og haldið áfram á jeppunum "sínum" og með allt dótið sem þeir skrifuðu á fyrirtækið. Gosarnir sem settu okkur á hausinn leika enn lausum hala og lifa eins og greifar á meðan hver fjölskyldan á fætur annarri missir sitt, tekst á við afleiðingar atvinnuleysis og eymdar eða flytur úr landi.

Dæmi: Bankarnir hafa afskrifað alveg hrikalegar fjárhæðir af fyrirtækjum og sumum einstaklingum. Enginn veit hver er að fá þessar afskriftir og af hverju þessi fær afskrift en ekki hinn. Fólk sem er í sitt hvorum bankanum fær sitt hvorar afskriftir. Réttlátt eða sanngjarnt? Nei. Í hvaða veröld er hægt að réttlæta það að einn maður skuli fá afskrifaða 67 milljarða (6700 milljónir) þegar hinn samviskusami greiðandi borgari á að halda áfram að greiða af stökkbreyttu lánunum sínum? Þessi fjárhæð sem afskrifuð er vegna eins manns myndi geta leiðrétt skuldir ansi margra íslenskra heimila. Kvótakóngarnir tóku sameiginleg auðæfi landsmanna út úr kerfinu, gerðu að sinni eigin eign og eftir stendur sjávarútvegur skuldugur upp fyrir haus sem þarf að fá hverja afskriftina á fætur annarri.

Dæmi: Flokkarnir tala um endurnýjun og gagnsæi. Ef maður skimar yfir heimasíður stjórnmálaflokkanna þá er ákaflega erfitt að finna upplýsingar um hverjir sitja í trúnaðarstöðum á vegum þeirra. Það má segja Samfylkingu og Vinstri grænum til hags að þrátt fyrir harða gagnrýni á leyndarhyggju þeirra þá er amk. hægt að sjá hverjir sitja í flokksráðum þeirra á heimasíðum flokka þeirra. Það sama er ekki hægt að segja um Sjálfstæðisflokk og Framsókn. Þetta tel ég mikinn ágalla. Flokkar eru ekki annað en fólkið sem í þeim er. Ef kjósendur geta ekki séð hverjir sitja í valdastofnunum flokkanna eða taka að sér verkefni fyrir þá er verið að bjóða þeim upp á að kjósa pakka sem þeir geta ekki séð innihaldið í. Treysti menn sér ekki til þess að láta vensla nafn sitt við ákveðinn flokk t.d. vegna stöðu sinnar eða atvinnu þá geta þeir valið að starfa með flokkunum sem almennir flokksmenn án þess að taka að sér trúnaðarstöður. Þessi leyndarhyggja býður upp á spillingu og hagsmunagæslu og hana verður að uppræta eigi íslensk pólitík og samfélag að ná heilbrigði á ný. Alþingi og ráðuneytin þurfa líka að vera meðvituð um það að upplýsa um hverjir sitja í öllum þessum nefndum sem endalaust er verið að skipa og virðast eiga að leysa allan landsins vanda og hverjir það eru sem skipuðu þessa einstaklinga.

Hversu lengi getur vont eiginlega versnað?

Takmörkun að upplýsingum er eitt sterkasta vopnið gegn lýðræði og nauðsynlegu aðhaldi.

Raunverulegt gagnsæi á að vera reglan en ekki undantekningin.

Það er kominn tími á raunverulegar breytingar, réttlæti og sanngirni!


Ef ég gæti lifað aftur

Ég myndi vilja gera fleiri mistök næst. Ég myndi slaka á og vera mýkri. Ég myndi vera kjánalegri en ég hef verið í þessari ferð. Ég myndi taka færri hluti alvarlega. Ég myndi taka áhættu oftar. Ég myndi klífa fleiri fjöll og synda yfir fleiri fljót. Ég myndi borða meiri ís og minna af grænum baunum. Ég myndi ef til vill eiga fleiri raunveruleg vandamál en færri ímynduð.

Sjáðu til ég er ein af þessum manneskjum sem hef verið skipulögð og skynsöm alla ævi, klukkustund eftir klukkustund, dag eftir dag. Ég hef átt mín andartök. Ef ég ætti að lifa aftur myndi ég eiga fleiri andartök. Ekkert annað en andartök, hvert á fætur öðru í staðinn fyrir að vera alltaf svona mörgum árum á undan hverjum degi. Ég hef verið ein af þessum manneskjum sem hafa aldrei farið neitt án þess að taka með sér hitamæli, hitapoka, regnföt og fallhlíf. Ef ég ætti að lifa aftur myndi ég taka minna með mér en ég hef gert áður.

Ef ég ætti að lifa lífinu aftur, þá myndi ég fara úr skónum fyrr á vorin og ganga berfætt langt fram á haust. Ég myndi fara á fleiri dansleiki, fara oftar í hringekju og ég myndi tína fleiri páskaliljur.

Nadine Stair, 85 ára gömul.

Hvernig myndir þú hugsa í sporum Nadine? Hvað myndir þú gera öðruvísi?


Saman gengur okkur betur!

samvinna.jpgÉg hélt erindi í kvöld fyrir félagasamtök þar sem ég var að kynna fyrir þeim hugræna atferlismeðferð.

Á heimleiðinni hugsaði ég um hversu mikið það hefði gefið mér að hitta fólkið og halda þetta erindi. Ég vona að erindi mitt hafi líka gefið þeim eitthvað á móti.

Það kom mér á óvart hversu margir vissu lítið um hugræna atferlismeðferð og það rennir stoðum undir áhyggjur mínar af því hversu óaðgengileg HAM er almenningi þrátt fyrir að vera gagnreynt meðferðarúrræði sem sýnt hefur fram á jafngóðan árangur og lyf í vissum tilfellum og jafnvel betri til lengri tíma þar sem fólk hrasar stundum þegar það hættir að taka lyfin. Í nágrannalöndum okkar er HAM víða orðið fyrsta meðferð samkvæmt klínískum leiðbeiningum við ákveðnum geðröskunum (sérstaklega vægum til miðlungs tilfellum) áður en lyf koma til greina.

Hér má nálgast HAM meðferðarhandbók sem gefin er út af Reykjalundi og hér má nálgast góða bæklinga sem þýddir voru af nemum í sérnámi í hugrænni atferlismeðferð á vegum Félags um hugræna atferlismeðferð. Er það til mikilla sóma að gefa almenningi kost á að nálgast þetta efni gjaldfrjálst á netinu!

Við þurfum að auka fjölbreytileika meðferðaforma því ekki virðast lyfin vera að gagnast okkur nema upp að vissu marki þar sem tíðni t.d. þunglyndis og kvíða fer síst lækkandi. Við þurfum að gefa almenningi kost á HAM meðferð með eða án lyfja og bjóða upp á fleiri nýjar leiðir eins og hreyfiseðla. Þarna sé ég heilsugæsluna koma sterka inn og mun ég kynna rannsókn þá sem ég vann sem lokaverkefni í næstu viku á Fræðadögum heilsugæslunnar þar sem m.a. kom fram að amk. þriðjungur þeirra sem leita sér heilsugæslu á við vægan, miðlungs eða alvarlegan tilfinningavanda að etja (kvíða og/eða þunglyndi) og meirihluti telur sálfræðimeðferð vera gagnlegan valkost. En meira um þetta síðar!

Stundum erum við svo upptekin í eigin hversdagsleik að við gleymum því að við erum hluti af hópi. Við erum svo upptekin að eltast við efnisleg gæði eða matreidd gæði (sjónvarp, tölvu oþh.) að við gleymum hinum sönnu gæðum sem fást af samvinnu og samveru við annað fólk.

Félagasamtök af öllum mögulegum toga eru stór undirstaða velferðarsamfélags okkar. Samtök þar sem fólk gefur oft ógrynni af vinnu og tíma. Þessum samtökum þarf að tryggja möguleika á að vaxa og dafna í okkar samfélagi. Ég tek undir með Eygló Harðardóttur sem hefur lagt fram frumvarp um skattaívilnanir til frjálsra félagasamtaka

Saman gengur okkur betur og saman byggjum við upp gott velferðarsamfélag. Ekkert gerist af sjálfu sér. Við þurfum að finna leiðir til þess að vinna saman að bestu mögulegu lausninni við hverju verkefni og þá hagnast allir.


Hin týnda Atlantis - nýja Ísland?

atlantis-city.jpgNýlega voru þrjú ár liðin frá atburði þeim sem marka mun okkur öll að einhverju leyti. Atburði sem við gleymum seint. Atburðinum þar sem Geir H. Haarde bað Guð að blessa Ísland. Þennan atburð man ég vel, ég sat ein í íbúðinni minni í Árósum, þungt hugsi og döpur.

Núna þegar maður horfir tilbaka þá er maður ekkert sérlega sæll. Hvað hefur eiginlega breyst?

Hvert ætluðum við og hvar erum við? Við ætluðum til Nýja Íslands og þangað erum við svo sannarlega ekki komin. Ætli við komumst þangað einhvern tímann? Er nýja Ísland orðið að hinu nýja Atlantis? Fyrirmyndareyja sem sokkin er í sæ og mun aldrei finnast.

Við ætluðum að rísa úr öskunni vitrari, reyndari og byggja upp nýtt Ísland þar sem við hefðum lært af mistökum þeim sem leiddu okkur ofan í öskuna.

Var ekki bara sama kerfinu tjaslað saman svona mestmegnis? Er ástandð kannski að einhverju leyti verra í dag?

Er það nýja Ísland að afskrifa 6700 milljónir á einn einstakling á sama tíma og enn er ekki búið að leiðrétta stökkbreytt lán heimilanna og fyrirtækjanna. Eitthvað hefði endurreisnin nú orðið dýr ef jafnt hefði átt að ganga á alla og 67 milljarðar orðið kökusneiðin á hvern Íslending. Sú kaka hefði orðið alveg rosalega stór og dýr.

Er það nýja Ísland að þeir örfáu sem komu okkur öllum ofan í þetta fen skuli halda áfram sínum lúxus lífsstíl á meðan þriðjungur heimila er tæknilega gjaldþrota? Heimila sem vann sér fátt annað til saka en fjárfesta í flatskjá!

Er það nýja Ísland að einkavæða bankana án þess að almenningur fái að vita hver eigi þá?

Er það nýja Ísland að fimm Íslendingar flytji úr landi á dag og endurtaka mistök annarra þjóða í kreppum eins og Færeyinga sem misstu stóran hluta unga fólksins úr landi sem aldrei kom aftur og Finna sem sátu uppi með heila kynslóð sem datt út af vinnumarkaði og komst ekki þangað inn aftur? 

Er það nýja Ísland að byggja kerfið upp þannig að því minna sem þú gerir því meira færðu? Er það vænlegt til árangurs að hjálpa bara þeim sem langverst hafa það en refsa hinum sem hafa staðið sínar skyldur og skuldbindingar?

Er það nýja Ísland að 1% fólksfjöldans eigi nánast allt fjármagnið en hin 99% sífellt minna og minna?

Hvað með stjórnarskrárbreytingar?

Hvað með skuldaleiðréttingu til handa heimilum og fyrirtækjum?

Hvað með afnám verðtryggingar?

Hvað með lýðræðisumbætur?

Hvað með jafnrétti, réttlæti og sanngirni?

 

Liggur það einhver staðar á botni Atlantis, nýja Íslands?

Er ekki tímabært að finna Atlantis Íslands?

 

 


Tími þinn er takmarkaður, lifðu þínu lífi en ekki lífum annarra

199.jpgSteve Jobs sem nýlega lést átti góða tilvitnun sem var svona:

Your time is limited, so don´t waste it living someone elses life - Steve Jobs

Það er alveg ótrúlega mikil speki fólgin í þessari setningu að mínu mati. Við sem fengum lífið að gjöf vitum ekki hversu lengi hún endist. En við vitum þó að tími okkar hér á jörð er takmarkaður. Hann er því það allra mikilvægasta í okkar lífi. Enginn stoppar tímann og tíminn bíður ekki eftir neinum... Trúið mér, ég sem geng stundum um í mínu eigin tímabelti (Kristbjargartími) hef oft rekið mig á það... Þið sem þekkið mig, vitið hvað ég er að fara!

En að öllu gamni slepptu þá er þetta eitthvað sem borgar sig að staldra aðeins við og hugleiða. 

  • Hvernig eyðir þú tíma þínum?
  • Er þeim tíma vel varið?
  • Veistu hvað þú vilt fá út úr lífinu?
  • Veistu hvað þig langar að hafa afrekað og upplifað þegar þessu lýkur?
  • Hefurðu sett þér markmið?
  • Veistu hvernig þú vilt hafa lifað lífinu?
  • Hefur þú lært að lifa lífinu eða lært að lifa lífið af?
  • Með hverjum?
  • Og svo framvegis...

Ég held að oft áttum við okkur ekki á því fyrr en við setjumst niður og vinnum aðeins í okkur sjálfum á hvaða vegferð við höfum verið, hvar við erum og hvert okkur langar að fara.

Stundum kemst fólk að því að það hafi kannski framkvæmt ótrúlegustu hluti án þess að hafa nokkurn einasta áhuga á því. Það var kannski bara að lifa lífum annarra og gerði ótrúlegustu hluti af því aðrir vildu að viðkomandi gerði það. Stundum er það kallað meðvirkni.

Stundum týnum við sjálfum okkur því við erum of upptekin að leita að vegvísum um það hvert okkur langar að fara og hvað okkur langar að gera alls staðar annars staðar en innra með okkur sjálfum.

Stundum erum við svo upptekin að leysa úr öllum mögulegum áhyggjuefnum framtíðarinnar sem síðan verða aldrei að veruleika að við hreinlega missum af núinu eins og manneskja sem er svo upptekin að skoða lestakortið og pæla í leiðum og lausnum ef hún skyldi nú missa af lestinni að hún sér ekki einu sinni lestina sína sem brunar framhjá.

Stundum velti ég því fyrir mér þegar ég er að eyða miklum tíma í hluti eins og pólitíkina hvort þeim tíma sé vel eða illa varið... Þeirri spurningu er oft erfitt að svara þegar stjórnmálabakterían hefur hreiðrað rækilega um sig í manni en samt finnst manni maður stundum rembast árangurslítið eins og rjúpan við staurinn og veltir því fyrir sér hvort orkunni og tímanum ætti að verja annars staðar.

Ég mæli með því að þú hugleiðir aðeins það sem þú ert að gera þessa dagana. Í hvaða tilgangi ertu að því. Ertu að uppfylla drauma þína, hefurðu kannski tímasett þá og aðgerðabundið og gert að markmiðum? Fer mesti tíminn í það að gleðja aðra en orkan búin þegar kemur að því að gleðja þig sjálfa/sjálfan? Veistu hvað myndi gleðja þig, hvað þig langar, þráir eða dreymir um og hvernig þú getir öðlast það?

Tíminn er þín takmarkaðasta auðlind. Farðu því með hann sem slíka. Vertu sparsamur/sparsöm og forgangsraðaðu vel í þína eigin þágu.

Lifðu þínu lífi, ekki lífum annarra.

Það er aðeins eitt tækifæri í boði.

Njóttu þess.

 


Flokkar framtíðarinnar

Það er mikil hreyfing í íslenskri pólitík. Talsverðar hræringar virðast vera í öllum flokkunum og einnig mikil pólitísk hreyfing utan þeirra. Ég fagna því. Fólk er orðið meðvitaðra um að það þurfi að taka þátt í því að móta umhverfi sitt og það sé ekki nóg að ætla að láta aðra bara sjá um það.

Nú þurfum við öll að sameinast um það markmið að byggja upp góð og heilbrigð stjórnmál til framtíðar, alveg sama í hvaða flokki við erum eða ekki.

Ég tel að taka þurfi vinnubrögðin í flokkunum rækilega í gegn og tel að Framsóknarflokkurinn sé einn þeirra flokka sem er kominn talsvert langt í því. Flokkurinn samþykkti m.a. siðareglur á síðasta flokksþingi og hefur farið í mjög mikla vinnu að því að skoða og breyta lögum og skipulagi flokksins.  Talsvert betur má ef duga skal og ekki er nóg að marka góða stefnu og vinnubrögð ef þau eru einungis falleg orð á blaði.

Ég myndi vilja sjá meiri breytingar. Meðal annars tel ég og ýmsir fleiri að mögulegt ætti að vera að nálgast upplýsingar um alla þá sem gegna trúnaðarstörfum á vegum flokkanna á heimasíðum þeirra. Þeir sem vilja tengjast stjórnmálaflokkum en vilja vera þar í leyni ættu bara að sleppa því að tengjast þeim. Enga huldumenn takk.

Einnig tel ég að fjármál flokkanna ættu að vera mun skýrari. Til dæmis þarf að lagfæra lög um fjármál stjórnmálaflokka á þann veg að sömu skilyrði gildi um lán til flokkanna eins og styrki til þeirra og frambjóðenda. Í kosningabaráttum þurfum við að komast frá því að auglýsingar og peningar stjórni þar öllu. Fjölmiðlar ættu að skipuleggja umræðuþætti þannig að frambjóðendur ættu þess kost að kynna málefni sín og það sem hver og einn stendur fyrir sem manneskja í stað þess að þeir komist til valda vegna auglýsingamennsku eins og Coca cola vörumerki þeas. það sé einungis innihaldslaus ímynd sem kjósendur kjósi yfir sig.

Persónukjör er líka eitthvað sem ég myndi vilja sjá okkur nýta í nánustu framtíð. Þá gæti fólk kosið fólk af listum allra flokka og fólk sem er utan flokka. Engin fleiri pakkatilboð á pólitíkusum sem eru í áskrift að völdum takk.

Beint lýðræði er líka eitthvað sem ég myndi vilja sjá, í flokkunum, á sveitarstjórnarstiginu og í landsmálunum. Ég sé fyrir mér að í flokkunum skrái fólk sig sem félagsmenn og greiði félagsgjöld (en geti fengið afslátt ef bág fjárhagsstaða sé) og flokkurinn sé svo með kerfi þannig að hver félagsmaður fái veflykil sem hann geti svo nýtt til þess að velja til trúnaðarstarfa í flokknum, kjósa forystu og velja frambjóðendur flokksins fyrir kosningar. Á sínu vefsvæði gæti flokksmaður svo átt samskipti við flokkinn, lagt fram framboð sín í trúnaðarstörf, greitt atkvæði um stefnumál og mótað þau og ýmislegt fleira. Að sama skapi sé hægt að byggja upp svipað kerfi í íbúagáttum sveitarfélaga þar sem öll stærri mál séu lögð fram til atkvæðagreiðslu með bindandi eða ráðgefandi hætti. Á landsvísu sé ég fyrir mér að nota megi vefsíðu Ríkisskattstjóra þar sem greiða megi atkvæði um ákveðin mál til ráðgefandi álits en svo á hverju ári sé haldin þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem greidd eru atkvæði um stærstu málin sem liggja fyrir. Á kosningaárum fari þjóðaratkvæðagreiðslan fram samhliða þeim.

Flokkar framtíðarinnar geta orðið spennandi, dýnamískir og góðar skipulagsheildir sem sameina hópa fólks sem hafa áþekka sýn á hvernig best sé að byggja upp samfélagið. Það er útrunnin pólitík að hafa flokka sem innihalda einstaklinga sem vilja vera eins og huldumenn að stýra á bakvið tjöldin í sérhagsmunagæslu að tryggja eigin hag og sæti þeirra sem greiða atkvæði með réttum hætti, "atkvæðum" (fólki) sem smalað er í réttu dilkana eftir taktföstum slætti foringjanna og hjörðin jarmi öll í kór útávið.

Framtíð okkar allra er undir því komin að stjórnmálaflokkarnir taki til hjá sér og nútímavæðist!


Af hverju erum við svona vond?

Ég hef talsvert verið að velta fyrir mér ákveðnum afkimum í menningunni hér á landi eða réttara sagt ómenningu.

Hvers vegna erum við stundum svona vond hvert við annað?

Hvers vegna situr hópur fólks við tölvuna hjá sér og hrúgar inn rætnum, niðrandi og hræðilega ljótum athugasemdum um annað fólk undir eigin nafni, fölsku nafni eða nafnleynd. Gera þessir einstaklingar sér grein fyrir því að viðkomandi les stundum þessar athugasemdir eða ástvinir hans og þær særa og meiða?

Getur það verið að einhverjum líði betur sjálfum þegar hann hefur úthúðað annarri manneskju bakvið tölvuskjá? Manneskju sem viðkomandi telur kannski að hafi gert eitthvað á sinn hlut eða bara alls ekki? Er hægt að láta skoðun sína í ljós á málefnalegan hátt án þess að fara í niðrandi skrif um persónu viðkomandi?

Á hvaða vegferð erum við í þessu samfélagi þegar sumum þykir í lagi að skrifa megi nánast hvað sem er um opinberar persónur? Fólk eigi bara að þola það. Það fylgi bara starfinu. 

Á hvaða vegferð erum við þegar það þykir í lagi að grýta annað fólk með matvörum? 

Hvernig ætlum við að ala upp heilbrigð börn í svona umhverfi sem hafa þetta að fyrirmynd?

Hvernig getum við breytt þessu og hætt að vera vond hvert við annað?

Getum við byrjað á því að breyta okkur sjálfum og sjá hvað leiðir af því?

 


Það þarf kjark til að breyta heiminum, Guðrún Ebba og Glaspigen

Ég var að horfa á viðtalið við Guðrúnu Ebbu sem finna má hér.

Ég hvet fólk til þess að horfa á viðtalið. Það er átakanlegt og erfitt að horfa á en eitthvað sem fólk ætti að sjá og heyra. 

Á bakvið þann kjark að geta stigið svona fram og sagt sögu sína hlýtur að liggja alveg gríðarleg og afar erfið persónuleg vinna. Þessi vinna verður þó til góðs. Það er ég viss um. Þessi vinna mun örugglega hjálpa ungum börnum eða eldra fólki sem eiga svipaða sögu læsta í sínum hugarfylgsnum með öllum þeim skaða sem því fylgir.

Kynferðisbrot eru eitt það svartasta og erfiðasta sem við getum fengist við í okkar mannlega samfélagi.

glaspigen2_1115390.jpgSumt af því sem Guðrún Ebba minntist á í viðtalinu minnti mig á frásögn annarrar konu, Karin Dyhr, sem kom og sagði okkur sálfræðinemum í Árósum sögu sína. Hún gekk undir nafninu Glaspigen þar sem hún átti þá sögu eftir fjöldann allan af innlögnum á geðdeildir og endalausar greiningar að mega hvergi komast nærri gleri því þá skæri hún sig í hendurnar með því og bar hún ótal ör á höndunum vegna þess.

Endurbirti hér hluta úr færslu sem ég skrifaði í 5. október 2007 á gamla bloggið mitt:

Í dag eftir tímana mína í barnasálfræði og námssálfræði þá fórum ég og stelpurnar á fyrirlestur þar sem kona sem heitir Karin Dyhr kom og fræddi okkur um Borderline persónuleikaröskun. Hún gaf út bókina "Glasspigen" sem hefur verið seld í 10 þús. eintökum. Þetta er alveg stórkostleg kona að mínu mati. Sannur múrbrjótur en það er meðal þess fólks á þessari jörð sem ég heillast mest af. Fólk sem er tilbúið að standa upp og deila reynslu sinni sem fræðir og hefur gríðarleg áhrif á alla viðstadda og samfélagið í heild sinni.

Þessi kona var misnotuð af föður sínum í æsku og lýsti því fyrir okkur á hispurslausan hátt og setti fram ýmis sjónarmið sem ekkert allir þora að tala um. Til dæmis varðandi svona kynferðisbrotamál að þá bregst líkami þolandans við og sumir misskilji það og telji að viðkomandi hafi ekkert á móti afbrotinu fyrir vikið. Einnig lagði hún mikla áherslu á það að mjög lengi var hún sannfærð um að hún bæri ábyrgð á þessu. Hún var skrýtna stelpan sem fór svona með föður sinn. Hann var þessi góði en það var bara hún sem var ekki í lagi. Hún átti erfið ár í kjölfar misnotkunarinnar og var skilgreind með öllum mögulegum stimplum og var lögð inn alls 70 sinnum á 17 árum. Hún lýsti því hvernig starfsfólkið meðal annars kastaði teningum upp á það hver ætti að aðstoða hana á geðdeildinni þar sem "borderlines" eru ekki vinsælustu sjúklingarnir þar sem flókið er að aðstoða þá.

Hún var með mjög sýnileg ör á handleggjunum og lýsti fyrir okkur hvernig hún skar sig ítrekað og hvernig starfsfólkið og læknar sögðu meðal annars við hana "jæja þú skerð bara svona langsum, þér hefur ekki verið nein alvara! Þú átt að skera þversum eða það þýðir ekkert að taka bara svona mikið af lyfjunum þú verður að taka allan skammtinn ef þér er alvara..."! Þeir sem sagt kenndu henni réttu aðferðirnar þar sem þeir töldu hana hafa verið að reyna að fyrirfara sér. Hún reyndi það reyndar nokkrum sinnum. Hins vegar var þetta einnig hluti af sjálfskaða sem var einnig t.d. að slá höfðinu í vegginn. En það sem fólk áttar sig ekki á að með því t.d. að skera sig (var þess vegna kölluð glasspigen) því hún fann alltaf gler eða eitthvað til að skera sig með en með því að skera sig þá fannst henni hún verða "hrein" eftir að hafa blætt út óhreina blóðinu. 

Það sem meðal annars varð hennar aðstoð í bataferlinu var að kynnast hjúkrunarfræðingi á geðdeildinni sem hafði áhuga á henni og hennar lífi og þá gat hún unnið með mál sitt og hræðilegar minningar sem hún hafði bælt árum saman. Hún lýsti því mjög vel hvernig hún aftengdi sig veröldinni þegar faðir hennar nauðgaði henni þannig að fyrir henni var eins og þetta aldrei hefði gerst, "vondi næturpabbi" hafði aldrei komið og svo hitti hún þann góða um daginn. Hún lýsti því hvernig hún seinna þegar hún var að rifja upp málið hvernig henni fannst hún horfa á hjúkrunarfræðinginn tala en heyrði ekki neitt og svo datt hún ofan í svarta holu.

Ég gæti sagt ykkur miklu meira en langaði bara að deila þessu með ykkur. Þetta er efni sem aldrei má gleymast því kynferðisleg misnotkun er því miður allt of algeng og hún á sér stað á ólíklegustu stöðum. Faðir hennar hafði verið virtur lögmaður og fjölskyldan fullkomin á yfirborðinu.

Fleiri upplýsingar á þessari siðu: http://www.glaspigen.dk/ á dönsku eða http://www.theglassgirl.com/ á ensku.


Ég hvet fólk til að kynna sér einnig sögu Karin Dyhr sem kennir manni afar margt meðal annars um gildi þess að muna ætíð að hver og ein manneskja er sérfræðingur í sínu lífi og gildi þess að eiga von, hafa val og ráða eigin för.

Konur eins og Karin Dyhr, Telma Ásdísardóttir og Guðrún Ebba og fleiri sem stíga svona fram geta breytt heiminum og lífum ótal margra. Þetta eru múrbrjótar og hetjur.

 


Upp úr skotgröfunum

diggingdeeperhole090109.jpgÞað er áhugavert að sjá þá umræðu sem sú ályktun sem er hér neðst í færslunni hefur vakið.

Eins og getur gerst og gerist iðulega túlkar hver og einn það sem ritað er, sagt eða gert með sínu eigin nefi og sú túlkun er stundum komin órafjarri frá merkingu þess sem sent var út enda er t.d. ekki alltaf allt efnið birt heldur hluti þess.

Margir ræða það að ekki sé við Egil Helgason að sakast þar sem hann birti einungis myndbandið en bjó það ekki til. Réttlætir það þá hegðun að einn þekktasti fjölmiðlamaður landsins, starfsmaður Ríkisútvarpsins, birti á vefsíðu sinni sem ber sama heiti og einn þáttur hans svona efni? Einstaklingar í stöðu Egils, sem einn vinsælasti þáttastjórnandi landsins þurfa að gæta sín sérstaklega þar sem þeir geta haft mikil og mótandi áhrif á samfélagsumræðuna og ekki að ósekju að oft er rætt um fjölmiðla sem fjórða valdið.

Aðrir segja að þar sem Vigdís Hauksdóttir hafi sjálf farið yfir strikið í einhverjum tilfellum að það réttlæti þessa aðgerð. Myndir þú segja við barnið þitt að fyrst að Bjössi hafi kastað steini í það þá eigi það að sjálfsögðu að kasta steini í Bjössa á móti? 

Enn aðrir segja að þetta sé nú bara væl í okkur í landsstjórn LFK að vera að fetta fingur út í svona saklaust spaug. Þá velti ég fyrir mér í fyrsta lagi, ef ég sæi sambærilegt myndband af ástvini mínum á netinu þá fyndist mér það ekki vera spaug. Mér fyndist það vera einelti og ég myndi bregðast við. En þetta eru nú þingmenn, þeir verða að geta þolað þetta segja margir. Þá velti ég því upp að þingmenn eru engir guðir heldur ósköp venjulegar manneskjur sem eiga venjulegar fjölskyldur. Það stendur hvergi í ráðningarsamningi þingmanns eða annarra sem verða opinberar persónur að vegna stöðu sinnar sé veitt skotleyfi á þá og hver og einn hafi leyfi til þess að niðurlægja þá eða hafa þá að háði og spotti misstígi þeir sig. Myndi fólk almennt vilja sjá svona myndbönd um sjálft sig eða að börnin manns og ástvinir sæu slíkt um mann? Samt viljum við hafa einvalalið fólks á Alþingi Íslendinga. Ég tel að við jafnvel verðum af því að laða margt gott fólk að störfum á þingi einmitt vegna þess hversu rætin umræða um fólk persónulega fylgir með í pakkanum. Nú vil ég taka fram að það á óskylt við eðlilegt aðhald sem hver og einn kjósandi hefur fullan rétt á að veita sínum kjörna fulltrúa en einhverra hluta vegna virðist of algengt að farið sé í manneskjuna en ekki málefni hennar.

Það þarf kjark til þess að stíga fram og benda á hluti sem ekki eru í lagi. Það vitum við vel eftir til dæmis bankahrunið þar sem efasemdarmenn sem bentu á að ekki gæti allt verið með felldu voru púaðir niður. Varðandi einelti þá held ég að langflest okkar hafi einhvern tímann tekið undir eða tekið þátt í særandi, meiðandi athugasemdum eða öðru, ekki sett okkur í spor þess sem fyrir varð, réttlætt framkomuna og skort kjarkinn til að standa upp og neita að taka þátt í þessu.

Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum (Mahatma Gandhi).

Þá fyrst breytist eitthvað.

Hvernig ætlum við að byggja hér upp heilbrigt samfélag og kenna börnum og unglingum framkomu gagnvart öðru fólki þegar fyrirmyndin er svona? Hvernig ætti ég sem foreldri að útskýra fyrir barninu mínu að það megi ekki útbúa myndband af skólafélaga sem það vill stríða og birta á Youtube og linka inn á það á vefsíðu þegar fullorðna fólkið gerir það og finnst það bara í góðu lagi? Ég hef nýlega rætt við lögreglumenn vegna þess hversu algengt einelti sé orðið á internetinu. Slík umræða hefur einnig nýlega farið fram í fjölmiðlum þar sem einelti er orðið mikið vandamál á Facebook, Youtube og víðar. 

Öll hljótum við að vilja byggja upp hér gott og heilbrigt samfélag sem við getum stolt kynnt fyrir börnunum okkar og liðið vel í. Margir eru illa farnir eftir hrunið, margir hafa brugðist ekki síst stjórnmálamenn og reiði sem afleiðing þess mikil. Eðlilega. En þessi myndbirting er gott dæmi þess að við erum ekki komin þangað sem við öll viljum komast þrátt fyrir að vera sífellt segjandi að við viljum komast upp úr skotgröfunum.

When you find yourself in a hole, stop digging - Will Rogers.


mbl.is Saka Egil um einelti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband