Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Þriðjudagur, 4. október 2011
Andlit reiðinnar á Austurvelli
Ég barði ekki í tunnur að þessu sinni en ég stóð á Austurvelli og upplifði.
Sama upplifun og í fyrra.
Margmenni af venjulegu fólki í óvenjulegum aðstæðum.
Fólki sem einu sinni var kannski ekkert mikið að velta fyrir sér stjórnmálunum nema við umræður við eldhúsborðið heima. Fólki sem nú sér sig knúið til þess að mæta á Austurvöll og reyna að leggja sitt af mörkum til þess að bregðast við vonlitlu ástandi.
Ég sá andlit reiðinnar á sveimi, hauskúpa með blóðugum augum sveimaði um á mótmælaspjaldi. Táknmynd þeirrar reiði sem undir kraumar. Eðlilegrar tilfinningar þess sem brotið hefur verið á. Maðurinn við hliðina á mér blés stanslaust í flautu. Held hreinlega að hann hafi verið þarna í fyrra. Hann blæs enn í flautuna því enginn hefur heyrt í honum og ekkert hefur komið honum til bjargar. Minnir óþægilega á fólkið úr Titanic myndinni sem flautaði og kallaði eftir hjálp en fékk enga. Bátarnir með fína fólkinu í pelsunum sneru ekki aftur fyrr en flestir voru sokknir eða frosnir.
Ég veit ekkert af hverju annað fólk var þarna en eins og Guðmundur Steingrímsson kom inn á í ræðu sinni þá veit ég hvers vegna ég var þarna.
Ég var þarna vegna þess að ég er ósátt við það hvernig brotið hefur verið á almenningi í landinu, m.a. mér. Ég er ósátt við það hvernig komið er fyrir þjóð þar sem næg gæði eru fyrir hendi þannig að allir eigi að geta haft það gott langt fyrir ofan meðallag í samhengi við það sem jarðarbúar lifa við. Ég finn ekki enn fyrir réttlæti. Ég finn ekki fyrir því að þeir sem komu okkur í þessa stöðu sæti ábyrgð. Ég finn ekki fyrir því að breyting hafi orðið á eða að hér hafi nýr lærdómur orðið til og aðgerðum breytt í kjölfar þess. Ég finn því miður bara enga breytingu. Enga breytingu á vinnubrögðum í stjórnmálunum almennt. Ef eitthvað er hafa þau versnað.
Það sem ég heyrði í þingræðunum var gamalkunnur fagurgali um allt og ekkert á milli þess sem menn eyddu langmestu af sínum tíma í það að gagnrýna það sem aðrir gera eða ekki gera. Mér fannst ég hreinlega vera að heyra sömu ræðurnar og í fyrra og hitteðfyrra.
Mér finnst ömurlegt að finna hvernig heljarklær sérhagsmuna og auðvaldsins ríghalda í völdin og aðstæður almennings með klóm sem rista svo djúpt að blóðstraumur rennur af. Sá straumur liggur meðal annars til annarra landa. Sá straumur liggur til glataðra tækifæra og sá blóði drifni straumur gæti hæglega mulið undan grunnstoðum velferðarsamfélags okkar.
Nú gengur ekki að lofa Hagsmunasamtökum heimilanna og okkur eins og í fyrra en standa svo ekki við neitt. Við getum ekki meir.
Nú verður að leiðrétta stökkbreytt lán heimila og fyrirtækja eins og Framsókn og HH benti á strax í ársbyrjun 2009.
Nú verður að afnema verðtrygginguna.
Nú verður að leyfa þjóðinni að segja sitt álit á drögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá.
Vinna - grænn vöxtur - velferð
Tími 99% þjóðarinnar er löngu kominn. Tími 1% þjóðarinnar er liðinn.
Nýja sátt fyrir okkur öll!
Samstaða á Austurvelli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 2. október 2011
Hvar eru konurnar?
Eins og ég fjallaði um í síðustu færslu þá er ekki laust við að maður sé ansi sleginn yfir þeirri staðreynd að árið 2011 situr ein kona í fjárlaganefnd.
Á sama tíma er stefnt að því að árið 2013 verði hlutur kvenna í stjórnum fyrirtækja ekki minni en 40%. Eins og kemur fram í ágætri skýrslu velferðarráðherra sem gefin var út á árinu:
Í því skyni að jafna hlut kvenna og karla í áhrifastöðum
í hlutafélögum og einkahlutafélögum með auknu gegnsæi og greiðari aðgangi að
upplýsingum samþykkti Alþingi breytingar á lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög,
með síðari breytingum, og lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum. Er
að því stefnt að hlutur kvenna í stjórnum fyrirtækja verði ekki minni en 40% í lok árs
2013. (Skýrsla velferðarráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála, 2011).
Hvernig stendur á því að í þessari grundvallarnefnd fastanefnda Alþingis skuli ekki vera tryggt að hlutur kvenna sé eðlilegur. Að 1/8 eða 11% nefndarmanna séu konur er algjörlega óásættanlegt og ekki til þess fallið að fjárlaganefnd nái sem bestum árangri eins og rannsóknir hafa margsýnt fram á. Gerum við ekki sömu kröfu til Alþingis og fyrirtækja?
Ég hvet áhugasama til þess að líta á eftirfarandi kökurit til þess að skoða fasta- og alþjóðanefndir Alþingis með tilliti til kynjaskiptingar.
Illa vegið að launafólki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 1. október 2011
Fasta- og alþjóðanefndir Alþingis með tilliti til kyns
Ég var að skoða skiptingu Alþingis í nefndir og það var ýmislegt sem vakti þar athygli mína.
Sem formaður Landssambands framsóknarkvenna er mér talsvert brugðið.
Aðeins ein kona á sæti í Fjárlaganefnd en átta karlar.
Aðeins tvær konur sitja í Efnahags- og viðskiptanefnd en sjö karlar.
Aðeins tvær konur sitja í Utanríkismálanefnd en sjö karlar.
Aðeins tvær konur sitja í Atvinnuveganefnd en sjö karlar.
Þess má geta að engin framsóknarkona situr í þessum nefndum sem aðalmaður.
Það er áhugavert að setja þessa skiptingu upp í kökurit og sjá sjónrænt hvernig skiptingin lítur út fyrir konur og karla bæði fyrir aðal- og varamenn nefndanna. Það gerði ég einmitt og hvet ykkur til þess að skoða í meðfylgjandi skjali með fyrirvara um mögulegar innsláttarvillur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 30. september 2011
Blómabylting
Á laugardagsmorgunn skulum við skunda á Austurvöll og vera viðstödd þingsetningu Alþingis.
Við skulum sýna með nærveru okkar að okkur stendur ekki á sama um framtíð okkar. Ég vil réttlæti, von og róttækar aðgerðir m.a. varðandi það að takast á við skuldavanda heimila og fyrirtækja. Ég vil líka afnám verðtryggingar.
Þrengingar kalla á auknar líkur á deilum, ágreiningi og jafnvel ofbeldi í samfélögum lífvera. Þegar gæðin verða af skornum skammti verða slagsmálin. Þegar átök verða skaðast jafnvel saklausir einstaklingar.
Við erum engu bættari með því að bíta hausinn af hverju öðru. Við erum heldur engu bættari ef við sitjum uppi með rándýrar skemmdir sem greiða þarf viðgerðir fyrir úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Við skulum svo sannarlega standa á rétti okkar en við skulum gera það með friðsamlegum hætti.
Við skulum öll mæta með blóm á Austurvöll á laugardaginn kl. 10.
Blóm tákna í mínum huga m.a. næringu, frjósemi og fegurð. Almenningur þarf á næringu að halda. Hann þarf á frjósemi í atvinnulífinu að halda og fagurri framtíðarsýn. Hver og ein fjölskylda í landinu er eins og blóm sem þarf að hlúa að og vökva því annars visnar það upp og deyr.
Tökum með það/þau blóm sem við viljum. Það getur verið ein rós, túlípani, gerviblóm eða hvað sem er. Eitthvað sem minnir okkur á kærleikann því hann er okkar mikilvægasta vopn til að takast á við hremmingar okkar. Fjölbreytilegt blómahafið endurspeglar margbreytileikann sem við viljum sjá í samfélagi okkar :). Við þurfum ekki öll að vera rauðar rósir!
Gerum blómabyltingu og mótmælum með friðsamlegum hætti.
Sjáumst í litríku og margbreytilegu blómahafi á Austurvelli á laugardag kl. 10.
Kosningar ekki heppilegar nú | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 28. september 2011
Ég fer með friði
Mánudagur, 26. september 2011
Einelti
Ég er ákaflega slegin eins og aðrir í okkar samfélagi yfir þeim hryllilegu atburðum sem urðu um helgina. Ég er fyrst að átta mig á þessu núna, sagði ekki orð þegar ég heyrði þetta fyrst, trúði þessu varla, græt núna, er hrygg og sorgmædd.
Við þurfum að vera meðvitaðri um það hvaða áhrif við höfum á hvert annað.
Við fæðumst inn í þennan heim sem lítill brosandi, hjalandi sólargeisli, óskrifað blað með ógrynni tækifæra. Eins og leirklumpur sem á alveg eftir að mótast eftir því á hvað hann rekst á ferð sinni um lífsveginn.
Smám saman mótar hver einstaklingur sína heimsmynd og hugmyndir um sjálfan sig í þessum heimi. Sú sjálfsmynd og heimsmynd byggir á því hvernig umhverfi okkar er. Hún byggir að gríðarlega miklu leyti á fólkinu í kringum hvern einstakling. Foreldrum, systrum, frænkum, bræðrum, skólafélögum, vinum, ókunnugum, fjölmiðlafólki og svona má lengi telja. Öll höfum við áhrif á litla krílið sem er að reyna að átta sig á og skilja þennan heim. Við berum ábyrgð á okkur sjálfum og við berum líka ábyrgð á hverju öðru.
Einelti er eitt það skaðlegasta sem börn, unglingar og fullorðið fólk lendir í. Með einelti eru rist sár sem aldrei gróa að fullu og skilja ávallt eftir ör. Svo djúpir og alvarlegir geta áverkarnir orðið að jafnvel barn sér enga leið til að binda enda á þjáningarnar aðra en dauðann. Við sem samfélag berum ábyrgð á skelfilegum afleiðingum eineltis. Við brugðumst.
Ég lenti í einelti á minni grunnskólagöngu. Sú lífsreynsla hafði áhrif á mig. Nánir ættingjar mínir hafa lent í hræðilegu einelti og það hefur mótað þá.
Ég hef yfirleitt reynt að taka upp hanskann fyrir fólk sem mér finnst verða fyrir barðinu á einelti. Það hef ég samt örugglega ekki alltaf gert. Ég hef eflaust gerst sek um að taka þátt í einelti gegn öðru fólki.
Við erum full ótta innst inni. Við erum skíthrædd við að mistakast, vera ekki nógu góð, vera vond, vera verri en aðrir. Sú leið sem fólk fer til að hylma yfir þann ótta er oft að bíta frá sér, brynja sig og setja upp skel en enginn nema við sjálf veit hvað kraumar undir. Enginn veit á hvað hvert og eitt okkar hefur rekist á lífsleiðinni og hvaða ör við berum. Ef við vissum það þá myndum við oft skilja hvert annað betur og vera betri við hvert annað.
Það er ekki hægt annað en vera tómur þegar slíkur harmleikur verður sem maður veit að hefði getað átt sér stað hjá hverju og einu okkar.
Í stofunni minni logar á hvítu kerti til minningar um þetta litla líf sem var frá okkur tekið. Annað get ég víst ekki gert í bili en ég get reynt að læra og verða betri manneskja sjálf og reynt að hvetja aðra að verða það líka.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 20. september 2011
Kolrangt verðmætamat starfa
Það er sorglegt að við skulum sífellt þurfa að taka sömu umræðuna en ekkert breytist...
Þær starfsstéttir í okkar samfélagi sem vinna með dýrmætasta verkefnið, dýrmætasta auðinn og oft við erfiðustu aðstæðurnar fá smánarlega lægstu launin.
Þær starfsstéttir sem jafnvel vinna við ákveðna spákaupmennsku, leik að tölum sem jafnvel á sér enga hliðstæðu í hinum raunverulega heimi þiggja hins vegar ofurlaunin, að minnsta kosti talsvert hærri taxta.
Þetta er ekki eðlilegt og lýsir kolröngu verðmætamati í samfélaginu.
Þessu verður að breyta.
Manneskjan sjálf er og mun ávallt verða það dýrmætasta í okkar samfélagi alveg sama hvernig við snúum einni eða annarri vísitölu. Ekkert í okkar samfélagi þrífst án hinnar mannlegu víddar og undir manneskjunni er öll okkar hagsæld og velferð komin.
Er ekki tími til kominn að endurskoða raunverulegt verðmætamat starfa?
Er ekki tímabært að fara að greiða t.d. lögreglumönnum mannsæmandi laun? Það er ágætt fyrir fólk að hafa í huga þá miklu ábyrgð sem hvílir á herðum lögreglumanna, (slökkviliðsmanna og sjúkraflutningamanna) í sínum daglegu störfum. Sem sálfræðingur tel ég mikilvægt að það sé tekið með í reikninginn að verkefni lögreglumanna snúast meðal annars um það að koma að aðstæðum sem fæst okkar vilja koma að og upplifa og bregðast við með fagmannlegum og fumlausum hætti. Það er hluti af þeirra starfi. Slíkt tekur á fólk því öll erum við manneskjur sama hvaða starfi við gegnum. Í þeirri skyldu er falinn ákveðinn mannlegur kostnaður sem aldrei verður hægt að meta til fjár.
Síðustu ár hafa heldur betur kennt okkur það að mörg þau störf sem hafa verið stórlega ofmetin í okkar samfélagi sem snúast um fjármagn og fjármagnseigendur eru algjörlega verðlaus ef ekki hreinlega okkur til skaða.
Nýtt verðmætamat starfa takk.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 19. september 2011
Haustvindar í íslenskri pólitík
Haustið er farið að banka upp á, veðurguðinn veit ekki alveg hvort hann eigi að skarta sól eða rigningu í dag. Lendingin fyrir kvöldið er rok og rigning. Það er orðið dimmt á kvöldin. Ekki er ég nú aðdáandi myrkursins en elska þó að stinga mér til sunds í upplýstri blárri sundlauginni í bakgarðinum, slaka á í pottunum og gufunni á eftir og kveikja á kertum. Já, það er sennilega farið að halla sumri. Við Weber, vinur minn á svölunum, sem hefur nú verið frekar afskiptur greyið verðum víst að fara að sætta okkur við það þó við séum ekki alveg tilbúin í haustið með öllu tilheyrandi.
Enn eitt haustið er sem sagt að gera boð á undan sér. Þetta er líka enn eitt haustið í pólitík. Stundum botna ég nú ekki alveg í þeirri tík. Stundum langar mig að koma aldrei nokkurn tímann nálægt þessari blessuðu pólitík aftur. Ég átta mig til dæmis ekki á sumum sem starfa í pólitík. Ástæðan er sú að ég hef trú á því að langflestir sem leiðast út í pólitík og fá þessa bakteríu séu þar vegna óslökkvandi áhuga á því að bæta samfélagið sitt. Hvers vegna eyðir fólk þá svona mikilli orku í pólitíkina sjálfa í stað þess að nota hana í að láta hugsjónir sínar verða að veruleika? Það spanderar gríðarlegu magni í annað fólk í pólitík eða valdabrölt en málefnin verða einsleit sérhagsmunamálefni eða hreinlega aukaatriði.
Við verðum nú aldrei alveg sammála um hvaða leiðir séu bestar. Það er í rauninni bara gott því ef við værum öll sammála þá yrði ekki mikil þróun. Hóflegur ágreiningur er góður jarðvegur fyrir vöxt og þróun. En þá verða menn líka að geta bitið í þann ávöxt sem kemur upp úr sáttamoldinni mitt á milli öfganna og borið virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum. Hvers vegna eru sumir svo fastir í því að allir verði að vera á sinni skoðun? Er yfirhöfuð til ein rétt skoðun? Er ekki margbreytileikinn líka jarðvegur ríkulegrar uppskeru? Hjarðhegðun í halarófu á eftir einni fyrirfram línu er úrelt.
Stundum sér maður jafnvel menn spretta fram á sviðið sem muna mega fífil sinn fegurri og voru örugglega einhvern tímann með miklar hugsjónir en hafa glatað þeim á leiðinni og skemmst vegna valdagræðgi og ryðjast fram í yfirgangsemi og mannvonsku. Til hvers?
Framtíð okkar er nátengd því hvernig hægt er að bæta hina pólitísku menningu hér. Með pólitík sem einbeitir sér að því að leysa viðfangsefni nútíðar og framtíðar með lausnir og almannahag að leiðarljósi þar sem málefnaleg rökræða er ávallt tekin en jafnframt er borin virðing fyrir hverri manneskju. Pólitík þar sem hver einstaklingur nýtir hugsjónabrunna sína til fulls og eyðir orku sinni í því að veita ríkulega úr þeim í stað þess að festast í meinsemd þeirri að eyða orkunni í pólitíkina sjálfa.
Mánudagur, 12. september 2011
Dagurinn sem breytti engu
Fyrir tíu árum síðan var ég stödd á æskuheimilinu, var á útleið minnir mig þegar eldri systir mín kemur niður stigann og segir okkur að flugvélar hafi flogið á byggingar í New York og fólk telji jafnvel að þriðja heimsstyrjöldin sé hafin. Ég mann enn andartakið, skápinn sem ég horfði á og hugsanirnar sem flugu um í höfðinu á mér. Það er til sálfræðikenning sem kallar þetta flashbulb memory það sem gerist í höfðinu á okkur þegar við fáum svona fréttir. Þá er talið að upplifunin í taugakerfinu sé svo sterk að heilinn skrásetur hvert smáatriði til fastrar minningar. Mjög rökrétt viðbrögð hjá heilanum við áreiti sem kallar fram mjög sterk viðbrögð að skrásetja allt nákvæmlega og koma fyrir á öruggan stað í skjalaskáp heilans. Þessi kenning hefur þó verið umdeild og sumir telja að í raun stafi styrkleiki minninganna frekar af tíðum samtölum um atburðinn og aðstæðurnar eftirá.
Tíu árum síðar hef ég nokkuð aðra mynd af þessum atburðum. Vissulega var þetta dagur sem breytti miklu. Allt í einu var ógnin orðin raunveruleg. Ég hafði sjálf flogið með United Airlines 1998, ég hefði getað verið um borð í þessum flugvélum. Ég hefði getað verið í New York. Hvert og eitt okkar sér lífið með sínum eigin augum. Áður fyrr hafði ógnin alltaf verið fjarlæg. Sorglegar fréttir í sjónvarpinu frá langt-í-burtistan. Atburðir sem snertu mann en ógnuðu manni ekki. Annað fólk, önnur líf, önnur sorg. Svo mikið af stríðsfréttum stundum að þær snertu mann sífellt minna og minna. Upplifunin ekki áþreifanleg.
Núna er ég líka betur meðvituð um mátt fjölmiðla. Sú umræða sem fram fer er ekki endilega sú eina rétta. Umræðunni er jafnvel stýrt vísvitandi inn á ákveðnar brautir. Hryllingur er meðal annars réttlættur í umræðunni.
Hvert einasta líf sem glatast í stríði er einu lífi of mikið. Það er sorglegt að hugsa um alla sem týndu lífinu 11.9.2001 en það hlýtur samt að leiða hugann að sama skapi að þeim margfalda fjölda sem hefur goldið og geldur enn fyrir glæpinn með lífi sínu í Afghanistan og Írak.
R.I.P. The 2.976 people of 86 nationalities that lost their lives on 9/11/01.
R.I.P. the 48.644 Afghan and 1.690.903 Iraqi people that paid the ultimate price for a crime they did not commit (tekið af fésbókarsíður Margrétar Tryggvadóttur).
Í maí á þessu ári fannst loksins Osama Bin Laden. Hann var tekinn af lífi og sökkt í hafið. Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn. Er það líklegt til að fæða af sér betri heim?
Það sem mér finnst skína í gegn þegar ég hugleiði þessa atburði er að við erum engu nær um betri heim eða frið. Það er auðvelt að flagga friði og frelsi með fögrum orðum en engin breyting verður þegar menn eiga auðveldara með að setja öðrum reglur en fara eftir þeim sjálfir. Ef við viljum frið þá svörum við ekki árás með gagnárás. Ef við viljum mannréttindi þá tökum við menn ekki af lífi og sökkvum þeim í hafið án dóms og laga, óháð því hvað þeir hafa gert. Ef við viljum betri heim þá myrðum við ekki margfaldan fjölda á móti hverjum "okkar" sem myrtur var.
Heimurinn er ekki við og hinir. Við erum öll í þessu saman. Hver einasta mannvera. Við erum 99% eins.
Það breytist ekkert í heiminum fyrr en við erum tilbúin að breyta okkur sjálfum.
Þá fyrst upplifum við daginn sem eitthvað breyttist.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 8. september 2011
Takk
Um síðustu helgi fór fram 15. landsþing Landssambands framsóknarkvenna og 30 ára afmæli sérsambandsins.
Ég bauð mig fram til formanns og var kjörin. Ásamt mér komu margar öflugar konur inn í framkvæmdastjórn og landsstjórn. Ég hlakka mikið til að starfa með þeim glæsilegu konum sem kjörnar voru, ásamt fleiri öflugum framsóknarkonum sem er að finna um allt land á næstu tveimur árum.
Fyrst og fremst er ég þó að skrifa þessa færslu til þess að segja takk.
Mig langar til þess að þakka þeim konum sem studdu mig. Það er ekki sjálfgefið að fólk komi á svona landsþing og það er ekki sjálfgefið að fá stuðning. Það var mér mikils virði að finna þann stuðning sem ég fékk.
Það sem stóð upp úr eftir helgina var hugsunin um gott fólk! Það er stundum talað um að fólk sem fer út í pólitík sé tækifærissinnar, spillt og upptekið af eigin hagsmunum eða sérhagsmunum. Sem betur fer tel ég það í flestum tilfellum ekki vera rétt. Upp til hópa er fólk sem fer út í pólitík einstaklingar sem hafa hugsjónir og áhuga á því að bæta samfélagið sem við búum í. Stundum greinir okkur á varðandi einstök mál en í heildina erum við góðar manneskjur sem hafa mikið fram að færa.
Því miður slæðast þó alltaf svartir sauðir með sem eru í pólitík til þess að ná sér í völd og tryggja eigin hagsmuni. Þessir einstaklingar svífast einskis til þess að ná sínu fram og er það miður. Því miður fer mikil orka sem gæti farið í uppbyggjandi vinnu fyrir samfélagið í súginn vegna átaka sem fylgja þessum örfáu einstaklingum.
Það var ómetanlegt að hitta og kynnast sumum þeirra kvenna sem ruddu braut Landssambands framsóknarkvenna fyrir 30 árum. Sumt sem þær börðust fyrir þykir okkur sjálfsagt í dag. Öðru erum við enn að berjast fyrir. Það er ljóst að nóg er af verkefnum sem framsóknarkonur þurfa að berjast fyrir á næstunni.
Ef þig langar til þess að fylgjast með Landssambandi framsóknarkvenna þá hvet ég þig til þess að gerast aðdáandi að síðunni okkar á Fésbókinni. Þú getur líka sent okkur tölvupóst á lfk@framsokn.is eða kíkt á heimasíðuna okkar.