Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Eitt líf - eitt tækifæri - allra manna réttur

Ég er á skemmtilegum og dýnamískum vinnustað þar sem oft er verið að ræða lífsins mál í hádeginu. Eitt af því sem við ræddum um daginn var kynhneigð fólks. Upp úr þeirri umræðu fór ég að hugleiða orðið mannréttindi og hversu gífurlega mikilvægt það er.

Við fæðumst jöfn, ein og allslaus.

Við deyjum jöfn, ein og allslaus.

Lífsgangan er okkar tækifæri til þess að uppfylla langanir okkar, þarfir og þrár. Okkar eina tækifæri til þess að uppfylla drauma okkar og finna hamingju. Það er því eins gott að njóta hvers skrefs og láta lífið ekki framhjá sér fara og nýta rétt sinn til fulls.

Einn mann dreymir um mann, börn, hund, hús, jeppa og sumarbústað...

Annan mann dreymir um konu, börn, hund, hús, jeppa og sumarbústað...

Fatlaðan mann dreymir um fjölskyldu, heimili, vinnu, golf á laugardögum...

Ófatlaðan mann dreymir um fjölskyldu, heimili, vinnu, golf á laugardögum...

Og svona má lengi telja því þarfir okkar, draumar og leiðin að hamingju er eins misjöfn og við erum mörg en sumt samt svo líkt.

Ein góð vinkona mín segir alltaf: "Það geta ekki allir verið eins". Mikið sem hún hefur rétt fyrir sér!

Við fáum bara eitt tækifæri til þess að lifa því lífi sem veitir okkur mesta hamingju. Eiga ekki allir sama rétt á því að finna út hvernig það líf lítur út og njóta þess að lifa því? Svo framarlega sem það gangi ekki yfir rétt annars fólks? Ef mín lífshamingja fælist í því að berja náungann þá getur samfélagið ekki samþykkt það og ég þyrfti að kaupa mér boxpúða.

Einn af rúmlega 700 "vinum" mínum á Fésbókinni ákvað að hætta að vera vinur minn þar. Hvers vegna? Jú, vegna þess að ég hafði skráð mig í Gaypride gönguna. Þó ég sakni ekki vináttu jafn þröngsýns einstaklings þá vakti þetta mig til umhugsunar. 

Ég hef farið nokkrum sinnum í Gaypride gönguna og það er eitt það dásamlegasta sem ég hef upplifað. Það sem skín framar öllu þar er gleðin yfir réttinum um það að fá að vera nákvæmlega það sem maður er og vera stoltur af því. Í valdi hvers er það að ákveða hvernig einhver annar á að vera? Það sem svífur yfir vötnum í gleðigöngunni er kærleikur ofar öllu. Mikið rosalega myndi samfélagið fara á mis við mikið ef þröngsýnir og umburðarlausir einstaklingar myndu ráða því að smíðað yrði eitt mót sem troða ætti öllum í.

Hversu kærleiksríkt og kristilegt er það að lifa þannig að fólk sem styður rétt allra til þess að vera það sem það er eigi ekki upp á pallborðið hjá þér? Ofsatrú?

Sem betur fer erum við gagnkynhneigð, samkynhneigð, tvíkynhneigð, kynlaus, lítil, stór, grönn, stælt, feit, ljóshærð, rauðhærð, dökkhærð, skollótt, svört, brún, hvít, gul, rauð, fötluð, ófötluð, lágvaxin, hávaxin, freknótt, ófreknótt,skappstygg, ljúf, ráðvillt, staðföst, listræn, verklagin, klunnaleg, fínleg, búkstutt, búklöng, leggjastutt, leggjalöng, með krullað hár, með slétt hár, loðin, hárlaus, hugsandi, óhugsandi, einföld, flókin, með gleraugu og án, heppin, óheppin, skipulögð, óskipulögð, alvarleg, léttgeggjuð, flippuð, jarðbundin, barnmörg, barnlaus, kristin, trúlaus, búddhistar, ESB sinnar, ESB andstæðingar, skoðanamikil, skoðanalítil og svona mætti endalaust telja upp því við erum eins og við erum kokkteill af okkar góðu og slæmu eiginleikum!

Njóttu þess að finna út hver þú ert og sækjast eftir því sem þú vilt.

Þú átt bara eitt líf - eitt tækifæri en sama rétt og allir aðrir Smile

 

 


Frosin andlit og blóði drifin fegurð

plastic-surgery-risks-3.jpgUm helgina horfði ég á þátt um lýtalækningar. Ég varð svolítið hugsi eftir þennan þátt.

Mér þótti frekar óhugnalegt að sjá aðfarirnar við líkama kvennanna (þetta voru allt konur í þessu tilfelli) á skurðarborðinu. Þarna lágu þær eins og skrokkar sem verið var að skera til hér og þar eins og verið væri að snyrta til kjötskrokka. Skerum, troðum, pumpum og saumum saman. Úr einni var skorið heljarinnar stykki, geirvörturnar skornar framan af annarri og plasti troðið við kinnbeinin í andlit þeirrar þriðju.

Hvað er það sem fær gullfallegar ungar konur til þess að leggjast undir hnífinn og láta skera í líkama sinn, leggja sig í hættu og mikinn sársauka án þess að nauðsyn krefji?

Er nútímakrafan um photoshoppaða fegurð orðin svona blóðug? Er þetta bara hluti af almennum leiðum til þess að breyta útliti sínu?

Ég get ekki trúað því að það sé hollt að skera í líkamann á okkur og eiga við hann að óþörfu þeas. þegar ástæðan er ekki vegna lækninga heldur til þess að breyta útliti.

Er það eðlilegt? Þarf ekki líka stundum að vinna með sjálfsmyndina og viðhorf fólks til sjálfs sín? Hvenær er fólk fullkomlega sátt við líkama sinn? Er hægt að ná þeirri sátt fram með blóði, aðgerðum og plasti? Er hægt að skera út rétta líkamsímynd og sjálfsmynd? Er ekki erfitt að hætta þegar fólk byrjar að hrófla við guðsgjöfinni, líkama sínum? Hvað með allt annað sem við breytum vegna útlits t.d. hárlitanir, tannhvíttanir og þess háttar sem margt er afar algengt og hluti af nútímanum? Hvar liggja mörkin á milli þess sem er í lagi og þar sem farið er yfir strikið?

expressions.jpgÉg velti því líka fyrir mér hvaða áhrif þessar andlitslyftingar hafa á tjáningagetu fólks þar sem það er vitað að stór hluti af samskiptum okkar fara fram í gegnum líkamstjáningu. Þar leika andlitið, svipir þess og drættir lykilhlutverk ásamt því sem við segjum og tóntegundinni. Svipbrigði fólks eru eitt það fyrsta sem ungabörn læra að greina hvort andlitið er reitt, glatt, ógnandi eða hrætt. Ég prófaði þetta á litlu frænku minni sem var þá nokkurra mánaða og setti upp reitt andlit og uppskar grátur og gnístran tanna og þurfti greyið litla smá tíma til þess að taka frænku sína í sátt aftur.

En hvað gerist þegar fólk er búið að frysta hluta af þessum hæfileika? Ætli það hafi áhrif á tjáningargetu fólks og samskiptahæfni þess? Getur ekki verið að fólk sem er búið að lama að einhverju leyti þennan möguleika lendi í vandræðum þegar orð þess og tóntegund passa illa við það frosna svipbrigði sem andlitið sýnir?  

Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að í sumum tilfellum eiga lýtalækningar fullkomlega rétt á sér  og að hver og einn ræður yfir líkama sínum og er frjáls til þess að gera það sem honum sýnist við hann án þess að það komi öðrum við.

Ég er bara svolítið hugsi yfir því hvenær krafan um fegurð er orðin blóði drifin og farin að hafa áhrif á heilsu fólks. Hvenær er nóg, nóg? Hvar á að stoppa?


Framboð

Framboð til formanns Landssambands framsóknarkvenna

 

0905784569_1088211.jpgKristbjörg Þórisdóttir kandídatsnemi í sálfræði og varaformaður Landssambands framsóknarkvenna hefur ákveðið að bjóða sig fram til embættis formanns landssambandsins. Kjörið fer fram á landsþingi Landssambands framsóknarkvenna sem haldið verður í félagsheimili Framsóknarflokksins í Grindavík að Víkurbraut 27 helgina 3. og 4. september.

Þórey Anna Matthíasdóttir fráfarandi formaður Landssambands framsóknarkvenna hefur lýst því yfir að hún gefi ekki kost á sér til áframhaldandi setu. Kristbjörg vill einnig nota tækifærið og þakka Þóreyju Önnu fyrir gott samstarf og góð störf í þágu landssambandsins og hvetja konur til þess að fjölmenna á þingið og láta til sín taka.


Just do it - don´t delay it

life1.jpgÉg var að hugsa um ákvarðanir enda er ég að taka nokkrar um þessar mundir.

Af hverju á fólk það til að fresta lífinu? Af hverju frestar fólk því að taka ákvarðanir? Verða þær eitthvað betri ef maður frestar þeim sí og æ? Held ekki. Verður lífið eitthvað betra ef maður frestar því að lifa því þangað til seinna? Held ekki. 

Hefur þú lært að lifa lífið af eða lifa lífinu?

Átt þú miða í draumaferðina þína sem þú ert alltaf að fresta? Til hvers að láta París bíða? Verður hún fallegri seinna? Verður þú frekar tilbúin/tilbúinn að njóta hennar seinna?

Horfir þú á einhvern hlut á borðinu þínu sem þú ætlar að framkvæma seinna, njóta seinna, upplifa seinna, gera seinna, hugsa um seinna, taka ákvörðun um seinna...

Ég held að maður eigi ekki að fresta lífinu. Held hreinlega maður hafi ekki tíma til þess því lífið flýgur áfram eins og spíttbátur á fullri ferð og þú þarft að vera við stýrið. Lífið þitt er ekki olíuskip sem þú hefur enga stjórn á og enginn getur snúið við eða breytt stefnu á.

Allt hefst á einu skrefi. Allir hafa byrjað einhvers staðar. Ef þig langar til að hlaupa maraþon þá þarftu ekkert að fresta því. Þú getur byrjað maraþonið með 100 metra göngu og þá ertu lagður/lögð af stað.

Taktu ákvörðun og stattu með henni. Ekki hika. Ekki taka ranga ákvörðun gegn betri vitund af því þú ert uppfullur/uppfull ótta. Taktu þá ákvörðun sem rökhugsun þín og hjarta þitt segir að sé rétt á þessum tímapunkti. Þú munt gera fullt af mistökum og taka fullt af röngum ákvörðunum en líka margar réttar. Af þeim sem misfórust græðir þú lærdóm og reynslu en af þeim sem þú vissir strax að voru rangar uppskerð þú eftirsjá og vanlíðan.

Láttu vaða. Flestir sjá meira eftir því sem þeir frestuðu eða létu ekki verða af en því sem þeir ákváðu að kýla á.

Ekki vakna einn daginn allt of seint með rykfallinn miða til Parísar á skrifborðinu þínu og brostna drauma um líf sem aldrei varð. Drífðu þig af stað og breyttu draumunum þínum í tímasett markmið með mælanlegum aðgerðum og leggðu af stað!

Just do it!


Vilt þú heita á mig?

midnaeturhlaup1.jpgÞann 20. ágúst næstkomandi ætla ég að hlaupa 21 km. í Reykjavíkurmaraþoninu.

Ég skráði mig í dag og hef opnað áheitasíðu undir styrktarsíðunni Hlaupastyrkur.

Ég bið þig hér með um að heita á mig til styrktar mínu málefni :)

Ég ætla að hlaupa fyrir Endó sem eru samtök kvenna með Endómetríósu sem fleiri þekkja sem legslímuflakk. Ég valdi þetta málefni eftir að Eygló Þóra Harðardóttir þingkona og ritari Framsóknar vakti máls á málefninu og samtökunum en hún ætlar einnig að hlaupa hálfmaraþon til styrktar sama málefni. Hún er jafnframt fyrsti flutningsmaður að þingsályktunartillögu um að sérstakt átak verði gert til að auka fræðslu um sjúkdóminn og skoða möguleika þess að stofna göngudeild fyrir konur með Endómetríósu.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni kemur fram, að legslímuflakk sé krónískur, sársaukafullur sjúkdómur sem orsakist af því að frumur úr innra lagi legsins finnast á öðrum stöðum í kviðarholinu en legholinu. Sjúkdómurinn sé meðfæddur og virðist að verulegu leyti háður erfðum.

Einnig kemur fram að talið sé að um 2-5% stúlkna og kvenna hér á landi þjáist af sjúkdómnum einhvern tímann á frjósemisskeiði og því sé ljóst að um töluverðan fjölda sé að ræða. Á 20 ára tímabili hafi um 1400 konur greinst með sjúkdóminn á Íslandi og þar var í meiri hluta tilvika um að ræða talsvert alvarleg sjúkdómsform. Því megi reikna með að á hverjum tíma eigi nokkur hundruð kvenna í vanda vegna sjúkdómsins, en hjá mörgum þeirra greinist sjúkdómurinn seint og ekki fyrr en óafturkræfar vefjaskemmdir hafa orðið.


Ferðalag lífs míns

life_story_icebreaker.jpgÉg var að hugsa um ákvarðanir sem ég er að taka um þessar mundir. Stend á margs konar krossgötum eins og eflaust margir aðrir.

Ég fór þá að hugsa um ferðalag lífs míns og okkar allra.

Lífið er eins og gott ferðalag.

Þessu ferðalagi þarft þú að stýra og skipuleggja viljir þú njóta þess til hins ítrasta. Það ætti maður að gera vegna þess að þetta er eina ferðin sem er á áætlun svo við vitum.

Skoðaðu drauma þína og þrár. Hvert langar þig að fara? Hver viltu vera? Með hverjum og hvað viltu skilja eftir þig? Fyrir hvað vilt þú vera þekkt/þekktur? Hvernig viltu að annað fólk minnist þín? Komir þú til dæmis illa fram við fólk þá mun það sennilega minnast þín þannig. Á hverjum nýjum degi getur þú bætt þig og bætt gjörðir þínar til hins betra. Í dag er fyrsti dagur þess sem þú átt ólifað.

Þú átt ótrúlega möguleika. Mannsandinn getur flest sem hann ætlar sér. Flestar hindranirnar eru í huganum á okkur sjálfum. Nýlega hljóp fólk hringinn í kringum landið á tveimur vikum af því það ákvað það!

Hvernig ætlarðu þangað sem þig langar? Hvernig ætlarðu að framkvæma draumana? Hvenær? Með hverjum?

Geri maður það ekki er hætta á því að þegar ferðalaginu lýkur hafi maður ekki séð eða gert nema brot af því sem mann langaði til. Þig langar kannski til þess að öðlast hamingju. Hvernig ætlarðu að öðlast hana? Hún kemur ekki af sjálfu sér. Ég mæli ekki með því að ætla að kaupa hana með Range Rover eða fá hana í Cheerios pakka, það virkar sennilega ekki.

Ef þú gerir ekki áætlun þá er hætta á því að þú missir tök á fararstjórninni og einhverjir aðrir séu allt í einu búnir að setja upp áætlun fyrir þig og þú keyrir eftir því. Lífið er of stutt til þess að ferðast um það í pakkaferð. Vertu þinn eigin fararstjóri.

Vertu líka viðbúinn að bregðast við óvæntum uppákomum á hverju andartaki, læra, þroskast og njóta andartaksins.

Að lokum...

Góða ferð :)

Mundu að þú ert þinn eigin ævisögusmiður.

Life is a short story so you better make it a good one!


Stjórn stjórnlagaráðs fær hrós

Sæl Kristbjörg,

Vísað er til erindis þíns um hagsmunaskráningu fulltrúa í stjórnlagaráði.

 

Á fundi sínum 7. júní samþykkti stjórn stjórnlagaráðs að fara þess á leit við fulltrúa að þau taki þátt í formlegri skráningu hagsmuna. Skýrt ber þó að taka fram að á vefsíðu stjórnlagaráðs má finna upplýsingar um hvern fulltrúa í ráðinu m.a. setu þeirra í stjórnum og nefndum og önnur hagsmunatengsl. Þá hafa margir fulltrúar þegar sett ítarlegar upplýsingar fram opinberlega þar á meðal í fjölmiðlum.

 

Með tilmælum sínum til fulltrúa leitast stjórn við að samræma upplýsingagjöf og gera aðgengilega á heimasíðu ráðsins. Þess skal getið að til viðmiðunar eru reglur Alþingis um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum alþingismanna og trúnaðarstörfum utan þings.

 

Bestu þakkir fyrir framlag til umræðu um störf og verkefni Stjórnlagaráðs.

 

Með vinsemd og virðingu,

 

Salvör Nordal, formaður

 

Ég hvet alla áhugasama til þess að taka virkan þátt í störfum stjórnlagaráðs og senda inn erindi. Það er raunverulega hægt að hafa áhrif :).

 


Á meðan fæturnir bera mig

site-logo.pngÉg var ein þeirra sem var þess heiðurs aðnjótandi að hlaupa smá spöl með þessum magnaða hópi í gær.

Þrátt fyrir áhuga fjölmiðla á átakinu hefði ég alveg viljað sjá enn meiri umfjöllun um þetta stórkostlega afrek. Það er með ólíkindum að hlaupa meira en hálfmaraþon á dag í 15 samfellda daga! Einstaklingar sem eru ekki öll þaulreyndir maraþonhlauparar heldur færa fjöll með einbeittum viljanum einum saman, innblásnum af mikilli lífsreynslu. Vona að þau verði fengin til þess að mæta í Kastljós og/eða Ísland í dag til að segja þjóðinni frá afrekinu.

Hvers vegna? Jú, vegna þess að það eru svona einstaklingar sem hrífa fólk með sér. Þau hrífa mann með sér til þess að hafa óbilandi trú á eigin getu, sýna kjark, dug og þor því við erum þannig gerð að með rétta hugarfarinu þá getum við nánast allt sem við ætlum okkur. 

Það er mun heilbrigðara fyrir íslenska þjóð að fá miðlun af slíku efni en endalausum leiðindamálum tengdum hinni hliðinni á peningnum, þeirri ömurlegu mannlegu tilveru sem snýst um stjórnlausa græðgi, spillingu og jafnvel hrylling. 

Fólk sem hefur lent í þeirri reynslu að takast á við erfið veikindi hjá barni sínu hefur að mínu mati mjög líklega öðlast aðra vídd í þessu lífi. Þau hafa áttað sig betur en margir aðrir á því hvað skiptir máli hér á jörðu og sú viska hreinlega skein í gegn um þennan hóp og skín í gegn um það efni sem finna má á síðunni þeirra Á meðan fæturnir bera mig 

Mig langar til þess að nota tækifærið og senda hópnum mínar bestu heillaóskir um frábæran árangur. Með átaki ykkar hafið þið gert heiminn að aðeins betri stað.

Að lokum hvet ég alla þá sem ekki hafa nú þegar lagt verkefninu fjárhagslega lið að láta það sem hver og einn getur af hendi rakna. Það munar um hvern þúsundkallinn og þessi hópur er svo sannarlega búinn að vinna fyrir glæsilegum áheitum!

 


mbl.is Nálgast lokatakmarkið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draumur um hamingju

dreams.jpg

Öll eigum við okkur drauma í þessu lífi.

Öll langar okkur að höndla hamingjuna.

Hamingjan er ekki efnisleg. Það er ekki hægt að kaupa hana, selja hana, mála hana, byggja hana. Það er ekki einu sinni hægt að gefa hana. Hamingjan er eitt af því sem við þurfum sjálf að skapa okkur. Það getur enginn annar gert okkur hamingjusöm eða haldið okkur hamingjusömum.

Ég hef hinsvegar trú á því að fáum við færi á því að deila hamingju okkar með öðrum sem deilir sinni hamingju þá verði veldisvöxtur á hamingjunni og upplifunin margföld. Eins og segir í myndinni Into the wild - "Happyness only real when shared with others".

Ein leið til þess að njóta hamingju er að finna drauma sína, langanir og þrár og sækjast eftir þeim, uppfylla þá. Ég dáist að fólki sem fylgir draumum sínum, fær þá uppfyllta og nýtur svo hamingjunnar sem fylgir í kjölfarið.

Önnur leið til þess að njóta hamingju er að grípa tækifærin sem gefast í lífinu. Lífið er dásamlegt ferðalag og á hverju einasta augnabliki birtir æðri máttur okkur eitthvað nýtt og gefur okkur gjafir. Það er okkar að velja og hafna eftir því hvert okkur langar að fara í lífinu. Við eigum valið og draumarnir eru okkar. Maður þarf að hafa hugmynd um það hvert mann langar því annars fer maður bara í hringi. Verður eins og ræðarinn sem róir með einni ár.

Fólk virðist stundum sjálft standa mest í vegi fyrir sinni eigin hamingju. Það veit ekki hvert það er að fara, fer í hringi og fálmar í óðagoti eftir þeim tækifærum sem koma en nær ekki að grípa þau. Fólk horfir jafnvel í öfuga átt, á lokuðu hurðina í líifnu í stað þess að sjá hinar nýju sem opnast hafa. 

Ég held að ástæðan sé ótti. Það er alþekkt að oft vill fólk frekar vera í hörmulegum aðstæðum en halda á vit hins óþekkta. Það þorir ekki áfram af því þá þarf það að fara út úr þægindahringnum og lætur kjarkleysi taka stjórnina. Í kjölfarið glatast tækifæri til þess að vaxa í lífinu, blómstra og öðlast nýja hamingju.

Lífið er magnað ferðalag sem við förum bara einu sinni. Lærum af fortíðinni, verum í núinu og horfum fram á veginn. Njótum hvers augnabliks, hvers demants á leiðinni, leyfum draumum okkar að marka veginn, grípum tækifærin og þá fyllist bakpokinn okkar af hamingju :). Að lokum getum við svo litið stolt yfir farinn veg, vitandi það að við gerðum allt sem okkur langaði til, sjáum ekki eftir neinu og eigum bakpoka fullan af minningum sem eru þyngdar sinnar virði í gulli.


Ekki missa augun af boltanum

Reglulega blossa upp pólitískar þrætur um ESB í flokkunum (nema kannski síst Samfylkingu sem gengur að langmestu leyti í ESB einróma takti og virðast ákveðin í sinni afstöðu að fara inn, sama hvað kemur út úr viðræðum).

Það er algjör óþarfi að missa augun af boltanum og eyða orkunni í að þræta um ESB.

Þetta mál er þess eðlis að það verða skiptar skoðanir um það og hver og einn þarf að fá að gera það upp við sig. Málið er þjóðarinnar og þjóðin mun kveða upp sína niðurstöðu.

Að mínu mati er best að leyfa aðildarviðræðum að klárast og hver og einn taki svo afstöðu eftir sinni sannfæringu að því loknu. Afgreiða málið inn eða út af borðinu.

Flokkarnir eiga ekki að láta þetta þrætuepli þvælast fyrir sér. Í mínum huga er best að þeir ræði þetta sem minnst innan sinna raða en einbeiti sér frekar að því að hvetja til upplýstrar, öfgalausrar umræðu í öllu samfélaginu. Flokkarnir munu hvort eð er ekki ráða þessu, það er þjóðin sem ræður.

Verkefni stjórnmálaflokka á Íslandi í dag er að hlúa að íslensku þjóðinni eftir skelfilegt hrun. Af nægum verkefnum er að taka og það er bagalegt að ESB orkusugan þvælist fyrir þeim forgangsverkefnum sem þarf að vinna. Hvert gott verk sem unnið er í skuldamálum heimila og fyrirtækja, velferðar-, mennta-, atvinnu-, umhverfismálum og svona má lengi telja skiptir sköpum fyrir íslenskan almenning á hverjum einasta degi. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband