Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Stjórnlagaráðsfulltrúar gangi fram fyrir skjöldu

(grein birt í Morgunblaðinu í dag, 1.6.2011)
Hvenær munu stjórnlagaráðsfulltrúar ganga fram fyrir skjöldu og hefja vegferð breytinga hjá sjálfum sér með samræmdri birtingu um hagsmunatengsl sín?

0905784569_1088211.jpgÍ kjölfar hruns blésu ferskir vindar uppbyggingar um íslenskt samfélag. Hávær krafa er uppi um breytt stjórnarfar og endurskoðun á grundvallarstoðum. Störf stjórnlagaráðs snúast um það að leggja drög að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland, verkefni sem á sér enga sögulega hliðstæðu.

Stjórnlagaráðsfulltrúar verði breytingin sem þeir vilja sjá

Eitt af því sem farið hefur verið fram á er gagnsæi. Gagnsæi getur dregið verulega úr líkum á spillingu og eiginhagsmunapoti. Ég var ein þeirra sem bauð fram krafta mína til stjórnlagaþings. Í kosningabaráttunni lagði ég ríka áherslu á samræmda hagsmunaskráningu frambjóðenda sem eina leið til þess að sýna raunverulegt gagnsæi í verki. Mahatma Gandhi sagði eitt sinn: „Vertu breytingin sem þú vilt sjá í heiminum". Ég tek undir með Gandhi og tel að ætli fólk sér að breyta einhverju þurfi það að byrja hjá sjálfu sér.

Talað fyrir daufum eyrum

Ég hef skrifað og fjallað talsvert um mikilvægi hagsmunaskráningar bæði í aðdraganda kosninganna og eftir þær en talað fyrir daufum eyrum. Ég ritaði opið bréf til Dómsmálaráðuneytis í aðdraganda kosninganna sem og opið bréf til stjórnlagaráðsfulltrúa þann 30. mars s.l. þar sem ég skoraði á fulltrúa stjórnlagaráðs að upplýsa með samræmdum og opinberum hætti um hagsmunatengsl sín. Ég lagði til að notast yrði við þá aðferð sem alþingismenn nota nú þegar og aðgengileg er á vef Alþingis á eftirfarandi slóð: http://www.althingi.is/vefur/hagsmunaskraning_reglur.html og aðlaga að stjórnlagaráði. Einnig sendi ég ráðinu formlegt erindi þann 13. apríl s.l. varðandi sama málefni. Ég tel þá starfsferilsskrá sem birt er á vef stjórnlagaráðs engan veginn fullnægjandi þar sem hún er ekki gerð með samræmdum hætti og ekki er getið um fjárhagslega hagsmuni stjórnlagaráðsfulltrúa.

 Ég hef engin formleg svör fengið og get ekki séð af störfum stjórnlagaráðs að til standi að verða við athugasemd minni. Þann 19. maí síðastliðinn lagði B nefnd stjórnlagaráðs fram tillögur þar sem ákvæði er um hagsmunaskráningu þingmanna og ráðherra og fagna ég því en ekki er minnst á hagsmunaskráningu stjórnlagaráðsfulltrúa sjálfra.

 Ég spyr enn á ný, hvenær munu stjórnlagaráðsfulltrúar ganga fram fyrir skjöldu og hefja vegferð breytinga hjá sjálfum sér með opinberri birtingu samræmdra upplýsinga um hagsmunatengsl sín?


Hvert ætlaðir þú eiginlega vinan?

Í kvöld rifjaðist upp fyrir mér ákveðinn atburður frá því ég var að hefja nám mitt í Árósum sem mig langar að deila með ykkur ásamt smá hugleiðingum um lífsrútuna.

Þannig var mál með vexti að ég fór ein út, þekkti aðeins eina manneskju í Árósum. Ég var fyrstu þrjár vikurnar án sjónvarps og netsambands. Ég var svo þrjósk að ég talaði nánast bara "dönsku" sem fáir skildu og þóttist skilja Danina en skildi auðvitað varla bofs. Svo mikið skildi ég að þegar ég var spurð í búðinni "Vil du ha´ bonnen med?" (sem þýðir, viltu strimilinn?) þá svaraði daman að bragði brosandi "Nej, jeg kommer fra Island". Þetta voru sérstakar en eftirminnilegar vikur. Leið eins og ég væri í dönskum survivor leik án þess að vita reglurnar. 

busy_39_916114_1086582.jpgEitt af því sem ég ákvað að gera fljótlega eftir að ég kom út var að taka hring með strætónum mínum, þristinum til þess að kynna mér leiðina. Ég fór upp í þristinn, kom mér vel fyrir og sat svo þar í amk. tvo klukkutíma. Fylgdist með fólkinu sem kom inn og út úr strætó. Draumaaðstaða sálfræðinemans. Þarna var allur skalinn af fólki. Unglingsstelpurnar sem var hent út úr strætónum fyrir að spila tónlist allt of hátt úr símunum sínum og pirra alla viðstadda, maðurinn sem hefði getað hafa misst yfir sig heila brennivínsflösku eftir lyktinni að dæma og flest þarna á milli. 

Þegar liðið hafði vel á mannfræðitilraunina og skoðunarferðina um Árósa í strætó þá leist mér ekki alveg á blikuna. Skyndilega var ég ein eftir og komin á svæði sem virtist vera langt frá og vagninn stöðvaðist og ekkert gerðist. Að endingu kom bílstjórinn til mín og spurði mig á dönsku: "Hvert ætlaðir þú eiginlega vinan?" (vel meðvitaður um það að þessi farþegi var búin að sitja þarna lengi vel). Það kom sem sagt í ljós að þetta var ekki hringur heldur fór vagninn inn á annað svæði og var að fara að keyra nýja leið, nýtt númer. Þristurinn var að verða að sjöu! Í þessum framandi heimi mínum datt mér ekki í hug að þristur yrði ekki áfram þristur sem færi hring eftir hring. Ég skrölti því út og að endingu fann ég leiðina "heim". Græddi alveg heljarinnar göngutúr svo vægt sé til orða tekið.

Þessa reynslu má heimfæra upp á lífið sjálft. Í lífsrútunni okkar þá er fólk stanslaust að koma og fara. Sumir stoppa stutt, aðrir lengur. Munurinn á lífsrútunni okkar og strætó er sá að við getum mögulega stjórnað lífsrútunni og við getum að einhverju leyti stjórnað hverjir koma upp í og hverjum við viljum hleypa út. En lífið er stundum eins og skoðunarferðin mín um Árósa. Maður hefur ákveðna leið í huga en svo endar maður á allt öðrum stað og rútan sjálf er kannski allt í einu farin að keyra nýja leið undir nýju númeri. 

Við eigum stanslaust val í lífinu. Val um það hvort við sitjum sem farþegar og bíðum þess að einhver annar velti því fyrir sér hvert við ætluðum eiginlega að fara. Þegar ferðaplönin breytast skyndilega þá eigum við líka val um það hvernig við tökumst á við það. Við eigum val um það hvernig við túlkum allar aðstæður og annað fólk og hvernig við bregðumst við. Við ráðum um hvað við hugsum og við getum valið okkur viðhorf. Stundum skín sól á rútuna okkar og allt er svo bjart og fallegt, stundum er hún föst í skafli. Stundum kippir annað fólk í stýrið eða hreinlega tekur yfir aksturinn, stundum erum við farþegar aftast með skelfingarsvip þar sem leiðin er hafin á nýjar slóðir og rútan búin að breyta um nafn, stundum erum við rútubílstjórinn sjálfur sem lætur ekkert trufla sig og nýtur ferðarinnar í samfloti með góðu fólki. 

Það er gott að ögra sér með nýjum áskorunum því það sem reynir mest á mann gefur manni oft mest. Að sama skapi reynir það líka á mann þegar lífið sjálft ögrar manni og lífið fær nýjan lit. En það sem skiptir kannski ótrúlega miklu máli í þessu lífi er að njóta allrar ferðarinnar óháð því upp á hvað hún býður því það er engin önnur rúta í boði og engin önnur ferð svo við vitum. Njóta óvissunnar jafnt því sem við stýrum sjálf. Það skiptir máli að fara á nýjar slóðir því með því fær maður ótrúlegar gjafir frá lífinu eins og ég fékk með því að fara ein út í nám.


Lengi skal manninn reyna

4650912467_06cf699934.jpgÞar sem ég get ekki sofið þá ákvað ég að dreifa huganum með því að heilsa upp á bloggsíðuna mína sem hefur verið heldur vanrækt undanfarið. Hef staðið í annars konar skrifum og því hefur bloggið fengið frí.

Ég hef verið að hugsa um íbúa litlu eldfjallaeyjunnar. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með undanfarna daga hvernig manneskjuna reynir í þeim hamförum sem yfir okkur ganga. Ég fylltist stolti af því að heyra fólk lýsa óbilandi bjartsýni í fréttunum yfir því að þetta væri nú ekki svo mikil aska, mun minna en í næsta nágrenni, eða mun minna en síðast. Æðruleysið endurspeglaðist á ríkulegan hátt í tilsvörum íbúa Suðurlands. "Við verðum bara að láta okkur hafa þetta, vona að þetta taki sem fyrst enda". 

Ég fylltist samt sorg af því að sjá skepnur sem orðið höfðu öskunni að bráð.

Náttúruöflin eru ekkert lamb að leika sér við. Þegar náttúrunni sýnist sem svo þá verðum við bara að láta okkur hafa það. Standa af okkur öskustorminn þó svíði í augu og vit og vonast eftir betri tíð með nýjum blómum í haga. 

Hinn óstöðvandi kraftur Íslendinga og oft mikil trú á eigin getu er sennilega sprottin í gegnum árin úr þessum aðstæðum. Við höfum þurft að standa af okkur náttúruöflin af æðruleysi á okkar fallega en harðbýla landi og við höfum áttað okkur á því að oftast getum við það. En lengi skal manninn reyna.

Ég dáist svo að seiglunni sem í okkur býr. Það hrundi allt hér, náttúruöflin hafa reynt á undanfarið og í kjölfarið hriktir í grunnstoðum okkar. En ekki gefst fólk upp. Nei, við reynum að læra á hverjum degi (gengur misvel auðvitað) og við sópum og mokum öskuna án þess að leggja hendur í skaut. Við berjumst fyrir betri stjórnarskrá og bættri stjórnskipan. En er þetta allt svona frábært?

Þessi seigla okkar er kannski líka skýringin á því hversu mikið langlundargeð við höfum gagnvart mörgum þeim hamförum sem eru manngerðar og hafa dunið á okkur. Við erum ekki vön að eyða orkunni í að berjast við náttúruöflin heldur höfum við vanist því að standa af okkur storminn og takast svo á við uppbyggingarstarfið þegar lægir.

Ég velti því fyrir mér hversu lengi mig mun svíða þær fréttir að íslenskum almenningi hafi verið fórnað fyrir hagsmuni fjármagnseigenda, enn eina ferðina. Hversu lengi mun ég horfa á eldana brenna upp eignir almennings og bankana fitna? Hversu lengi mun ég horfa upp á úrræðaleysið í því að takast á við hamfarirnar með réttum hætti? Hversu lengi mun ég sætta mig við það að hafa eytt ótal árum í að mennta mig en sjá svo ekki fram á góð atvinnutækifæri? Hversu lengi mun ég súpa hveljur við kassann í Bónus? Hversu lengi mun ég loka eyrunum þegar enn ein fréttin af sukki og spillingu heyrist í fjölmiðlum?

Hvað er eiginlega langt í að græna grasið spretti upp úr öskunni?


Erindi til stjórnlagaráðs

Mosfellsbær, 13.4.2011

Ágætu stjórnlagaráðsfulltrúar.

Um leið og ég óska ykkur til hamingju með kjörið og óska ykkur velfarnaðar í þeirri mikilvægu vegferð sem þið eruð að leggja í vil ég koma með tvær ábendingar.
Sú fyrri lýtur að formlegri hagsmunaskráningu og sú síðari lýtur að lýðræðislegum farvegi fyrir drög að nýrri stjórnarskrá.

Þið eruð einstaklingar sem hafið boðið fram krafta ykkar til þess að taka þátt í sögulegri endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Starf ykkar á sér því enga hliðstæðu og ábyrgð ykkar er mjög mikil. Hluta þeirra orsaka sem ollu því að hérlendis hrundi efnahagslífið má rekja til kunningjasamfélagsins, ógagnsæis, ófaglegra vinnubragða og skorts á formfestu. Um þetta er fjallað meðal annars í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndar Alþingis. Til þess að Stjórnlagaráð og fulltrúar þess geti notið þess trausts sem nauðsynlegt er til þess að fylkja þjóðinni á bakvið sig og drög að nýrri stjórnarskrá tel ég grundvallaratriði að ferlið sé eins gagnsætt og kostur er og endurspegli góð og fagleg vinnubrögð.

Það er lykilatriði að stjórnlagaráðsfulltrúar geri grein fyrir hagsmunatengslum sínum með formlegum hætti. Þar horfi ég til þess fordæmis sem Alþingi Íslendinga hefur nú þegar skapað. Skrifstofa Alþingis heldur skrá og birtir opinberlega með formlegum hætti upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni alþingismanna og trúnaðarstörf þeirra utan þings en finna má reglurnar á þessari vefslóð: http://www.althingi.is/vefur/hagsmunaskraning_reglur.html.

Ég tel mjög mikilvægt að Stjórnlagaráð birti með sama hætti opinberlega upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni og trúnaðarstörf fulltrúa sinna og hvet alla stjórnlagaráðsfulltrúa að gera það hið allra fyrsta. Með því að sýna gagnsæi í verki er mun líklegra að þið byggið upp traust á ykkur og störfum ykkar hjá þjóðinni.

Einnig tel ég grundvallaratriði að þau drög sem Stjórnlagaráð leggur fram verði send í lýðræðislegan farveg með dómi þjóðarinnar þar sem greidd verði atkvæði um einstaka kafla og/eða greinar áður en Alþingi fær þau til afgreiðslu. Það tel ég vera besta lýðræðislega farveginn á vinnu ykkar og að sama skapi auka líkur á því að þjóðin fylki sér á bakvið nýja stjórnarskrá áður en einstakir þingmenn fá tækifæri til þess að gera breytingar á drögunum.

Með virðingu og vinsemd,
Kristbjörg Þórisdóttir.

Hér má sjá erindið á síðu Stjórnlagaráðs


Gleðilega páska


gledilegapaska.jpg
 
Gleðilega páska kæru vinir :)

 


Sumarið er tíminn

Sumarið er tíminn þegar hjörtun verða græn...

Eftir erfiðan vetur er loksins komið að því. Vorið er farið að banka upp á (reyndar með roki og rigningu) og sumarið er handan við hornið með fögrum fyrirheitum, tifandi grænu bylgjandi grasi og endalausum sólroðanóttum.

Mikið er það gott að veturinn sé að baki og sumarið sé nú tíminn.

Í hamagangi hversdagsins er svo auðvelt að gleyma því að lifa lífinu. Lifa fyrir hvern dag, hverja klukkustund, hverja mínútu. Lifa fyrir það eina sem við raunverulega eigum í þessum heimi, hvert andartak, hvern andardrátt.

Hvers vegna að vera í fortíðinni eða framtíðinni þegar maður getur verið í núinu? 

Hvers vegna lætur maður sér leiðast þegar maður á dásamlega vini sem veita manni gleði og hlýju?

Hvers vegna að hanga á skrifstofunni þegar maður getur átt stund með börnunum sínum?

Hvers vegna að gera í stað þess að vera?

Hvers vegna að rífast eða þrasa þegar betra er að brosa og hlæja?

Hvers vegna að sitja í sófanum þegar maður getur synt, hlaupið og leikið sér og notið náttúrunnar?

Það er jafn auðvelt að segja þessa hluti eins og oft getur verið erfitt að vera í alvörunni í núinu og njóta andartaksins í raun og veru. Að vera í fortíðinni eða kvíða framtíðinni er oft of auðvelt. 

Hugarfar hefur svo mikið að segja. Ég hljóp í víðavangshlaupi í gær. Fyrsta hlaup sumarsins hjá mér. Á miðri leið var ég búin að setja mig í hlutverk bestu sölukonu á svæðinu og selja sjálfri mér að ég væri bara líkamlega of þreytt til að klára hlaupið og ætti bara að hætta...

En það var þessi yndislega innri rödd sem þaggaði niður í sölukonu letinnar og minnti mig á hversu unaðslega mér myndi líða þegar ég kæmi í mark. Minnti mig á sælurússið sem er engu líkt sem fylgir því að klára svona hlaup. Endorfín víma punktur is. Og ég hélt áfram, ákvað að njóta hlaupsins, kom í mark á góðum tíma og bætti tíma minn þrátt fyrir leiðinlegar aðstæður og fékk endorfín rúss að launum.

Ætla að setja hér með eitt af mínum uppáhalds lögum sem kemur mér að minnsta kosti í sumargírinn. Gleðilegt sumar kæru vinir og njótið lífsins :)


Áskorun á Davíð Oddsson og Harald Johannessen ritstjóra Morgunblaðsins vegna birtingu vændismyndar

Framkvæmdastjórn Landssambands framsóknarkvenna lýsir furðu sinni á því að ritstjórn Morgunblaðsins, sem ber fulla ábyrgð á birtingu skopmyndar af þingkonunni Siv Friðleifsdóttur sem teiknuð var sem vændiskona í Morgunblaðinu sl. laugardag, hafi ekki enn beðið þingkonuna opinberlega afsökunar í blaðinu.

Hér með ítrekar stjórnin fyrri beiðni sína og skorar á þá Davíð Oddsson og Harald Johannessen, ritstjóra Morgunblaðsins, að biðja Siv Friðleifsdóttur tafarlaust og opinberlega afsökunar á alvarlegu athæfi sínu.

Sjái ritstjórarnir ekki ástæðu til þess að biðjast afsökunar á myndbirtingunni óskar stjórnin eftir opinberum útskýringum á því hvers vegna þeir telji það ástæðulaust og hvers vegna slík myndbirting sé ásættanleg að þeirra mati.

Framkvæmdastjórn Landssambands framsóknarkvenna fagnar afsökunarbeiðni teiknara myndarinnar, Helga Sigurðssonar, en hann hafði samband við þingkonuna og baðst persónulega afsökunar á henni. Er hann maður að meiri fyrir vikið.

Stjórn Landssambands framsóknarkvenna mun ítreka ofangreinda beiðni og áskorun ef ritstjórn Morgunblaðsins bregst ekki við. Mál af þessu tagi ber ekki að þegja í hel.


Framkvæmdastjórn Landssambands framsóknarkvenna krefst þess að Morgunblaðið biðji Siv Friðleifsdóttur þingkonu tafarlaust afsökunar

lfkmerkilitur_1077749.gifFramkvæmdastjórn Landssambands framsóknarkvenna lýsir yfir algjörri vanþóknun á skopmyndateikningu þá er birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 16. apríl síðastliðinn þar sem Siv Friðleifsdóttir, þingkona Framsóknar var teiknuð sem vændiskona. Stjórnin telur teiknarann og Morgunblaðið hafa farið langt yfir velsæmismörk og vega með afar ósmekklegum hætti að þingkonunni.

Stjórnin fer jafnframt fram á það við ritstjórn Morgunblaðsins sem og teiknarann, Helga Sigurðsson, að biðja þingkonuna tafarlaust og opinberlega afsökunar á alvarlegu athæfi sínu.

Vændi er grafalvarlegt samfélagslegt vandamál sem eykst í kreppu vegna slæmrar stöðu kvenna og er alls ekkert grín.


mbl.is Hefur beðið Siv afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamaldags pólitík vs. nútíma pólitík

Það eru áhugaverðir hlultir að gerast í íslenskri pólitík. Eins og ég upplifi þetta þá eru að takast á alls konar mismunandi öfl, straumar og stefnur.

Þessi viðbrögð Þórunnar má túlka sem svo að þau endurspegli gamaldags pólitík. Viðhorf sem segja "My way or no way". Ásmundur Einar hefur ekki verið nógu hlýðinn forystunni, fylgt sinni sannfæringu í stað þess að láta kúga sig til annars og þess vegna er hann verðmetinn lágt. Órólegur og óæskilegur.

Í mínum huga er þetta ein mesta meinsemdin í pólitík að menn skuli ekki geta tjáð og staðið með sínum eigin skoðunum vegna foringjaræðis og flokkshollustu án þess að vera litnir hornauga. "Þingflokkurinn þarf að hafa eina línu í málinu, það er sterkara". Segir hver? Ég er alveg ósammála því. Þegar allir einstaklingar í einum þingflokki hafa eina línu í flóknum og erfiðum málum þá finnst mér það endurspegla háar líkur á hjarðhegðun, foringjaræði og flokkshollustu. Að mínu viti endurspeglar það að einhverjir þingmenn fari gegn sannfæringu sinni. Þau mál sem þingmenn takast á við eru oft það erfið viðfangs að það er alls ómögulegt að allir komist að sömu niðurstöðu og ætti að vera líklegt að skiptar skoðanir séu um þau í þingflokknum. Þrátt fyrir að menn vinni vinnuna sína heima og leggi sig fram um að komast að sinni niðurstöðu með röklegum hætti.

Varðandi þau rök að fólk kjósi ákveðna stefnu þá segi ég á móti að það eykur ennþá mikilvægi þess að koma á persónukjöri. Svo er það nú þannig að mörg veigamestu málin sem hafa verið í gangi núna stóðu ekki í stefnuskrá neins flokks m.a. Icesave, Landsdómur og vantraustsyfirlýsing.

Sá skortur á umburðarlyndi fyrir mismunandi skoðunum sem ríkir er ekki til góðs. Við verðum að geta aðskilið manneskjuna sjálfa frá skoðun hennar. Þannig eru meiri líkur á því að við getum staðið saman um þau mál sem við erum sammála um. 

Það er tjáningarfrelsi og skoðanafrelsi á Íslandi. Það gildir líka á Alþingi Íslendinga. Færum nú pólitíkina yfir á 21. öldina og ég held að sumir þurfi að uppfæra aðeins hjá sér harða drifið.

Pólitík sérhagsmuna, stýringar á "atkvæðum" þeas. fólki m.a. með fjármagni, hjarðhegðun, foringjaræðis, einnar línu þingflokka, ógagnsæis, skoðanakúgunar, spillingar á að vera liðin undir lok. Hún er úrelt gamaldags pólitík.

Breytum vinnubrögðum, berum virðingu fyrir skoðunum annarra, uppfærum harða drifið í kollinum á okkur yfir á nútíma pólitík og þá mun okkur farnast vel í þeim flóknu úrlausnarefnum sem framundan eru við að endurreisa íslenskt samfélag.

 


mbl.is „Farið hefur fé betra“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórn Landssambands framsóknarkvenna lýsir yfir vanþóknun á ákvörðun meirihluta þingflokks Vg

lfkmerkilitur_1076892.gifStjórn Landssambands framsóknarkvenna lýsir yfir vanþóknun sinni á ákvörðun meirihluta þingflokks Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs að víkja Guðfríði Lilju Grétarsdóttur úr sæti þingflokksformanns.

Ákvörðunin er ekki síst dapurleg í ljósi þeirrar skyldu sem þingmenn og þingflokkar hafa að ganga á undan með góðu fordæmi, meðal annars í jafnréttismálum. Kristín Ástgeirsdóttir framkvæmdastýra Jafnréttisstofu hefur nú þegar lýst því yfir að aðgerðin sé á gráu svæði og það sé slæmt þegar konum fækki í áhrifastöðum. Stjórn Landssambands framsóknarkvenna tekur undir þau orð.

Það vekur furðu að þingflokkur stjórnmálaafls sem sýnt hefur sig sem einn helsta talsmann raunverulegs jafnréttis skuli ekki ástunda þau vinnubrögð sem boðuð eru. Það er ekki til þess fallið að öðlast traust almennings að segja eitt en gera annað.

Það er grundvallaratriði í jafnréttismálum að konur jafnt sem karlar geti gengið að stöðu sinni vísri við endurkomu úr fæðingarorlofi. Stjórn Landssambands framsóknarkvenna harmar að með aðgerð sem þessari er ekki stuðlað að því að Alþingi Íslendinga sé fjölskylduvænn vinnustaður þegar þingmenn sem fara í fæðingarorlof geta átt það á hættu að missa fyrri stöðu eða embætti við það að eignast börn.

(Ályktun send fjölmiðlum 11.4.2011)

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband