Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Málefni nýrra Íslendinga og erlends vinnuafls

Ég hef verið að velta þessum málum svolítið fyrir mér að undanförnu í kjölfar þeirra óeirða sem verið hafa í Danmörku.

Ég tel eins og margir aðrir að það sé mjög mikilvægt að vinna vel að þessum málum strax og ekki seinna vænna því annars mun verða til gríðarstórt verkefni á næstu árum við að vinna tilbaka það sem strax hefði átt að gera í upphafi.

Það er mjög mikilvægt að hlúa vel að og styðja það fólk sem kýs sér að koma hingað til lands til langframa búsetu. Ég tel að skylda eigi fólk til íslenskunáms sem hefur það hlutverk að kenna íslenskuna og um leið að aðlaga fólk að samfélaginu. Það er hægt að tvinna saman íslenskunám og um leið fara yfir félagslegan rétt einstaklinga og grunnþekkingu á íslensku samfélagi. Ég tel að fólk eigi að gangast undir ákveðin próf og fái ekki búseturétt hér til lengri tíma nema gangast undir íslenskupróf (ég tek það fram að ég þekki þessi málefni ekki og kannski erum við komin talsvert lengra en tilfinning mín segir mér). Alþjóðahús er að vinna í þessum málum og eflaust að vinna mjög gott starf. Ég efast nú þó um að þeir hafi bolmagn í þann fjölda sem flutt hefur á síðustu árum.

Einnig að það sé gerð krafa á fólk á vinnumarkaðnum að það tali íslensku eins og það mögulega getur. Of oft tel ég fólk fara beint yfir í enskuna. Þetta þýðir það að fólk almennt þarf að vera jákvætt og sýna samstarfsvilja. Leggja sig fram við að skilja það sem nýir Íslendingar eru að reyna að segja og tala skýrt á móti. Það tekur langan tíma að aðlagast hér og læra tungumálið en það er hægt.

Ég er í dönskuskóla (Sprogskolen) í Danmörku og þar er fólk alls staðar að úr heiminum sem stundar þar dönskunám enda skilst mér að það sé skilyrði ríkisborgararéttar. Það er með ólíkindum hversu góðum tökum sumir þeirra hafa náð á dönskunni og hversu góðan skilning þau eru komin með á dönsku samfélagi.

Ég þekki þessi málefni ekki nægilega vel hér á landi en tel að við eigum langt í land með vinnu og stefnumótun í þessum málum. Það þarf að gerast hratt og örugglega ef við ætlum að vanda vel til verka og ná árangri. Það er til dæmis að mínu mati mikilvægt að námið og námsefni sé fólki að kostnaðarlausu (eins og í Danmörku) og skyldumæting.

Svo er það hinn hópurinn sem er fólk sem kemur hér til skamms tíma að vinna á "vertíð" og ætlar sér aldrei að setjast hér að. Ég tel eins og Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra hefur verið að beita sér fyrir að þar þurfi að vera virkt eftirlit og að þessir starfsmenn búi og starfi við mannsæmandi aðstæður og gott eftirlit sé með því að farið sé að lögum og reglum um kjarasamninga.

Ef ekki verður unnið nægilega vel í þessum málefnum getur myndast hér hópur nýrra Íslendinga sem skilur ekki samfélagið, lendir upp á kant við það og það getur haft mjög slæmar afleiðingar fyrir samfélagið í heild sinni.

Við erum svo smá þjóð að það er mikilvægt að standa sterkan vörð um okkar einstaka tungumál en eigum auk þess að bjóða fólk velkomið til okkar. Ef enska fer að verða megintungumál hér í þjónustustörfum þá elst upp ungt fólk hér sem ekki aðeins verður fyrir enskum áhrifum í gegnum meðal annars fjölmiðla heldur mun einnig verða fyrir miklum áhrifum úr þjónustugeiranum og þannig getur móðurmál okkar veikst verulega.

Það er mikilvægt að hugsa strax til framtíðar því eins og er að gerast í Danmörku þá er að alast þar upp hópur ungmenna sem hefur ekki aðlagast samfélaginu, getur ekki staðið undir kröfum skólakerfisins, talar dönskuna en finnur sig ekki í samfélaginu og á jafnvel foreldra sem tala upprunalegt mál fjölskyldunnar og þetta unga fólk lifir í hálfgerðu "einskis manns landi" því það þekkir ekki menningu upprunalandsins en hefur ekki fundið sig í Danmörku.

Málefni innflytjenda eru mikið hitamál í Danmörku og við eigum að horfa til annarra þjóða, læra af mistökum þeirra og vanda vel til verka hér og horfa til framtíðar.


Afþreying eða fjölmiðlun?

Undanfarið hefur verið gósentíð hjá fjölmiðlum. Mikið hefur gengið á í stjórnmálum og því nóg af bitastæðu efni fyrir fjölmiðlana.

Eitthvað hefur harðnað á dalnum.

Stundum veltir maður því fyrir sér hvert hlutverk fjölmiðla landsins er. Stundum standa fjölmiðlamenn sig frábærlega í því að miðla nýjustu fréttum á faglegan og hlutlausan hátt til almennings. Stundum gera þeir það ekki.

Stundum miðla þeir fréttum sem eru ekki pappírsins eða innsláttursins virði. Allt of mörg dæmi eru um það að fréttamenn séu handbendi stjórnmálaflokka eða séu litaðir af sínum eigin stjórnmálaskoðunum og misnoti aðstöðu sína til þess að reyna að koma höggi á pólitíska andstæðinga.

Margt er gefið í skyn sem annað hvort er byggt á sandi eða hreinlega ósatt.

Auðvitað geta fjölmiðlamenn hlaupið á sig eins og hver einasta lifandi manneskja. Þá er bara þeirra verkefni eins og allra annarra að viðurkenna mistök sín og styrkja sig þannig.

Maður efast stundum um það að sumir fjölmiðlamenn geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð og þeim áhrifum sem þeir hafa á samfélagið. Það er ekki að ósekju sem þeir eru sagðir fjórða valdið!  Fjölmiðlar eru virkasti miðillinn til þess að spegla, skapa og endurskapa ríkjandi menningu okkar. Þannig viðhalda fjölmiðlar oft ýmsum röngum staðalmyndum eins og umræða um fatlað fólk hefur stundum birst á rangan hátt í fjölmiðlum og þannig ýtt undir neikvæð viðhorf.

Almenningur verður að geta treyst því að efni sé miðlað á faglegan, fræðilegan og ábyrgan hátt. Ef fólk vill sjá sápuóperur þá getur það horft á þá þætti í stað fréttatíma eða annarra fréttamiðla. Þegar fréttir eru í sápuóperustíl án þess að fótur sé fyrir því þá eru viðkomandi fjölmiðlamenn ekki aðeins komnir út á hálan ís heldur komnir ofan í vök.

Að vissu leyti verður fréttaflutningar ætíð litaður af þeim sem þær flytur. Annað er óhjákvæmilegt. Fréttamenn sem skynverur velja úr þau áreiti sem ná athygli þeirra og um hverja manneskju flæða ótal áreiti á hverjum degi. Hver fréttamður velur þannig það sem hann trúir á. Það sem hann telur áhugavert og muni vekja eftirtekt og skjóta honum hærra upp sem fréttamanni, fjölmiðlamanni. Það sem vönduð fjölmiðlun snýst um að mínu mati er þó að halda sig við faglega umfjöllun í stað þess að skauta af stað í æsiblaðamennsku, sorpblaðamennsku og jafnvel hunsa eða breyta staðreyndum. Þá ætti fólk að snúa sér að einhverju öðru ævistarfi eins og því að skrifa sápuóperur. 

Ég er ein þeirra sem fylgist náið með fréttum. Sjálf reyni ég að skrifa þannig að ég sé ekki ærumeiðandi eða sýni öðrum virðingarleysi. Sú krafa hlýtur að vera í ráðningarsamning hvers fjölmiðlamanns eða hvað?


Samfélag allra árið ????

  Hugleiðingar um aðgengi

Við upphaf nýs árs er hollt að rýna í stöðu samfélagsins. Í þessum stutta pistli gefst aðeins færi á að skoða stöðu samfélagsins út frá einu sjónarhorni. Ég ætla að setja upp aðgengisgleraugun að þessu sinni. Staðan í þjóðfélagi okkar er enn þannig að fólk sem hefur skerðingar mætir hindrunum í samfélaginu. Þessar hindranir geta verið af ýmsum toga eins og manngert aðgengi, aðgengi að upplýsingum, aðgengi að samneyslu, fordómar, neikvæð viðhorf og fleira. Samfélagið er skipulagt með þarfir meginstraumsins í huga en jaðarhópar eru ekki teknir með nema að takmörkuðu leyti. Sem dæmi um hindranir sem skapa fötlun í formi manngerðs aðgengis eru tröppur og þröngar hurðir. Það er undarlegt að opinber fyrirtæki sem og þjónustufyrirtæki skuli geta starfað án þess að geta tekið á móti öllum sínum viðskiptavinum á mannsæmandi hátt. Varðandi aðgengi að upplýsingum þá eru langflestar heimasíður veraldarvefsins hannaðar á þann hátt að erfitt er fyrir fólk með skerðingar að nota þær á þægilegan máta. Aðrar upplýsingaveitur senda sjaldnast frá sér efni á auðskildu máli, með stóru letri eða á aðgengilegan hátt. Varðandi samneyslu þá byggja þegnar þjóðfélagsins saman upp velferðarkerfi sem á að þjóna okkur öllum. Samneyslan er meðal annars heilbrigðiskerfið og skólarnir. Skólar eiga að vera án aðgreiningar en sjaldnast er það raunin. Nemendur með skerðingar eiga ekki greitt aðgengi inn í þá og ef þeir eiga það skortir iðulega stuðning til þess að þeir nái að fylgja sínum félögum eftir. Því er greinilegt að betur má ef duga skal. Við munum seint byggja upp hið fullkomna samfélag en mörg atriði er einfalt að leiðrétta ef hugað er að þeim strax í upphafi. Það sem betra er að flest það sem eykur aðgengi fyrir fólk sem þarf á því að halda eykur aðgengi fyrir alla aðra í leiðinni. Því er ekki einungis verið að greiða götu þeirra einstaklinga sem búa við skerðingar heldur er einnig verið að einfalda samfélagið fyrir nýja Íslendinga af erlendu bergi brotnu, fyrir aldrað fólk, fyrir börn og alla aðra að einu eða öðru leyti. Sem dæmi um þetta má nefna það að ef heimasíður eru settar upp á þann máta að auðvelt sé að stækka letur eða breyta bakgrunni og efnið er sett fram á auðlesinn og skýran hátt þá hefur sú breyting jákvæð áhrif á flesta í samfélaginu. Allt frá þeim sem hefur slæma sjón til þess sem skamman tíma hefur til að renna yfir efnið.


Óró og óöryggi í Danmörku

Maður finnur fyrir því í gegnum fjölmiðla hér að órói er hér í landinu og óöryggi að grípa um sig.

Þessi óróleiki fór af stað í kjölfar þess að upp komst um tilræði við teiknarann Kurt Westergaard sem teiknaði eina af skopmyndunum af Múhameð spámanni og er frá Árósum. Teiknarinn sá hefur verið á flótta síðan hann teiknaði spámanninn og nú er víst vandræði að finna honum skjól þar sem hótel eru ekki jákvæð fyrir því að skjóta yfir hann skjólshúsi vegna þess að það skapi hættu.

Danskir fjölmiðlar ákváðu að birta teikningarnar í kjölfarið á þessu til að sýna fram á það að slík ógn stjórni þeim ekki.

Þetta fór illa í Dani sem eru af erlendu bergi brotnir og hafa jafnvel verið upp á kant í samfélaginu hér. Í Danmörku er mikið af innflytjendum. Einnig hafa verið mótmæli á Gaza og í Pakistan. Einnig hefur fólk rætt um það að lögreglan sé sérlega dómhörð og fljót til ef innflytjandi á í hlut.

Trú hvers manns er alltaf mikið hitamál og ég tel tjáningarfrelsi ekki geta verið svo vítt að það sé særandi eða móðgandi við trú annarra. Ég tel afar mikilvægt að borin sé virðing fyrir hverri manneskju og trú hennar. Ég get þess vegna skilið tilfinningahita innflytjenda sem upplifa þetta sem að traðkað sé á þeim og trú þeirra.

Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra segir þetta vera vanda þeirra sem eru með læti (hærværk) og þetta snúi að fjölskyldunum og foreldrunum því þetta eru mest unglingar sem hafa staðið að þessum óeirðum. Í kjölfarið hefur umræða m.a. ríkisstjórnarinnar verið í þá átt að foreldrar gerendanna eigi að greiða kostnaðinn. Social demokratar eru ekki alveg á sama máli og telja þetta einungis meið af mun stærra vandamáli og það verði ekki leyst með því að hneppa fjölskyldur gerenda í skuldir. Ég tel að bæði hafi að vissu rétt fyrir sér. Það þarf að vinna þetta með því að leita beint til foreldranna og vinna þetta með þeim en einnig þarf að vinna almennt í málefnum innflytjenda.

Nú finnur maður að óöryggi er að grípa um sig og töskum á víðavangi er veitt athygli og rætt er um bílasprengjur. Ég held að fólk geri sér grein fyrir því að með þessu uppþoti er mögulegt að Danmörk verði skotmark öfgahópa eða hryðjuverkamanna.

Ég tel mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að fylgjast vel með þessu og læra af þessu fyrir framtíðina. Bæði læra um tjáningarfrelsi og flækjur þess að það sé virt án þess að skaða náungann og einnig með tilliti til mikilvægi þess að vinna vel í málefnum nýrra Íslendinga.

Ég tel mikilvægt að fólki sé gert skylt að læra íslensku og námið og námsbækur sé fólki að kostnaðarlausu og það sé forsenda ríkisborgararétts. Mér er ekki kunnugt um að það sé þannig í dag en ég hef ekki kynnt mér það. Námið feli svo í sér aðlögun fólks að samfélaginu. Fólk sé svo skyldað til þess að tala íslensku í þjónustustörfum en samfélagið þarf vissulega að gefa mikð svigrúm því enginn lærir svo framandi tungumál á skömmum tíma og mun aldrei tala það lýtalaust. Á sama máta og fólk leggur sig fram við að skilja dönskuna mína og ég mun aldrei tala hana eins og Dani.

Við skulum vona að þessi uppákoma leiði til einhvers góðs eins og þess að unnið verði í málefnum innflytjenda og þess unga fólks sem upplifir sig utanveltu hér í Danmörku en ekki til einhverra voðaverka.


Næsti forseti Bandaríkjanna

Obama er ferskur og hann hefur þann karisma sem sannur leiðtogi þarf. Það er líka gríðarlegur sigur fyrir réttindabaráttu svartra ef hann stendur uppi sem valdamesti maður heims.

Það er eiginlega heldur til kaldhæðnislegt að hann fær ekki síður stuðning fyrir það að vera dökkur á hörund.

Ef Obama væri einnig kona, samkynhneigður og með einhverja skerðingu þá væri hann góður fulltrúi minnihlutahópa.

Það sem ég tel vera mikilvægast í þessu er það að það er manneskjan í heild sinni sem á að skipta máli. Það er ekki nóg að vera bara svartur, velja bara Hillary af því kona eigi að komast í þetta embætti eða annað.

Að mínu mati sýnist mér Obama hafa mikla hæfileika til þess að gegna þessu embætti. Hann virðist sannur leiðtogi og það er ekki að undra að straumurinn sé að snúast honum í hag.


mbl.is Obama með forskot á Hillary
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar á ég að hefja leikinn?

Það er það sem ég er að hugsa um núna. Það er svo margt sem mig langar að deila með ykkur.

Það sem efst er á baugi hjá mér núna eru þó samskiptamál. Þau eru allt í kringum mig. Hver einasta manneskja er alltaf í stöðugum samskiptum. Samskiptum við sjálfa sig og samskiptum við umhverfið. Maðurinn er hættulegasta dýrið í skóginum, það er alkunna. En ekki aðeins gagnvart umhverfinu og dýrum heldur líka gagnvart sjálfum sér og öðrum mönnum. Mér finnst fólk stanslaust vera í stríði, stanslaust í baráttu. Við erum í baráttu hvert við annað. Stundum finnst mér eins og fólk svífist einskis til þess að koma höggi á náungann. Það læðist að mér sú grunsemd að svona verði þetta alltaf. Þetta sé innbyggt í eðli mannsins.

Ég held að þessar tvær hliðar peningsins verði alltaf til staðar hjá öllu fólki. Listin er hins vegar sú að snúa jákvæðu hliðinni upp og stuðla að því að meiri jákvæðni ríki almennt. Ég hef velt því fyrir mér að til dæmis í pólitíkinni þá eyðir fólk mun meiri orku í það að benda á hversu illa hinn aðilinn standi sig og er farið að ganga langt í persónuárásum eins og nýlegasta dæmið sýnir um skrif Össurar iðnaðarráðherra um Gísla Martein Baldursson borgarfulltrúa. Af hverju eru menn að eyða svona miklu púðri í það að kasta rýrð á náungann? Hvað hefst upp úr því? Ef hugsað er um hag heildarinnar þá hefst ekkert upp úr því nema það að við spólum í sama farinu ef ekki aftur á bak.

Ef menn einbeita sér að því jákvæða sem náunginn gerir og leggja upp með jákvæðni og uppbyggilegri gagnrýni og muna eftir þeirri hugsjón sem þeir hafa t.d. í pólitík þá er mun líklegra að mínu mati að málin komist lengra. Þá er orkunni beint í áttir sem gagnast almenningi. Ef menn myndu jafnvel vera duglegri að hrósa náunganum í stað þess að benda sífellt á hvað fer illa þá myndi það setja af stað almennt meiri jákvæðni og þannig koll af kolli skapa betra vinnuumhverfi.

Þetta á við almennt í mannlegum samskiptum. Stundum föllum við ofan í pytti og sjáum bara svart. Sjáum bara allt að náunganum og sendum mikla neikvæða orku frá okkur sem snýr neikvæðu hliðinni upp hjá hinum aðilanum sem svarar í sömu mynt. Svona samskipti eru slæm og þau eru sár. Þá verður til neikvæður spírall sem erfitt er að vinda ofan af.

Þannig að pistill dagsins fjallar um það að einbeita sér almennt meira að sjálfum sér, sinni hugsjón, horfa fram á veginn og sjá það jákvæða í fari náungans en horfa fram hjá því neikvæða. Þannig er sú orka sem við höfum nýtt á góðan hátt.


Riðið á vaðið

Jæja þá hef ég ákveðið að ríða á vaðið með nýtt blogg. Ég hef bloggað núna í ár og lifi núna tvöföldu lífi í bloggheimum. Annars vegar er ég með læst blogg www.kidda.blog.is sem er ætlað þeim sem standa mér næst og fjölskyldu og vinum til þess að leyfa fólki að fylgjast með veru minni í Danaveldi. Hins vegar ætla ég að hafa þetta blogg sem verður mín leið til þess að viðra skoðanir mínar og deila með lesendum pælingum mínum. Ég ætla að leyfa athugasemdir á þessu bloggi en ég mun ekki svara þeim þar sem ég hef ekki trú á rökræðum í athugasemdastíl. Ef athugasemdir verða særandi eða niðrandi í garð einhverrar persónu gæti farið svo að ég sjái mér ekki annað fært en að eyða þeim út. Ég vona að til þess komi ekki því ég hef mikla trú á því að jákvæð umræða skili mun meiru en neikvæð um alla skapaða hluti.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband