Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Miðvikudagur, 5. mars 2008
Hefur þú hrósað nóg í dag?
Það er ein undirstaða góðra samskipta að vera duglegur að hrósa öðrum.
Linda, vinkona mín kom með gott ráð um daginn hvað þetta varðar.
Taktu þrjá (eða fleiri) litla bréfmiða og krumpaðu þá saman (þú getur líka notað hvað sem er annað). Settu þá í annan vasann. Þegar þú hrósar einhverjum færðu þá einn bréfboltann í hinn vasann. Ef litlu bréfboltarnir eru enn í vasanum að deginum loknum þá sér maður vel að maður þarf að taka sig á í hrósinu. Ef þeir eru allir komnir yfir í seinni vasann þá er maður að standa sig vel. Í hvert skipti sem maður ætlar að sækja eitthvað í vasann þá finnur maður fyrir miðunum og man þá eftir því hvað þetta þýðir.
Svo skiptir auðvitað miklu máli að vera duglegur að hrósa sjálfum sér því maður er það sem maður hugsar...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 5. mars 2008
Gott hjá BJÖRK
Mikið var ég ánægð að sjá það að hún Björk skyldi hafa kjark til þess að mótmæla því hvernig Kínverjar hafa farið með og fara með Tíbeta.
Hún hefur kjarkinn til þess að rjúfa þá óþægilegu þögn sem þessi fíll í postulínsstofunni skapar. Enginn virðist þora að styggja hann.
Ég vona að fleiri fari að hennar fordæmi og bendi á þessi grimmu mannréttindabrot í stað þess að horfa framhjá þeim eins og flestallir gera því miður.
Það er ólýsanlega sorglegt að upplifa það hvernig Tíbetar hafa þurft að leggjast í útlegð innan og utan eigin lands og sjá hvernig Kínverjar eru smám saman að valta yfir þá.
Þessi upplifun er ansi sterk þegar maður stendur á þaki Potala Palace hallar Dalai Lama, bókstaflega á þaki heimsins í hæstu höfuðborg heims, Lhasa og sér þar Tíbetana biðja á sinn fagra friðsama hátt umkringda kínverskum vörðum.
![]() |
Yfirlýsing frá Björk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 4. mars 2008
Góðir punktar hjá Guðna
Guðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins skrifar ágætis grein í Morgunblaðið í dag sem heitir "Vaknar ríkisstjórnin nú af þyrnirósarsvefni?"
Það sem mér þótti áhugavert í greininni og tek undir með Guðna er að hvetja til sparnaðar. Með því að beita skattkerfinu má ná fram hvatningu hjá almenningi til þess að leggja fyrir. Þannig væri hægt að veita skattaafslátt á móti reglulegum sparnaði. Ég er nú ekki viðskipta- eða hagfræðingur en því miður hefur kerfið verið þannig að það hefur ekki hvatt til þess að fólk spari sérstaklega. Kerfið að undirlagi bankanna hefur frekar ýtt undir stórneyslu almennings og er það hluti af því vandamáli sem við stöndum frammi fyrir í dag. Með því að hvetja til sparnaðar má hafa mjög góð áhrif á efnahagslífið til lengri tíma.
Með því að horfa til þjóða eins og Sviss og Danmörku þá þekkist ekki sú gríðarlega umfram eyðsla sem þykir sjálfsögð hér. Þar ríkir meiri agi almennt í fjármálum í þjóðarsálinni og fólk leggur mikið upp úr reglulegum sparnaði og því að sýna fyrirhyggju í fjármálum.
Fjárhagur og eyðsla hefur mjög mikið með hugarfar hvers einstaklings að gera. Það þekkja það flestir að því hærri sem tekjurnar verða því meiru eyðir fólk og því finnur það í raun ekki mikinn mun. Ekki má gleyma því að ef maður hefur efni á því að borga af yfirdrættinum eða borga raðgreiðslurnar þá hefur maður líka efni á því að leggja fyrir það sem því nemur og eignast hlutinn þegar maður hefur sparað fyrir honum. Þannig sparar maður sér tugi þúsunda í vexti og önnur gjöld sem bankarnir hafa heldur betur grætt á síðustu árin. Því eins og sagt er í bókinni hans Ingólfs "Þú átt fullt af peningum, þú þarft bara að finna þá" á maður að byrja á því að taka ákveðinn hluta af tekjum sínum og leggja fyrir, greiða svo skuldir og inn á höfuðstól lána ákveðna upphæð og láta svo restina duga . Auðvelt að segja, erfiðara að framkvæma. Þekki það vel sjálf!
Þessi umræða er mjög góð og ég vona að hún síist smám saman inn í landann. Ég held að okkur veiti ekki af næstu misseri.
Varðandi til dæmis greiðslur í lífeyrissjóðina þá hefur kerfið verið gallað hvað það varðar því fólki hefur frekar verið hegnt fyrir að leggja fyrir til efri áranna því þá missir það réttindi. Þetta er kolröng hugsun. Einnig hefur öll upphæðin verið skattlögð þegar hún er greidd út samkvæmt tekjuskatti en það stenst ekki því hluti upphæðarinnar eru vextir af því sem fólk hefur safnað sér á löngum tíma og þann hluta ætti því að skattleggja samkvæmt fjármagnstekjuskatti sem er miklu lægri. Það þarf að fara vel yfir allt þetta kerfi og skera það upp og koma hvötum fyrir inn í það sem stuðla að því að breyta viðhorfum til sparnaðar og fjármála almennt.
Ég viðurkenni það enn og aftur að vera langt frá því sérfræðingur í þessum málum og gæti því vel verið að fara með rangt mál að einhverju leyti en það breytir því ekki að hér þarf stórátak að verða til þess að endurskoða skattkerfi okkar og stuðla sérstaklega að því að landinn fari að safna tekjum sínum inn í bankana í formi sparnaðar í stað þess að þjóðin sé að meðaltali með langan yfirdráttarhala og eyði langt umfram efni.
Ætli það sé ekki best að fara að hrista sparigrísina, þá kannski vaknar ríkisstjórnin.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 4. mars 2008
Hvers vegna áhersla á sérskóla og sérdeildir?
Þessi hækkun til skóla- og velferðarmála er vissulega fagnaðarefni.
Það sem stakk mig þó í fréttinni er hvers vegna verið er að gefa svona inn varðandi sérúrræðin. Þetta samræmist ekki þeirri stefnu sem hefur verið að ryðja sér til rúms m.a. með tilkomu fötlunarfræðanna að draga úr sérúrræðum í skólakerfinu og í stað þess að leggja áherslu á það að skapa öllum skilyrði til þess að stunda einstaklingsmiðað nám innan almenna skólakerfisins.
Vissulega eru skiptar skoðanir um þetta og mikilvægt að bjóða upp á val sem allir nemendur og aðstandendur þeirra kjósa sér sjálfir.
Raunin hefur verið sú að fötluðum nemendum hefur oftar en ekki verið hafnað í sínum hverfisskólum þar sem þeir kjósa sér að fylgja sínum félögum í almenna skólakerfinu. Margir sem ég hef rætt þessi mál við eru þeirrar skoðunar að sérúrræðin séu betri... en það sé vegna þess að ekki fylgi sá stuðningur sem þurfi að vera inni í almennu skólunum til þess að það sé mögulegt.
Það er ríkjandi stefna baráttuhópa fatlaðs fólks að draga úr þeirri gamaldags aðgreiningu sem átt hefur sér stað í gegnum tíðina á allan þann hátt sem mögulegt er. Það eiga allir sama rétt á menntun í almennum skóla.
Rannsóknir í fötlunarfræðum m.a. rannsókn Kristínar Björnsdóttur doktorsnema hafa sýnt fram á það að nemendur í sérdeildum ná ekki að blandast inn í almennan hóp framhaldsskólanema þar sem þeir eru alltaf sér. Þannig eiga þeir erfitt með að "læra að vera unglingar" sem flestir læra af því félagslífi og starfi sem fylgir skólanum og meðal annars að eignast ófatlaða vini.
Með því að fara í gegnum almenna leikskóla- og skólakerfið þá upplifa fatlaðir nemendur það að þeir eiga sama rétt og aðrir og kröfur eru gerðar á þá eins og aðra. Þannig koma þessir nemendur út úr skólakerfinu með betri sjálfsmynd og væntingar fyrir framtíðina. Við eigum frábært dæmi um Freyju Haraldsdóttur, konu ársins, sem hefur alltaf farið í gegnum allt almenna kerfið og ekki viljað vera "sér" í einu eða neinu sem hefur blómstrað og brotið niður veggi. Þeir nemendur sem kynnast samnemendum sem hafa skerðingar læra einnig mikið af sinni samveru með skólafélögunum, lexíu sem erfitt er að kenna í bókum um margbreytileika samfélagsins og leikni í því að bera virðingu fyrir hverri manneskju og sjá þann styrkleika sem hver býr yfir.
Af skrifum mínum sjáið þið greinilega hver mín afstaða er. Ég tel kostina við það að öll börn eigi þess kost að fara í gegnum almennt kerfi eins og hver annar undirstöðu þess að við byggjum hér upp samfélag þar sem allir eiga sinn rétt. Ég er því ekki hlynnt því að hér sé verið að byggja upp sérúrræði markvisst. Hins vegar veit ég að ekkert er svart og hvítt og í ákveðnum tilfellum getur það verið val einstaklings eða aðstandenda að nota sérúrræði. Í þessum tilfellum er sjálfsagt að verða við slíku en almennt séð held ég að þessir fjármunir hefðu frekar átt að fara í það að byggja upp stuðning við nemendur sem þurfa stuðning inni í hinu almenna skólakerfi án sérskóla eða sérdeilda.
![]() |
1,6 milljarða aukaframlag til skóla- og velferðarmála |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 3. mars 2008
Hvers vegna sækjast konur eftir sætum neðar á lista?
Þessi spurning leitaði á mig eftir að lesa niðurstöðu Ásdísar.
Hvað veldur því að konur sækjast eftir sætum neðar á framboðslistunum í kosningum og draga því úr líkum sínum á því að ná inn á Alþingi? Þetta veldur því að konur eru aðeins þriðjungur þingmanna en ættu í raun að vera um helmingur til þess að jafnrétti ríki á Alþingi. Á meðan staðan er svona þá tel ég að jafnrétti kynjanna náist ekki til fulls. Það er mikilvægt að þingmenn á Alþingi séu sem besti þverskurðurinn af íslensku samfélagi.
Þá á ég ekki við kynjakvóta því ég tel ekki gott að einstaklingur komist að vegna kvóta. Það er mikilvægt að vinna sér sæti á eigin verðleikum og því sem hver einstaklingur hefur fram að færa. Við eigum jafn mikið af frambærilegum konum og körlum. Á því leikur enginn vafi. Ég man eftir því að hafa heyrt umræðu og rannsókn um það að þau fyrirtæki sem hafa jöfn kynjahlutföll í stjórnum sínum skili betri arði og það sama gildir á Alþingi.
Hvað er það þá sem stoppar konur af í því að berjast um efstu sætin í prófkjörum? Er það álagið sem fylgir kosningabaráttunni eða er það starfið sem fylgir í kjölfarið? Störf þingmanna eru gríðarlega annasöm og miðað við þann vinnutíma sem hefur viðgengist þar þá er ákaflega erfitt að samræma slíkt eðlilegu fjölskyldulífi. Þetta þarf að skoða. Eftir höfðinu dansa limirnir. Ef við ætlum að ná fram jafnvægi á milli einkalífs og atvinnulífs almennt og rækta fjölskylduna þá þarf slíkt að vera mögulegt á Alþingi líka. Það er einnig merkilegt í ljósi þess hversu langt við eigum að vera komin í jafnréttismálum að það ófjölskylduvæna starfsumhverfi sem Alþingi býður upp á skuli frekar fæla konur frá en karla? Við framsóknarmenn náðum fram miklum áfanga með feðraorlofinu en enn virðast þó barneignir hafa ríkjandi áhrif á starfsval og atvinnu kvenna fremur en karla. Á þessu eru þó undantekningar.
Ég er ánægð með þau verkefni og þá umræðu sem uppi er núna til þess að hvetja konur áfram í valdastöður. Ekki veitir af.
Siv Friðleifsdóttir þingmaður okkar framsóknarmanna var einmitt fyrsti flutningsmaður að frumvarpi um aðgerðir til þess að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum sem lagt var fram 4. okt á síðasta hausti og er núna í vinnslu í þinginu http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=135&mnr=34
Það er gott skref í rétta átt.
![]() |
Verkefni um árangur kvenna í prófkjörum fær styrk FS |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 3. mars 2008
Ert þetta þú elskan? Ég bara þekkti þig ekki...
Nei... úff!
Nú finnst mér menn vera komnir yfir strikið.
Hver er tilgangurinn með því að "lagfæra" myndir af börnunum sínum? Elskar maður ekki börnin sín eins og þau eru? Hvenær ætli komi að því að lagfæringarnar verða raunverulegar en ekki aðeins á myndum? Viltu ekki geta þekkt börnin þín af myndunum? Hver er tilgangurinn með því að "photoshoppa" þau þannig að myndirnar sýna þau ekki eins og þau eru? Það er einmitt sjarminn við að skoða gamlar myndir að sjá hvað maður var yndislega hallærislegur. Einmitt raunverulegustu myndir sem til eru af flestum áður en menn fara að breyta náttúrulegu útliti sínu með ýmsum aðferðum.
Þetta lýsir alvarlegra málefni sem er það að allir virðast eiga að vera steyptir í sama mót. Allir eiga að hafa eins eyru, sömu hvítu tennurnar og þar fram eftir götunum. Þetta er útlitsdýrkun og yfirborðsmennska. Hvaða skilaboð senda slíkar lagfæringar til þeirra barna sem þetta er gert við? Æi, elskan mín þú ert bara með svo hræðilega útstæð eyru eða gular tennur að við urðum að láta laga það aðeins... ekki það að það sé eitthvað að því... við viljum bara ekki hafa það á myndinni! Þetta er ágætis uppskrift að brotinni sjálfsmynd til framtíðar.
Hvaða skilaboð sendir þetta þeim börnum sem skera sig úr fjöldanum í útliti? Til dæmis barna með skerðingu eins og Down´s heilkenni sem hafa óhefðbundið útlit þegar steypa á alla í sama mót í stað þess að fagna margbreytileikanum? Þetta hlýtur að segja þeim að þau séu afbrigðileg ef útstæð eyru eru tilefni lagfæringa á bekkjarmynd.
Hvers konar veruleika lifum við í nú á dögum? Er ekki nóg að dæla þessari útlitsdýrkun sem viðgengst í samfélaginu, í fjölmiðlum eins og "photoshoppuðum" forsíðustúlkum yfir börnin okkar án þess að eins sé farið með þau?
Nú er Bleik brugðið. Margt er skrýtið í kýrhausnum en ekki átti maður von á að einhverjum dytti þetta til hugar.
![]() |
Börnin „lagfærð“ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 2. mars 2008
Mikilvægi landbúnaðar
Landbúnaðurinn er ein aðalæða atvinnuvega okkar, ein grunnstoða okkar. Hann hefur gríðarlegu hlutverki að gegna fyrir þjóðina alla.
Ég horfi björtum augum fram á veginn til þeirra möguleika sem landbúnaðurinn hefur í framtíðinni. Mikilvægi hollra matvæla er sífellt að koma betur og betur í ljós. Ég tel mikla möguleika fyrir framtíðarbændur að leggja mikið upp úr lífrænum, umhverfisvænum búskap. Lítil fjölskyldubú þar sem vel er búið að búfénaði og jafnframt unnið frumkvöðlastarf til framfara er möguleiki sem ég vona að verði algengur. Ég tel það ekki endilega bestu stefnuna að stórbúskapur verði ríkjandi. Við höfum mikla sérstöðu til þess að framleiða hágæða matvæli og það er og verður enn meiri eftirspurn eftir slíku og lítil umhverfisvæn bú eru kjörin til þess þar sem lögð er mikil áhersla á lífræna ræktun.
Það er mikilvægt fyrir ráðamenn þjóðarinnar að styðja vel við bakið á hvers konar búskap, frumkvöðlastarfi og greiða leið þeirra sem velja sér búskap sem atvinnugrein. Það er sorgleg staðreynd að talsvert er af ungu fólki sem hefur menntað sig til starfa í landbúnaði en getur svo ekki haslað sér völl á því sviði vegna mikillar hækkunar á jarðarverði og kvóta. Frístundabyggð hvers konar og uppkaup auðmanna á jörðum hafa átt þátt í því að verð hefur rokið upp úr öllu valdi og orðið ljón í vegi fólks sem vill verða bændur. Frístundabyggð getur átt rétt á sér, vissulega en það er eitthvað athugavert við það að stór landsvæði leggist í eyði og á meðan komist fólk uppfullt af hugsjónum, menntun og metnaði ekki út í sveit nema eiga úr gríðarlegum fjárhæðum að spila eða taka við búi foreldra. Ég tel ábúðarskyldu vera eitthvað sem hér þarf að ræða og bera okkur saman við nágrannalöndin eins og Danmörku til dæmis þar sem slík skylda er.
Landbúnaðurinn er að mínu mati ein sú öflugasta æð sem heldur lífi í landinu öllu. Í hverjum firði þar sem menn byggja bú sín, þar slær hjarta byggðamálanna. Þannig verður til atvinna því með hverri fjölskyldu sem sest að í sveit og haslar sér völl í landbúnaði eykst þörfin fyrir þjónustu sem skapar einhverjum öðrum atvinnu og þannig byggjast upp og haldast m.a. við þéttbýliskjarnar landsbyggðarinnar. Það er því stóráfall fyrir hverja sveit þegar ungt fólk þarf að bregða búi og leggja upp laupana í landbúnaði. Það er líka áfall fyrir þjóðina því næg er eftirspurnin eftir t.d. mjólkinni og við þurfum að standa sterkan vörð um þessar grunnstoðir okkar.
Við þurfum að leggja mikla áherslu á það að lifa af lífsins gæðum og nóg höfum við af þeim hér á landi.
Hinar einu sönnu mjólkurkýr mega ekki gleymast, þær eru óbrigðular. Það geta banka mjólkurkýrnar hins vegar verið...
![]() |
Bændur þinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 1. mars 2008
Tímanna tákn
Þessi umræða er af hinu góða. Það er tímabært að staldra við og velta vöngum yfir því í hvaða fasa stjórnmálin og umræðan eru komin.
Þegar öll orkan er farin að fara í það að skrifa sem snjallasta færslu til þess að ata pólitíska andstæðinga auri á persónulegum nótum þá er tímabært að bregðast við.
Blogg og heimasíður hvers konar eru að breyta formi samfélagsumræðunnar. Menn ganga lengra að mínu mati þegar þeir sitja á bakvið tölvuskjá og jafnvel undir dulnefni. Hefði sú umdeilda færsla sem eflaust hefur orðið kveikjan að þessari umræðu verið flutt í púlti fyrir opnum tjöldum? Ég efast um það.
Það er erfiðast fyrir menn þegar vegið er að kjarna þeirra sem persóna. Ég held að það sé ágætt að velta því fyrir sér hvort maður vildi sjálfur sjá slík skrif um sig eða sína fjölskyldu áður en slíkt er sett fram á veraldarvef.
Annað er að gagnrýna þau verk sem menn vinna en þá er mikilvægt að gagnrýnin eigi rétt á sér og hún sé uppbyggileg. Það þarf að velta því fyrir sér hvaða tilgangi hún skilar.
Ég vona að menn eyði meiri orku í það að horfa fram á við og vinna öll þau fjölmörgu verkefni sem eru óunnin í stað þess að vera sífellt að stinga spjótum í hvern annan og á meðan liggja góðar hugsjónir jafnvel ofan í skúffum. Kjörnir fulltrúar eru kosnir til þess að vinna í umboði kjósenda og vinna að þeim stefnumálum sem sett voru fram. Ekki til þess að vera sífellt í innbyrðis og útbyrðis bardögum. Slíkt skilar engu nema fjölmiðlum og öðrum nægum bitum að smjatta á og ekki eykur það líkur á góðri samvinnu á milli flokka og innan flokka.
![]() |
Vilja kurteisi við andstæðinginn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 29. febrúar 2008
Matvæli og matvöruverð
Ég velti því fyrir mér þegar ég fór að versla um daginn hversu hátt matvöruverð er hérna heima. Ég keypti eina samloku sem kostaði rúmar 600 kr. og brá heldur betur við.
Mér finnst áberandi hversu hátt verðið er orðið og það er mun hærra hér en í Danmörku, að minnsta kosti á mörgum flokkum matvæla.
Svo virðist sem sú lækkun á matvælaskatti sem margir bundu miklar vonir við í fyrra að myndi hafa ómæld áhrif á rekstur heimilanna hafi varað ansi stutt. Þessi lækkun er fokin út í veður og vind. Ég hreinlega trúði því ekki þegar systir mín keypti örfáa hluti í einn poka fyrir 4.500 kr. og las vel yfir strimilinn. Jú, allt hárrétt!
Þetta er málefni sem ég hef áhyggjur af.
Ég held að það þyrfti að skoða skatta á matvæli enn betur og reyna að ná fram endanlegri lækkun. Mér þótti einnig spennandi athugasemd sem kom fram hjá ungri konu sem ég ræddi við í síma fyrir kosningarnar í vor. Hún óskaði þess að meira framboð væri af hollum mat, ávöxtum, grænmeti, hollustuvörum hvers konar og þessir flokkar væru sem minnst skattlagðir. Ef ég miða við Danmörku þá er alveg áberandi hversu mikið er lagt ofan á gos, kex, sælgæti og fleiri flokka af óhollustu. Ég tel að slíkar aðgerðir geti haft mjög góð áhrif á lýðheilsu.
Mér líst vel á frumvarpið sem Siv Friðleifsdóttir, þingmaður okkar, var að leggja fram um trans-fitusýrur í matvælum. Ég er sammála því að það sé upplagt að fara dönsku leiðina og stuðla að því að auka heilbrigði þjóðarinnar sem dregur úr álagi og eykur sparnað í heilbrigðiskerfinu.
Það er mikil vakning almennt um heilsufæði, ánægjulegt að sjá framboð aukast í verslunum og ég tel mikilvægt að fylgja þessari þróun vel eftir.
Sunnudagur, 24. febrúar 2008
Er þetta boðlegt kjósendum og starfsmönnum borgarinnar?
Vilhjálmur ætlar að sitja áfram en gefur það ekki upp hvort hann muni taka við sem borgarstjóri eða það hlutverk falli öðrum fulltrúa í skaut.
Það hefur verið þvílíkt vandræðaástand í borginni. Ástand sem ég held að langflestir séu orðnir langþreyttir á.
Pólitíkin hefur verið dregin niður á lágt plan. Svo lágt að á tímabili þá hefur maður ekki vitað hvort maður ætti að gráta eða hlægja.
En er þetta hægt?
Er hægt að bjóða borgarbúum, starfsmönnum borgarinnar og landsmönnum öllum upp á slíkan langþreyttan sirkús?
Nú held ég að menn verði að fara að lenda með báða fæturna á jörðinni og halda störfum áfram. Á meðan á þessu öllu stendur þá kemur þetta niður á þjónustu þeirri sem borgarbúar eiga og greiða fyrir úr vasa sínum. Það er víst nóg fyrir þá að greiða 18 milljónir í biðlaun vegna þeirra tíðu skipta sem verið hafa þó þetta fari ekki að verða enn lengri vandræðagangur.
Það þarf að sinna skólunum, leikskólunum, skipulagsmálunum, þjónustu við aldrað fólk og margt fleira. Þessir málaflokkar geta ekki beðið og bíða þess ekki bætur ef fullkomin óvissa ríkir um hver beri endanlega ábyrgð á þeim aðeins að ári liðnu.
Ég vona svo sannarlega að undan þessum erfiða vetri komi gott vor og þessi vandræði hafi í för með sér að rækilega verði farið í saumana á því hvernig hægt er að fyrirbyggja að slíkt endurtaki sig nokkurn tíma aftur. Að fólk sé í valdamiklum embættum en það sé ekki einu sinni á hreinu í umboði hvers, að fólk komist í gríðarlegar valdastöður með nánast enga kjósendur á bakvið sig og að fólk viti ekki lengra en ár fram í tímann hver ber ábyrgð á skattfé þeirra sem stritað hefur verið fyrir.
Ég vona að almenningur verði ekki aftur vitni að slíkum hamförum og að lagaramminn verði yfirfarinn og lagaður verulega svo borgarbúar geti treyst sínum fulltrúum sem vinni heiðarlega í umboði þeirra með hag almennings að leiðarljósi.
![]() |
Viðvarandi stjórnarkreppa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |