Fimmtudagur, 7. janúar 2010
Áfram Eva Joly! Þú veitir okkur von...
Mikið megum við Íslendingar vera þakklátir fyrir hana Evu Joly sem er slíkt kjarnakvendi að sjaldan hefur maður séð annað eins.
Hún er ekki búin að gefast upp og hún stendur fast í fæturnar gegn óréttlátri og ósanngjarnri meðferð þeirri sem við íslenska þjóðin höfum fengið í málum okkar af hendi hollenskra og breskra stjórnvalda. Við höfum bara hreinlega verið "bullied" eins og leiðarahöfundur nokkur benti á. Við erum eins og barnið á skólalóðinni sem er upp við vegg, haldið kverkataki og segist borga allan vasapeninginn sinn um ókomna tíð sleppi bullyinn (Bretar og Hollendingar) kverkatakinu á okkur. Það sem barnið á að gera í slíkum aðstæðum er að láta vita af þessari meðferð og alls ekki kaupa sig frá þessu ástandi. Það sama þurfum við að gera og erum að gera þessa dagana til þess að málstaður okkar verði ljós og tekið verði á málunum og þau færð til betri vegar.
Mikið vildi ég óska þess að íslensk stjórnvöld hefðu kjarkinn, kraftinn og duginn sem Eva Joly hefur. Þá værum við sennilega í betri málum og ekki komin með samning í gegnum þingið sem landið getur aldrei staðið undir án alvarlegra afleiðinga.
Það vakti athygli mína í kvöldfréttum Rúv að fjallað var um byggingu nýs háskólasjúkrahúss og kostnaðurinn sem rætt var um væri 33 milljarðar.
Gert er ráð fyrir 66 þúsund fermetra nýbyggingu við Hringbraut og kostnaðurinn verður um 33 milljarðar króna. Þar af er gert ráð fyrir að hönnunarkostnaður verði á fimmta milljarð. (www.ruv.is)
Við gætum sem sagt byggt háskólasjúkrahús og gott betur á hverju ári fyrir þá 45 milljarða sem vextirnir eru áætlaðir á ári af Icesave. Hvað ætli við gætum byggt mörg á þessu tímabili? Amk. 15 ef ekki fleiri ef lánið verður ekki fullgreitt 2024.
Ég tel að því fjármagni sem ríkisstjórnin ætlar að verja í vexti og kostnað af Icesave sé betur borgið annars staðar í samfélaginu og raunin sú að slíkar fjárhæðir er okkur ómögulegt að greiða í okkar litla hagkerfi. Það er að mínu mati deginum ljósara. Myndum við greiða lánið með þessum vondu skilmálum er raunveruleg hætta á því að innviðir samfélagsins tærist upp á meðan þar sem þeir verði í svelti. Ekki er heldur forsvaranlegt að taka þetta á einhvers konar kúluláni inn í framtíðina sem lendir svo á afkomendum okkar. Nógar skuldbindingar eru nú samt sem liggja á okkur sem þjóð. Það er nógu flókið verkefni að afgreiða það og geta um leið haldið hér góðu samfélagi gangandi og afhent komandi kynslóðum þjóðfélag sem mögulegt er að reka.
Skv. Evu Joly eru nú þegar 8000 manns farnir af landi brott. Við megum ekki við því að missa fleiri og verðum því að öðlast von um að hægt sé að losa um kverkatakið á okkur og takast á við yfirgangssegginn sem ætlar sér að kúga okkur í skuldaþrælkun.
Þá fyrst getum við hafið endurreisn þess einstaka samfélags sem hér er að finna.
Pistill á Eyjunni sem sýnir að menn erlendis eru farnir að átta sig á málinu:
Joly harðorð í garð Hollendinga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.1.2010 kl. 00:37 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.