Samstaða og samvinna

Nú er árið 2010 gengið í garð og það hófst með upplýstum, reykmettuðum himni og sprengingum að venju. Kannski má segja að það sem gerðist fimm dögum síðar hafi líka falið í sér mikinn hvell og reykský.

Við Íslendingar höfum gengið í gegnum ótrúlegar raunir síðastliðið eitt og hálft ár. Hver hefði trúað því að svo miklar grundvallarbreytingar gætu orðið á svona skömmum tíma. Hver hefði getað trúað því að svo miklar sviptingar gætu átt sér stað. Manni finnst stundum eins og tíu ár séu liðin frá því að 6. október 2008 hinn alræmdi rann upp og bólan sprakk. Frá því höfum við oftar en nokkur vill þurft að horfa upp á óvissudaga þar sem líf ríkisstjórnar hangir á bláþræði, óvissa ríkir og óttinn grípur í stýrið. Hlutir sem áður þóttu merkilegir eins og stjórnarskipti fara að verða óþægilega algeng og ekki er það til góðs.

Það skiptir miklu máli fyrir farsæld fólks og farsæld samfélaga að traust, öryggi og stöðugleiki ríki. Allt þetta hefur okkur vantað undanfarið.

Ég held að núna séum við komin að krossgötum. Mín trú er sú að núna komumst við ekki lengra á þeirri vegferð sem verið hefur og róttækar breytingar verði. Ég held að við þurfum að endurskoða margt í okkar samfélagslegu skipan. Það er til dæmis merki um að stjórnkerfið valdi ekki lengur hlutverki sínu þegar forseti landsins segir vera meirihluta fyrir máli sem Alþingi hefur fellt í atkvæðagreiðslu og ber við því rökum um að vissir þingmenn hafi haft samband við sig. Slíkt getur ekki talist eðlilegt og lýsir þeim ógöngum sem þingið og stjórnkerfið eru í. Afgreiðsla löggjafans hlýtur að eiga að teljast gild og það hvernig þingmaður eyðir atkvæði sínu ætti að vera í samræmi við hans innstu sannfæringu. Mögulega gæti skýringin verið sú að einhverjir þingmenn hafi viljað að þingið afgreiddi Icesave og hafi því ekki viljað vísa því beint í þjóðaratkvæði þrátt fyrir að vera hallir undir slíkt fyrst þingið samþykkti lögin. En var það ekki vitað að þetta færi í gegn? Þegar forseti landsins og ríkisstjórn ganga ekki lengur í takt á slíkum tímum er ekki von á góðu. Slíkt hefur svo sem áður þekkst en við þær aðstæður sem nú eru uppi er það afar óheppilegt að margir skipstjórar séu á þjóðarskútunni sem vilji sigla henni sitt í hvora áttina. Það leiðir einungis til þess að hún kemst hvorki lönd né strönd.

Icesave er leiðindamál sem verður ekki umflúið. Sama hvaða leið verður farin og reynd þá er engin töfralausn til á slíku máli. Eðlilega eru skiptar skoðanir um svo stórt mál. Sennilega hafa flestir þeir sem sterka skoðun hafa gild rök fyrir sinni niðurstöðu. Við sjáum bara hlutina ekki öll frá sama vinkli og rök okkar eru misjöfn. Ég tel að málið hafi frá fyrsta degi verið í röngum farvegi og svo undið upp á sig. Strax og málið kom upp hefði þurft að manna þverpólitíska nefnd sem einnig væri skipuð færustu innlendum og erlendum sérfræðingum sem semja myndu fyrir hönd Íslands. Icesave er ekkert smáklink sem er bara afgreitt yfir en kop kaffe. Um er að ræða 8 milljóna skuld fyrir hverja einustu fjölskyldu í landinu, 100 milljónir í vexti á dag þar til skuldin er greidd (miðað við síðustu samninga). 300 milljarða ábyrgð á 300 þúsund manns jafngildir 61.000 milljóna (61 trilljón) á 61 milljón Breta. Við slíkar tölur er ekki að undra að vanda þurfi til verka og skilmálarnir að vera í lagi. Áhugaverð grein í dag þar sem vísað er í skrif Jóns Daníelssonar í breska blaðið Independent. Þar segir m.a:

Þá segir Jón að þótt upphæðin, sem Íslendingar ætli að endurgreiða, jafnvirði um 700 milljarða króna, virðist ekki há í augum Breta. En á Íslandi búi aðeins rúmlega 300 þúsund manns og upphæðin svari því til um 40 þúsund punda á fjölskyldu, jafnvirði 8 milljóna króna. Þá svari hún til þess að Bretar greiði yfir 40 milljarða punda á ári, um helming þeirrar fjárhæðar sem þarf til að reka breska heilbrigðiskerfið.  

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/01/06/islendingar_telja_lanakjorin_ovidunandi/

Ég tel að sem þjóð getum við ekki staðið við þann samning sem var samþykktur milli jóla og nýárs. Með 320% skuldir af vergri landsframleiðslu erum við komin langt umfram þau 240% sem miðað er við að geri þjóðir gjaldþrota. Að fara með óútfylltan tékka á hálfgerðu kúluláni inn í framtíðina fyrir þjóðina og komandi kynslóðir er ekki til farsældar fallið. Það að hafa ekki þá fyrirvara sem allir flokkar sömdu um í sumar í góðri sátt er það sem ég tel hafa fellt málið. Það er ekki hægt að fallast á það að við séum að fá 5.5% vexti þegar aðrir eru að fá 1.5%. Að eiga ekki möguleika á því að fara með málið fyrir dómstóla komi í ljós að okkur beri ekki lagaleg skylda til að greiða þetta (það liggur ekki fyrir í dag), að þetta sé ekki tengt 6% hagvexti og eigi að greiða þar til allt er uppgreitt (ekki bara til 2024) er baggi sem við getum ekki tekið með inn í framtíðina. Ég tel það afar varhugavert að ætla sér að fresta þessu á þann hátt sem gera átti og taka afleiðingunum síðar. Þrátt fyrir að við séum ekki vinsæl núna (m.a. vegna rangs fréttaflutnings um það að við ætlum ekkert að borga) þá er vænlegra að standa í lappirnar núna, sýna kjark og standa vörð um þjóðina og komandi kynslóðir. Erlendir dálkahöfundar virðast geta skilið þessa afstöðu:

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/01/06/kurteis_og_hofstillt_motmaeli/?ref=fpmestlesid

Það sem þessi grein endar á er sorglegt og lýsir stöðunni hér því miður. Innbyrðis erum við sjálfum okkur verst. Við eigum í harkalegum deilum vegna ólíkra sjónarmiða okkar á vandann. Til þess að geta leyst þessa deilu og veitt okkur sjálfum von inn í framtíðina held ég að fyrsta skrefið sé það að við þurfum að sættast, standa saman og vinna saman. Það hafa Íslendingar gert frá upphafi ef hætta hefur steðjað að. Sameinuð börðumst við fyrir landhelgi okkar og sameinuð börðumst við fyrir sjálfstæði okkar frá Dönum. Sameinuð getum við líka barist fyrir því að fá samning sem mögulegt er fyrir okkur og komandi kynslóðir að standa undir. Við skulum því sigla skútunni saman gegn brotsjónum í átt að lygnari sjó í stað þess að slást uppi á dekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Góð færsla frænka mín. Vonandi fáum við að sjá meiri samvinnu í stjórnmálunum en nú er.

Kveðja á þrettándanum.

Silla.

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 6.1.2010 kl. 18:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband