Mánudagur, 11. janúar 2010
Fyrst birt: 23.10.2008 17:11
Síðast uppfært: 23.10.2008 19:10
Uppreisn, verði kröfur samþykktar
Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri grænna, segir að það verði gerð uppreisn hér á landi verði gengið að kröfum Breta og Hollendinga um að Íslendingar greiði 600 milljarða króna vegna Icesave-reikninganna.
Pétur Blöndal sagði í hádeginu í dag að einungs fjárkröfur Breta og Hollendinga væru margfalt hærri en þær stríðsskaðabætur sem Þjóðverjar voru neyddir til að greiða í lok fyrri heimsstyrjaldarinnar. Grófir útreikningar bendi til þess að þær hafi numið um einni milljón króna á hvern Þjóðverja. Þær lögðust þungt á þýskt efnahagslíf, verðbólgan magnaðist og atvinnuleysir jókst gríðarlega.
Steingrímur segir, eins og Pétur, að Íslendingar eigi að spyrna gegn kröfum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem gera ráð fyrir að gjaldeyrislán sé háð því að samið verði við Breta. Íslendingar hafi uppfyllt allar lagalegar skyldur og tilskipanir Evrópusambandsins um innlánstryggingarkerfi. Íslendingar eigi ekki að láta undan kröfum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins því þeim beri ekki skylda að greiða tapið vegna Icesave-reikninganna.
http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item233100/
Hvernig stendur á þessum viðsnúningi? Hvað hefur breyst? Hvað varð um þennan ágæta mann sem stóð þarna með þjóð sinni? Steingrímur hefur staðið sig að mörgu leyti alveg gífurlega vel og ég er ekki viss um að margir stæðu enn í fæturnar eftir að vera í hans hlutverki. Hins vegar er viðsnúningur hans sorglegur í þessu máli og manni finnst eins og hann hafi glatað hugrekkinu sem við Íslendingar þurfum á að halda núna. Er hann enn sama sinnis að skuldin sem hann vill að við greiðum muni valda uppreisn verði hún lögð á okkur?
Við eigum ekki að láta frekar stórþjóðir sem eru að hugsa um sína hagsmuni vaða yfir okkur og þetta mál getur ekki snúist um sjálfsmynd íslenskra stjórnvalda og einstakra ráðherra. Ef við eigum betri möguleika en áður hefur komið fram þá á að taka því fagnandi og kanna til hlítar. Myndi ekki stjórnmálamaður sem tekur hagsmuni þjóðarinnar fram yfir sína eigin persónulega sjálfsmynd gera það? Er ekki líka bara í lagi að menn geri mistök því ég tel að allir hafi byggt sínar ákvarðanir eða flestir amk. á vel ígrundaðri rökhugsun á sínum tíma og komist að mismunandi niðurstöðu. Einhverjir munu þó hafa haft rangt fyrir sér og aðeins tíminn getur leitt það í ljós. Það er í rauninni ekki aðalmálið, það sem skiptir máli er að við sem þjóð förum sem best út úr þessu ósanngjarna máli og hagsmunir okkar og komandi kynslóða tryggðir. Er ekki eðlilegt að stjórnmálamenn okkar berjist fyrir því? Eiga þeir að gæta einhverra annarra hagsmuna?
Er það sanngjarnt að við 317 þúsund manns séum látin greiða skaðabætur fyrir offors gráðugra bankamanna í einkabanka sem eru miklu hærri en stríðsskaðabætur þær sem Þjóðverjar voru látnir greiða fyrir að bera ábyrgð á dauða milljóna manna? Berum við ábyrgðina á gölluðu regluverki frá Evrópu? Er ekki ástæða til þess að óháðir dómstólar skeri úr um það mikla vafamál hvort okkur beri lagaleg skylda til þess að greiða þetta tap eða hvort Bretar og Hollendingar séu einnig skaðabótaskyldir? Séum við ábyrg þá eigum við að standa við okkar skuldbindingar en við verðum að gera samninga sem eru raunhæfir og tryggi það að hér geti áfram þrifist eðlilegt samfélag.
Ég sé það ekki gerast með vöxtum á ári sem eru hærri en það kostar okkur að byggja heilt háskólasjúkrahús. Vextirnir af Icesave samningi Vg og Samfó eru 100 milljónir á dag - 40 milljarðar á ári en bygging sjúkrahússins er áætluð 33 milljarðar. Fyrir vextina á dag má reka tvö sambýli. Þetta eigi svo að leggjast ofan á aðrar þungar byrðar þjóðarbúsins sem eru ekki auðkleifar þessa dagana og næstu ár. Er hægt að leggja umdeilanlegar skuldir á þjóðina sem veldur því að skuldastaðan er orðin 320% af vergri landsframleiðslu þegar við 240% er miðað við greiðslufall þjóðar? Ég segi nei.
Varaformaður fjárlaganefndar Björn Valur Gíslason telur þetta ekki sliga komandi kynslóðir en ég er honum algjörlega ósammála. Hann og sumir stjórnarliðar eins og Ólína Þorvarðardóttir virðast keppast við það að slá út af borðinu mikilvægar upplýsingar sem komu fram í Silfri Egils í gær og gera fólkið þar sem talaði máli Íslendinga tortryggilegt. Ástæðu þess get ég hreinlega ekki skilið! Undarlegt að berjast ekki til síðasta blóðdropa fyrir þjóð sína í svo mikilvægu máli á meðan enn er von og skapa von. 10 ára barn virðist sjá ósanngirnina og ástæðuna fyrir því að berjast fyrir þessu máli en ekki stjórnarliðar og það get ég heldur ekki skilið. Er einhver leynisamningur undir borðinu sem aðeins þau vita um? Tengist það ESB aðild þá efa ég að sá samningur hjálpi til þar sem stór huti þjóðarinnar er andsnúinn aðild.
Athugasemdir
Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 11.1.2010 kl. 15:25
Maðurinn sem Ísland þarf á að halda - fundinn. Alþjóðlegur sérfræðingur í skuldaskilum ríkja, tjáir sig um vanda Íslands, og er harðorður!
Ég er að tala um frábæra grein, Prófessors Sweder van Wijnbergen, við háskólann við Amsterdam, í NRC Handelsblad. Sá maður er einmitt, sérfræðingur í skuldaskilum ríkja. "Sweder van Wijnbergen - worked for 13 years at the World Bank, and was lead economist for Mexico and Central America during the negotiations on Mexican debt."
Svo þessi maður, veit allt sem vita þarf, um afleiðingar skuldakreppu! Hann þekkir þessi mál út og inn, fyrst hann var starfandi hjá Heimsbankanum, einmitt á þeim árum, er mörg lönd í 3. heiminum, gengu í gegnum fræga skuldakreppu
Sjá grein: Iceland needs international debt management
Þetta er að mínum dómi, merkilegasti einstaklingurinn sem tjáð sig hefur opinberlega um málið, og fullyrðing hans "A debt of three or four times GDP cannot be repaid, and therefore will not be repaid" - skal skoðast sem hreinn sannleikur máls, fyrst það kemur frá honum.
Prófill Sweder van Wijnbergen
Fáum þennann mann til landsins!!!
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 14.1.2010 kl. 12:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.