Full stolti og þakklæti fyrir björgunarsveitirnar okkar

Við slíkar aðstæður sem nú ríkja fyllist maður stolti og þakklæti. Ég er stolt af því að vera Íslendingur og eiga þátt í því að senda fyrstu björgunarsveitina á staðinn. Sérhæfða og hæfa sveit sem vafalaust mun gegna viðamiklu hlutverki við björgunarstarfið og hefur nú þegar haft áhrif og bjargað 3 mannslífum.

Ég er einnig ánægð með það átak sem almenningur fór í fyrir áramótin að hvetja sérstaklega til þess að fólk verslaði flugelda sína við björgunarsveitirnar og hunsaði markvisst þá sem farið hafa inn á þennan markað í gróðatilgangi. Jafnvel með því að undirbjóða verð hjá björgunarsveitunum. Nú þakkar maður fyrir þær krónur sem fóru í að kaupa flugelda af björgunarsveit, litlu björgunarsveitakonuna á lyklakippunni og eiga þátt sinn í því að mögulegt er fyrir okkur að halda úti jafn ómetanlegu starfi og allar björgunarsveitir landsins vinna að nóttu sem degi, hvaða dag ársins sem er. Vinna þau þrekvirki sem m.a. íslenska rústabjörgunarsveitin er að vinna þessa stundina. Hvet alla til þess að hringja í 904-1500 í söfnunarsíma Rauða krossins til þess að leggja þessu verkefni Landsbjargar lið. (Villandi orðalag leiðrétt eftir ábendingu). Ef hvert okkar gefur 1500 kr. safnast saman góð upphæð til að styðja við þetta erfiða starf.

Það er einmitt einn besti styrkleiki íslensku þjóðarinnar að standa vel saman þegar virkilega reynir á. Þegar hamfarir verða höfum við ætíð staðið þétt saman og stutt við þá sem eiga um sárt að binda með rækilegum og fumlausum hætti. Ég er sannfærð um að ef hið efnahagslega hrun sem varð hér hefði verið af völdum efnahagslegs jarðskjálfa en ekki mannavöldum hefðu viðbrögð okkar allra orðið talsvert önnur. Þannig er það bara og kannski eðlilegt.

En við að fylgjast með fréttum af þeim gríðarlegu hörmungum sem eiga sér stað á Haití þá verður maður hljóður, hryggur og finnur til með þeim sem hafa upplifað það að erfiðar aðstæður urðu óbærilegar við það að heimurinn fór á hliðina. Nú ríður á að bjargað verði þeim mannslífum sem bjargað verður og hjálparstarf verði öflugt núna en ekki síður til langframa til þess að byggja upp að nýju.

Vandamál okkar Íslendinga fölna í samanburði við það sem þessi þjóð þarf nú að takast á við. Okkar efnahagslegi veruleiki hrundi en þegar upp er staðið er svo ótal margt annað sem skiptir margfalt meira máli en peningar. En vissulega hefur okkar hrun haft mjög slæm áhrif og ógnað efnahagslegri tilveru margra. Enn eigum við hvert annað, grunnstoðir samfélagsins, nóg af húsum til að búa í, hreint vatn, erum sjálfbær um matvæli, orkuauðlindir og svona má telja áfram. Fyrir það skulum við vera þakklát. Úr efnahagslegum ógöngum okkar munum við finna leið og öðlast um leið dýrmæta reynslu.

Margt það sem Haití íbúar hafa misst verður aldrei bætt þrátt fyrir alla heimsins peninga.


mbl.is „Vonleysi í augum íbúa“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ibba Sig.

Björgunarsveitirnar eru ekki verkefni Rauða krossins heldur Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Ibba Sig., 14.1.2010 kl. 21:01

2 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heil og sæl Kristbjörg, þetta er góður pistill hjá þér sem ég tek heilshugar undir. Við getum verið stollt af þessu fólki sem er tilbúið að fara til hjálpar þeim sem eiga um sárt að binda.

kv

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 14.1.2010 kl. 21:13

3 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Segi það með þér. Frábært fólk.

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 14.1.2010 kl. 22:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband