Laugardagur, 6. mars 2010
Kjósa
Í dag er merkisdagur. Það að nú fari fram fyrsta þjóðaratkvæðagreiðsla lýðveldistímans er merkilegt útaf fyrir sig. Því til viðbótar hefur hún ákaflega mikið og margvíslegt gildi. Áhrifin á lýðræðisþróun gætu orðið mikil. Ef atkvæðagreiðslan heppnast vel gæti hún markað upphafið að auknu beinu lýðræði og þeim lýðræðisumbótum sem svo margir hafa vonast eftir.
Að verja eigin hagsmuni og annarra
Með þjóðaratkvæðagreiðslunni gefst almenningi tækifæri til að verja hagsmuni sína í krafti lýðræðis og jafnvel verða fyrirmynd annarra þjóða í þeim efnum. Þegar er ljóst að Icesave-málinu getur lokið með mun hagstæðari hætti en felst í lögunum sem nú verður kosið um. Gömlu lögin halda hins vegar gildi sínu nema þjóðin felli þau í atkvæðagreiðslunni. Þeim mun afdráttarlausari sem niðurstaðan og samtakamátturinn verða, þeim mun betri verður samningsstaða okkar. Málið varðar gríðarlega hagsmuni fyrir hvert einasta heimili í landinu. Það er mikilvægt að sem flestir leggi sitt lóð á vogarskálarnar til að eiga þátt í ávinningnum. Þeir sem síðar munu gagnrýna kjör sín eða annarra geta auk þess betur gert það hafi þeir lagt sitt af mörkum til að bæta þau kjör þegar þeir höfðu tækifæri til.
Að kynna málstaðinn
Með atkvæðagreiðslunni gefst einstakt tækifæri til að kynna málstað Íslands í útlöndum. Það er ómetanlegt að slíkur möguleiki skuli gefast aftur eftir að fyrri tækifærum var klúðrað. Það er því skelfilegt að heyra ráðherra ríkisstjórnarinnar gera lítið úr þjóðaratkvæðagreiðslunni og málstað Íslands í viðtölum við erlenda fjölmiðla.
Að skapa samstöðu
Loks liggur mikilvægi þjóðaratkvæðagreiðslunnar ekki hvað síst í því að hún skapar tækifæri til að ná samstöðu meðal þjóðarinnar. Synjun forsetans gaf stjórnmálaflokkum á Alþingi tækifæri til að mynda samstöðu um málið.
Stjórnarflokkarnir voru reyndar á öðru máli til að byrja með en komust svo ekki hjá því að leita samstarfs. Í þessu máli eins og öðrum mikilvægum hagsmunamálum þjóðarinnar næst ekki árangur nema með samstöðu.
Þjóðaratkvæðagreiðslan gefur þjóðinni allri tækifæri til að birtast sem öflug heild útávið.
Það er í senn furðulegt og dapurlegt að forsætisráðherra skuli hafa lýst því yfir að hann ætli að sitja heima í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þegar forsætisráðherra og aðrir þingmenn Samfylkingarinnar koma fram með slíkum hætti er eðlilegt að einhverjir velti því fyrir sér hvort málið snúist raunverulega um að verja hagsmuni þjóðarinnar. Þá er mikilvægt að líta til sögunnar.
Ekkert nýtt
Þótt menn telji nú flestir að í landhelgisdeilunum hafi allir staðið saman um að verja þjóðarhagsmuni var það ekki alltaf svo. Þegar Framsóknarflokkurinn hóf útfærslu landhelginnar með stuðningi sósíalista hótaði þriðji ríkisstjórnarflokkurinn, Alþýðuflokkurinn, margsinnis að slíta stjórnarsamstarfinu. Kratarnir vildu ekki ögra „alþjóðasamfélaginu", töldu að deilurnar gætu stefnt viðskiptum og lánskjörum í hættu o.s.frv. Hefði sú afstaða ráðið för væru breskir togarar hugsanlega enn í íslenskum fjörðum.
1943 og nú
En hvað með síðustu þjóðaratkvæðagreiðslu, atkvæðagreiðsluna um stofnun lýðveldis? Þar hljóta Íslendingar að hafa staðið saman allir sem einn og kratarnir líka? Aldeilis ekki. Ekki framanaf. Jafnvel í því máli höfðu leiðtogar Alþýðuflokksins fyrst og fremst áhyggjur af áliti erlendra embættismanna . Þeir töldu ekkert liggja á stofnun lýðveldis þótt dagsetningin hefði í raun verið ákveðin 25 árum áður.
Á 25 ára afmæli fullveldisins, 1.desember 1943, ákváðu allir flokkar nema Alþýðuflokkur að stofna lýðveldi á Íslandi eigi síðar en 17.júní 1944 að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Daginn eftir birti Tíminn forsíðufrétt undir fyrirsögninni ,,Lausn lýðveldismálsins ákveðin - Samkomulag Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokksins".
Í greininni birtist m.a. eftirfarandi klausa sem á furðu vel við í nýju
samhengi:
,, Af hálfu Framsóknarflokksins hefir jafnan verið lögð á það rík áherzla, að reynt yrði að ná sem víðtækustu samkomulagi um þetta mál. Að hans ráði var frestað að taka þessa endanlegu ákvörðun um lausn lýðveldismálsins, unz Alþýðuflokkurinn hefði haldið flokksþing sitt og var það gert í trausti þess, að þeir, sem vildu samheldni þjóðarinnar um þetta mál, yrðu þar í meirahluta.
Þær vonir rættust ekki að þessu sinni, en eigi verður því þó trúað, að óreyndu, að Alþýðuflokkurinn eða aðrir aðilar geri þann óvinafagnað, að taka upp baráttu gegn þessari lausn málsins, því að hún myndi ekki skilin, nema á einn veg erlendis og gæti orðið þjóðinni til stórrar óþurftar."
Þrátt fyrir tregðu Alþýðuflokksins framanaf fylgdi hann að mestu með á endanum (örfáir þrjóskir kratar sátu heima) og almenningur sýndi afstöðu sína með svo afgerandi hætti að þess finnast fá dæmi í sögunni. 99,5% samþykktu að fella Sambandslögin við Danmörku úr gildi og 98,5% samþykktu nýja stjórnarskrá.
Samstaða er ekki sjálfgefin og það getur þurft að berjast fyrir henni. En þegar henni er náð eru Íslendingum allir vegir færir. Með því að fella Icesave-lögin með afgerandi hætti í dag getur þjóðin náð þeirri samstöðu sem hún þarf á að halda, nú sem fyrr.
http://www.framsokn.is/Flokkurinn/Fyrir_fjolmidla/Frettir/?b=1,5085,news_view.html í dag.
Að kjósa eða ekki kjósa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.