Föstudagur, 21. maí 2010
Veist þú hvað gerist 1. janúar 2011?
Nýtt tækifæri en einnig áskorun
Verkefnið felur í sér nýjar áskoranir og vissa ógn. Það augljósasta er skortur á nægu fjármagni. Jöfnunaraðgerðir til að koma til móts við misstöndug sveitarfélög eru grunnur þess að reikningsdæmið gangi upp. Það þarf að tryggja raunverulegt búsetufrelsi þeirra einstaklinga sem nota þessa þjónustu þannig að fólk eigi hvarvetna trygga skilgreinda grunnþjónustu, hvar sem það vill búa. Í raun á þessi þjónusta við fatlað fólk ekki að vera á neinn hátt öðruvísi en til dæmis þjónusta skólakerfisins þar sem börn geta gengið að því vísu hvar sem þau búa á landinu að kennt sé eftir ákveðinni námsskrá. Einnig þarf að tryggja eftirlit með þjónustunni af öðrum en þeim sem veitir hana og ber ábyrgð á henni. Að auki þarf að gæta þess að sá mannauður sem hefur vaxið í þessum málaflokki og sú þekking sem orðið hefur til glatist ekki eða rýrist. Að lokum er mikilvægt að starfsfólk sveitarfélaganna eigi kost á endurmenntun til að setja sig inn í málin.
Samvinna allra er nauðsynleg
Til þess að vel takist til er ljóst að allir aðilar þurfa að vera í sama bátnum og róa í sömu átt. Notendur, aðstandendur, hagsmunasamtök, starfsfólk, embættismenn, stjórnmálamenn, fræðafólk og aðrir þurfa að koma að verkefninu í samstarfi. Með samvinnu þessara ólíku hópa mun verkefnið verða öllum til heilla og hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Skýr endurskoðunarákvæði þurfa að vera í samningum bæði hvað varðar tekjustofninn en ekki síður þarf að þróa og endurskoða hugmyndafræðina. Fundir til skrafs og ráðagerða eru mikilvægir til að fá fram ólík sjónarmið og skiptast á upplýsingum.
Fundur með Þroskahjálp
Þann 8. apríl s.l. áttum við góðan fund með Gerði A. Árnadóttur og Friðriki Sigurðssyni hjá Þroskahjálp þar sem þau kynntu áhugasömu flokksfólki og frambjóðendum okkar nýsamþykkta aðgerðaráætlun samtakanna varðandi yfirfærsluna. Góðar umræður sköpuðust á fundinum og skapaðist þar andrúmsloft samvinnu og jákvæðni sem ég vona að verði áberandi við þetta mikilvæga verkefni.
Kristbjörg Þórisdóttir, Cand.psych nemi, varaformaður Landssambands Framsóknarkvenna og frambjóðandi í 12.sæti listans
(birt í Mosfellsfréttum 25.4.2010)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:23 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.