Glæsilegur fulltrúi ungs framsóknarfólks

snk

Sigurjón Norberg kjærnested er glæsilegur nýkjörinn formaður ungs framsóknarfólks. Ég studdi hann í framboðinu og er ánægð að hafa veðjað á réttan hest. Hann staðfesti það endanlega í framboðsræðu sinni sem var með þeim betri sem ég hef heyrt.

Hvert stefnum við og hvað viljum við sem störfum í pólitík?

Viljum við gamaldags pólitík eða nútímapólitík?

Ég skilgreini gamaldags pólitík sem þá pólitík þar sem einn foringi (eða menn á bakvið viðkomandi) ræður för allrar hjarðarinnar og foringinn á að stýra sínu fólki. Lýðræðið er virt að vettugi en í stað þess á að semja um málin í lokuðum herbergjum. Pólitík þar sem allt er gert til þess að öðlast og viðhalda völdum, sama hvað það kostar. Pólitík þar sem ekki er farið eftir hæfni einstaklingsins heldur eftir því hver viðkomandi er og hverjum hann tilheyrir. Pólitík þar sem peningar ráða för og reynt er að kaupa sér völd með peningum eða greiðum. Pólitík þar sem staðið er vörð um hagsmuni útvaldra hagsmunaaðila en heildin látin líða fyrir.

Nútíma pólitík er pólitík þar sem fólk velur sér þann leiðtoga sem það treystir best til þess að koma fram sem fulltrúi hópsins, vera rödd hans og andlit út á við. Þrátt fyrir það tekur hver og einn einstaklingur ákvarðanir út frá sinni sannfæringu hverju sinni meðal annars um málefni og val á fólki. Pólitík þar sem málefnin eru það mikilvægasta. Leitað er allra leiða til þess að finna lausnir á þeim málum sem staðið er frammi fyrir hverju sinni og tekist á um málin í rökræðu án þess að fara í persónulegar skotgrafir. Pólitík þar sem skýrar leikreglur gilda og formfesta og stóra heildarmyndin er tekin fram fyrir persónulega sigra hvers og eins. Pólitík þar sem þjóðin fær að kveða upp úr í málum sem snerta grundvallaratriði lands og þjóðar. Pólitík þar sem hagsmunir heildarinnar eru ávallt hafðir að leiðarljósi.

Það er ekkert svart og hvítt í þessum heimi. Ekki heldur pólitíkin. Flestir stunda einhvern tímann gamaldags pólitík og stundum nútímapólitík. Oft sér maður ekki þegar maður sjálfur fer út af sporinu og þá þarf að benda fólki á það. Vandamálið er þau tilfelli þar sem fólk situr fast í þeirri pólitík sem almenningur er búinn að fá sig fullsaddan af og hefur meðal annars valdið því að þjóðin treystir ekki þinginu eða stjórnmálamönnum. Þrátt fyrir að ég tali um gamaldags- og nútímapólitík er ég viss um að stjórnmálamenn fyrri tíma hafi oft stundað nútímapólitík. Þetta byggir á hverjum og einum einstaklingi sjálfum og þeirri menningu sem er ríkjandi hverju sinni. Einstaklingar geta farið gegn ríkjandi menningu og menningin getur að sama skapi haft áhrif á hverja manneskju.

Ég tel Sigurjón vera tákn um þá nýju tíma sem ég vil sjá í Framsókn. Hann er einstaklingur sem hefur hugsjónir, fylgir þeim eftir og vill vinna að því að bæta samfélagið sitt. Hann er svo sannarlega framtíðarstjórnmálamaður sem gaman verður að vinna með og fylgjast með.

Áfram Framsókn til nýrra tíma :)


mbl.is Nýr formaður SUF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

þetta hljómar allt ægilega vel. Ef þessi drengur er þessum kostum gæddur sem þú nefnir hér að ofan. Þá vonandi tekur hann við af núverandi formanni ykkar sem er það ekki;)

kv.Linda

Linda (IP-tala skráð) 27.9.2010 kl. 19:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband