Mánudagur, 4. október 2010
Dynjandi hjartsláttur þjóðarinnar og neyðarkall
Var að koma heim af Austurvelli.
Hinn taktfasti sláttur mun seint þagna. Að minnsta kosti úr minningunni.
Táknrænn fyrir hjartslátt þjóðarinnar. Samstaðan er eldsneyti lýðræðisins. Bálið táknrænt fyrir það afl sem samstaðan getur leyst úr læðingi.
Á Austurvelli var ekki samankominn "skríll". Þarna var ég og þarna varst kannski þú. Afar, ömmur, börn, systur, kennarar, verkamenn, atvinnulaust fólk, fólk sem búið er að missa húsnæði sitt, lögreglumenn, menntaskólanemendur og fleiri og fleiri. Hópur af venjulegum Íslendingum sem vill búa í góðu samfélagi og er búið að fá nóg af gagnslausum skrípaleik og því hörmulega óréttlæti sem ríkir.
Hversu lengi á fólk að bíða? Bíða eftir lausn sem kannski aldrei kemur? Ég sá nokkra þarna sem gengu um með flautur og blésu í þær og við það dró hugurinn mig inn í myndina um Titanic þar sem drukknandi fólkið blés af öllu afli í flauturnar eftir að skipið var sokkið en yfirstéttin sem hafði vannýtt björgunarbátana og hirt þá alla undir sjálfa sig sat undir stjörnubjörtum himninum í pelsunum sínum og neitaði að snúa við af ótta við að drukkna sjálf. Í stað þess sátu þau í bátunum sínum horfðu á og hlustuðu á flauturnar og hljóðin sem smám saman dofnuðu og hljóðnuðu eftir því sem fólkið drukknaði. Það var aðeins einn björgunarbátur sem sneri við.
Það var óþægilegt að heyra þessar flautur á Austurvelli og hugsa til þess að kannski heyra stjórnvöld ekki neyðarköllin. Kannski er fólk svo upptekið af eigin hag að það snýr ekki björgunarbátunum við. Kannski er þessu ekki svo ólíkt farið hér. Hinir valdamiklu, hinir fjársterku þeir eru of uppteknir við það að koma sér í björgunarbáta til þess að sjá alla hina sem eru að drukkna.
Það er eiginlega ömurlegt að hugsa um það og ég fæ sting í hjartað.
Stjórnmálakreppa í landinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæl Kristbjörg.
Þú tekur ljóðrænt til orða og metur það eflaust svo að þannig beri að nálgast þann veruleika sem við þér blasir. Það var sitthvað sem olli því að svona margir ákváðu að koma á Austurvöll í kvöld. Eitt af því voru fréttirnar af fyrrum leiðtoga og formanni flokksins þíns og hvernig fyrirtæki sem honum tengist fékk niðurfellingu á miklum fjármunum.
Hvort þetta er rétt með farið hjá fjölmiðlum skiptir ekki máli. Það trúa allir öllu upp á mann sem gerði þjóðina samábyrga fyrir blóðbaðinu í Írak.- Og nú leggur þú nafn þitt við þessa ríku hefð framsóknarflokksins að setja flokkspólitíkina og hollustuna ofar öllu öðru.
Á því er ég hissa því það er hinn sanni skrípaleikur.
Svanur Gísli Þorkelsson, 5.10.2010 kl. 00:01
Vel gert! Höldum áfram að láta í okkur heyra, höldum þeim við efnið, við erum mörg og raddir okkar mega ekki þagna!
Linda, 5.10.2010 kl. 00:03
Sæl verið þið ef þetta dugar ekki þá er okkur vandi á höndum!
Sigurður Haraldsson, 5.10.2010 kl. 00:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.