Hagsmunaskráning stjórnlagaþingmanna - grein birt í Morgunblaðinu í dag

(þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag)

Hún fjallar um annað atriði sem huga þyrfti að til þess að stjórnlagaþing og þingmenn þess komi til með að njóta þess trausts sem nauðsynlegt er. Við þurfum aðgerðir til þess að ná fram því gagnsæi sem flestir kalla eftir að sama skapi og ákveðnar aðgerðir þurfa að tryggja sjálfsagðan rétt allra til þess að njóta jafnræðis við kosninguna sjálfa.

 

Kristbjörg Þórisdóttir, www.kristbjorg.wordpress.com


Í aðdraganda kosninga til stjórnlagaþings skrifaði ég opið bréf til Dómsmálaráðuneytis þar sem ég kallaði eftir því að frambjóðendum til stjórnlagaþings yrði gert skylt að upplýsa um hagsmunatengsl sín með því að fylla út hagsmunaskráningu. Ég taldi mjög mikilvægt að þetta mál kæmist í umræðuna og reyndi að fá fjölmiðla til liðs við mig án mikils árangurs.

 

Hagsmunaskráning þingmanna

Það er ekki flókið mál að notast við þá hagsmunaskráningu sem flestir Alþingismenn nota í dag. Þeir fylla út ákveðinn fyrirfram mótaðan 12 atriða  lista. Hægt hefði verið að senda listann með tölvupósti á frambjóðendur, láta þá fylla hann út og senda tilbaka og svo hefði hagsmunaskráning verið birt sem ítarefni við hvern frambjóðanda á www.kosning.is kjósendum til glöggvunar.

 

Raunverulegt gagnsæi krefst aðgerða

 Ég tel að til þess að ná fram raunverulegum breytingum á okkar samfélagi þá þurfum við að ráðast í aðgerðir í stað þess að tala eingöngu um hlutina. Gagnsæi er orð sem mikið hefur verið í umræðunni en það er lýsandi fyrir það hversu skammt við erum á veg komin með það að framkvæma það sem við hugsum að ekki hafi verið kallað eftir hagsmunaskráningu til okkar frambjóðenda til stjórnlagaþings. Þar hefði strax átt að taka fyrsta skrefið inn í nýja framtíð betra samfélags. Úr þessu verður ekki bætt héðan af. Með stjórnlagaþingi erum við að feta braut sem við höfum aldrei farið áður og því er eðlilegt að framkvæmdin sé ekki fullkomin. Við verðum hins vegar reynslunni ríkari og betur í stakk búin að takast á við persónukjör í náinni framtíð.

Stjórnlagaþingmenn skrái hagsmuni sína

Ég vil hér með gera það að tillögu minni að frambjóðendur og þjóðin sjálf geri þá kröfu að þeir sem ná kjöri á stjórnlagaþing skrái hagsmuni sína sem verði svo birt á upplýsingasíðu um stjórnlagaþingmenn. Þannig má skapa það nauðsynlega traust sem það fólk sem nær kjöri á stjórnlagaþing þarf að njóta.

 

 

Betra Ísland hefst hér og nú!

Höfundur er kandídatsnemi í sálfræði og frambjóðandi til stjórnlagaþings nr. 6582

 


mbl.is Frumvarp verði afgreitt hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband