Sönn ást

soulmates.jpgStundum er eitthvað sem maður heyrir eða upplifir sem snertir mann og færir manni óvænta gjöf, reynslu og ljós.

Ég ætla að segja ykkur þannig sögu.

Maður sagði mér að hann gréti aðeins út af konu sinni. Hann sagði mér að hann teldi sig vera að standa sig vel. Hann sagði mér að hann færi tvisvar sinnum á dag og mataði konuna sína. Ég sagðist vera sammála og að hann væri góður maður og stæði með konunni sinni alla leið. Ég sagði svo við hann að ég vonaði að ég myndi sjálf eignast svona góðan mann. Mann sem stendur með mér alla leið. Hann sagði að hún hafi þjónað honum í 60 ár og nú væri komið að honum að þjóna henni. Þrátt fyrir að gráta út af konunni sinni þá er hann þar fyrir hana, enn eftir 60 ár. Það er sönn ást að mínu mati.

Ekki furða að ástin, maki og lífsförunautur sé eftirsóknarvert í augum okkar flestra og ástin ein af grunnþörfum okkar til jafns við fæði, skjól og klæði.

Í bókinni Borða, biðja elska er líka skemmtileg saga. Sálfræðingur í Bandaríkjunum sem átti að taka flóttamenn frá Kambódíu í sálgæslu og ráðgjöf leist ekkert á verkefnið. Hún hafði áhyggjur af því að hún gæti ekki hjálpað fólki sem væri búið að ganga í gegnum allar þær mestu hörmungar sem nokkur manneskja getur gengið í gegnum, þjóðarmorð, pyntingar, hungur, limlestingar, nauðganir, ættingjar myrtir fyrir augum fólks og fleira. Hún taldi ómögulegt að hún gæti sett sig inn í þjáningar þessa hóps. Hvað var það sem fólk þurfti helst að tala um þegar það kom til hennar? Það voru ekki þessi áföll. Nei, það var ástin og ástarsorgir. Saga um mann sem var með konu í flóttamannabúðunum og hún hafði verið ástfangin af og þau verið saman en hann hafi svo lent á öðrum bát og farið að vera með frænku hennar en segist samt elska hana og alltaf að hringja í hana og hún veit að hún á að segja honum að hypja sig en elskar hann samt ennþá, getur ekki hætt að hugsa um hann og veit ekki hvað hún á að gera ...

Menn hafa aðeins barist út af tveimur spurningum í gegnum tíðina: Hve mikið elskarðu mig? og Hver ræður? Flest annað virðist manneskjunni viðráðanlegt. Þessar tvær spurningar um ást og völd virðast alveg fara með okkur. Út af þeim hafa sprottið styrjaldir, sorg og þjáningar.

Stundum verður fólk á vegi manns sem fyllir mann af upplifun, gleði, kærleika og snertir óvænt strengi í hjarta manns. Það svarar kannski spurningum sem maður hefur velt fyrir sér án þess að vita af því. Mig langaði til þess að deila þessari reynslu því svona andartök í lífinu gera það þess virði að lifa því. Mig langar til þess að hvetja ykkur til þess að grípa svona andartök, njóta þeirra og geyma þau í hugarfylgsnum hjarta ykkar og jafnvel deila með öðrum teljið þið það viðeigandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband