Föstudagur, 11. febrúar 2011
Vel heppnaður fundur: Fólk borðar ekki falleg orð - lausnir takk!
Fólk borðar ekki falleg orð - lausnir takk!
Stjórn Landssambands framsóknarkvenna hélt í kvöld opinn fund á Hressingarskálanum um grunnframfærslu og neysluviðmið. Yfirskrift fundarins var: Fólk borðar ekki falleg orð - lausnir takk!
Leiðarljós fundarins var að leitast við að svara spurningum um áhrif nýrra neysluviðmiða og leita raunverulegra lausna með samræðu hagsmunasamtaka, kjörinna fulltrúa og fulltrúa úr stjórnkerfinu. Framsóknarkonur lögðu sérstaka áherslu á það að það væri málefnið sem væri í forgrunni og umræðan væri uppbyggileg og lausnamiðuð. Einnig lögðu þær áherslu á að málið væri þverpólitískt og hvetja fleiri stjórnmálaöfl til þess að halda opna fundi um grunnframfærslu og fátækt.
Sérstakir gestir fundarins voru BÓT, aðgerðahópur um bætt samfélag.
Einnig var leiðarljós fundarins að ræða grunnframfærslu út frá 76. gr. stjórnarskrárinnar sem hljóðar svo:
Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.
Þar að auki má vísa til 25. gr. Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna sem hljóðar svo:
,, Allir eiga rétt á lífskjörum sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra. Telst þar til fæði, klæði, húsnæði, læknishjálp og nauðsynleg félagsleg þjónusta, svo og réttur til öryggis vegna atvinnuleysis, veikinda, fötlunar, fyrirvinnumissis, elli eða annars sem skorti veldur og menn geta ekki við gert. Mæðrum og börnum ber sérstök vernd og aðstoð. Öll börn, hvort sem þau eru fædd innan eða utan hjónabands, skulu njóta sömu félagslegu verndar.
Kristbjörg Þórisdóttir varaformaður Landssambands framsóknarkvenna setti fundinn. Fundarstjóri var Drífa Sigfúsdóttir.
Sigríður Jónsdóttir sérfræðingur úr velferðarráðuneytinu kynnti Íslensk neysluviðmið.
Að loknu erindi hennar hélt Helga Þórðardóttir Bótverji kynningu þar sem kynntar voru ýmsar tölulegar staðreyndir um framfærslu þeirra sem reiða sig á velferðarkerfið og lifa við fátækt.
Pallborðsumræður fóru fram þar sem þátttakendur voru beðnir um að svara eftirfarandi spurningum:
-Hvaða áhrif munu ný neysluviðmið hafa?
-Hvað geta hagsmunasamtök gert til að vinna að málefninu?
-Hvaða aðgerða er þörf af hálfu stjórnvalda vegna nýrra neysluviðmiða?
Þátttakendur pallborðsumræðna voru:
Talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason
Sérfræðingur úr velferðarráðuneytinu, Sigríður Jónsdóttir
Formaður Öryrkjabandalags Íslands, Guðmundur Magnússon
Formaður Landssambands eldri borgara, Helgi K. Hjálmsson
Formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar, Gerður Aagot Árnadóttir
Formaður Bótar, Guðmundur Ingi Kristinsson
Formaður BSRB, Elín Björg Jónsdóttir
Þingmaður Framsóknar sem á sæti í félagsmálanefnd, Guðmundur Steingrímsson
Þingkona Framsóknar, Vigdís Hauksdóttir
Formaður sveitarstjórnarráðs Framsóknar, Elín Líndal
Að loknum pallborðsumræðum fluttu María Jónsdóttir og Ísleifur Gíslason Bótverjar reynslusögur.
Í lok fundar fóru fram almennar umræður og fyrirspurnir til þátttakenda í pallborði.
Fundurinn var tekinn upp og verður birtur á vefnum innan skamms.
Hér má nálgast myndir af fundinum á samskiptavefnum Facebook. Það var Andres Zoran Ivanovic, Bótverji, sem tók myndirnar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæl Kristbjörg, og takk fyrir þennan fund. Vel var að honum staðið, en hann varð því miður eins og flestir aðrir fundir, einungis umræður um afar brýnt neyðarmálefni. Sama marki var brend sú atlaga sem gerð var að þessu sama verkefni á árunum 1990 -1991. Þá töluðu helstu hagsmuna- og áhrifaaðilar á fundum sem tóku rúmar tvær vinnuvikur, eða u. þ. b. 86 vinnustundir, fyrir utan undirbúning hvers og eins fyrir fundina. Árangur allrar þessarar vinnu var því miður enginn, því aldrei var stefnt beint að lausn vandamálsins, einungis umræðum um það.
Þó fundurinn ykkar hafi í alla staði verið vel undirbúinn, og fór vel fram, var augljóst er litið var yfir pallborðið, að þarna var einungis um upplýsignafund að ræða. Þar voru engir áhrifaaðilar, sem gætu skipulagt og sett af stað vinnuferli til breytinga. Flestir töluðu almennt um vandamálið, að frátöldum Bótverjum. Ég vek einnig athygli á að allir pallborðsgestir luku þátttöku sinni án þess að víkja einu orði að því hvort, eða hvernig þau teldu sig geta lagt lóð á vogarskálarnar, til að breyta því neyðarástandi sem fundurinn var boðaður um. Allir þolendur ástandsins voru því í nákvæmlega sömu sporum eftir fundinn, sem þeir voru í fyrir hann.
Þetta er ekkert nýtt fyrirbrigði, og EKKERT ykkur Framsóknarkonum að kenna. ALLIR fundirnir á árunum 1990 - 1991 voru sama marki brendir. Þess vegna varð enginn árangur af þeim. Ég náði til dæmi einn míns liðs, í beinum skoðanaskiptum á fundum eða í útvarpi, við þáverandi félags- og fjármálaráðherra, meiri árangri heldur en náðist út úr öllum fundunum samanlagt.
Vegna þekkingar minnar á rekstrarskipulagi og fjárstreymis um sjálfbært þjóðfélag, sem og 30 ára reynslu af því að aðstoða fólk í fjárhagserfiðleikum, er ég löngu búinn að stilla upp einskonar vinnuferli, sem miðar að því að leysa úr þeim vanda sem fundurinn í gær var um. Það kemur mér hins vegar ekkert á óvart að engir aðilar sem hafa stöðu eða slagkraft til að láta breytingar eiga sér stað, skuli hafa sýnt áhuga á að nýta reynslu mína eða þekkingu á þessu sviði. Hvað veldur, er ekki alveg ljóst, því í öll þessi ár hef ég látið þekkingu mína, á þessu svið, af hendi án endurgjalds til mín. Ég hef aldrei haft áhuga fyrir að safna peningum og yfirleitt haft fyrir þeirri eyðslu sem þörf var á. Áhugasvið mitt hefur ætið beinst að bættum hag þeirra sem aðstoðar þarfnast til eðlilegrar framfærslu, en ekki að safna að mér vegtyllum eða peningum. Hvorugt gæti orðið mér að gagni að þessu lífi loknu.
Ef ykkur tækist að breyta fundamenningu hér, yrði það sérstakt ánægjuefni. Ég hef ætið sagt að hagsýni konunnar sé ómissandi í farsælli stjórnun og það viðhorf mitt hefur ekkert breyst. Gangi ykkur vel í framtíðinni.
Guðbjörn Jónsson, 11.2.2011 kl. 12:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.