Mánudagur, 28. febrúar 2011
Eigum við að vinna okkar fyrstu stjórnarskrá sem þjóð í flýti?
Að mínu mati er svarið nei.
Það liggur ekki það mikið á stjórnlagaþingi að fara eigi í kringum hlutina og skipa stjórnlagaráð. Þetta er ekki bara eitthvað verkefni sem þarf að haka við. Hér er um eitt mikilvægasta verkefni sem við höfum farið í á lýðveldistímanum að ræða.
Ég er alveg ósammála þessari leið sem nú virðist hilla undir.
Rök mín gegn því að skipa í stjórnlagaráð byggjast meðal annars á því að:
- Ég tel slíkt ráð ekki geta orðið eins óvéfengjanlegt og valdamikið og stjórnlagaþing til þess að ljúka verkefninu fyrir þjóðina
- Ég er ekki hrifin af því að ráðið starfi undir Alþingi þegar það var skýr krafa um að stjórnlagaþing væri skipað fulltrúum þjóðarinnar og þetta væri ekki verkefni núverandi þingmanna eða Alþingis
- Ég tel ekki vænlegt að leggja upp í þessa för með það í bakpokanum að farið hafi verið á sveig við hæstarétt
Ég tel lykilatriði til þess að takmarka skaðann af þessari leið að drög að nýrri stjórnarskrá verði lögð fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem kosið verði um einstaka kafla áður en þau fara til Alþingis í meðferð þingsins.
Ég hefði viljað sjá fólk fara aðra leið:
- Ég hefði viljað að tekin hefði verið sú ákvörðun að halda ætti stjórnlagaþing eins og lagt var upp með í endurbættri útgáfu
- Sett yrði dagsetning t.d. 1-2 ár fram í tímann fyrir kosningu til stjórnlagaþings (til þess að ekki væri hægt að svæfa málið)
- Lagst hefði verið yfir ágalla kjörs til stjórnlagaþings og bætt úr þeim eins og frekast er kostur t.d. varðandi fjölda frambjóðenda og kynningu á þeim
- Farið hefði verið í sérstaka kynningarherferð til þess að vekja almenning til meðvitundar um mikilvægi stjórnarskrárinnar
- Notast hefði verið við þá miklu vinnu sem nú þegar hefur farið fram t.d. þjóðfundinn og þá reynslu við við höfum af því að gera ýmis mistök með þetta mál. Eitt nærtækt dæmi snýst um það að þeim sem bjóða sig fram verði skylt að gefa upp hagsmunatengsl sín (notast má við hagsmunaskráningu þá sem nýtt er á Alþingi)
Ég skil ekki þennan asa. Við megum ekki falla í þann pytt að vera eins og barnið sem grípur bara næsta súkkulaðistykki í búðinni til þess að tryggja að það fái þá amk. eitthvað þegar það ætlaði sér allt annað í upphafi. Við eigum að vera trú þeirri stefnu sem við mörkuðum um þessa gríðarlega mikilvægu vinnu og við eigum bara að játa það að verkefnið reyndist of stórt til að hægt væri að redda sér stjórnarskrá á 2-4 mánuðum! Við eigum að horfast í augu við það að verkefnið er viðamikið og þarfnast mjög mikils og vandaðs undirbúnings. Stjórnarskrá á að vera samin til framtíðar. Þetta er FYRSTA stjórnarskráin sem við semjum sem þjóð. Hana á að gera vel, eins vel eins og við getum mögulega gert.
Ég hef ekki sannfæringu fyrir því að núverandi tillaga muni skila okkur því og er því mjög ósammála þessari lendingu að skipa stjórnlagaráð og leggst alfarið gegn henni.
Ég virði þó skoðanir þeirra sem vilja fara þessa leið og mun eins og hver annar þegn reyna að leggja mitt af mörkum í það að byggja hér upp gott samfélag til framtíðar m.a. með því að fylgjast með vinnu stjórnlagaþingsfulltrúa, leggja mitt fram og hvetja þennan ágæta hóp til dáða.
Tillaga um stjórnlagaráð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:35 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.