Föstudagur, 11. mars 2011
Hvers vegna ætla ég að segja NEI við Icesave III?
Mig langar til þess að byrja á því að hrósa Rakel og félögum fyrir frábært framtak! Mikið er ég þakklát fyrir hana Rakel og annað dugnaðarfólk sem eytt hefur tugum klukkustunda og daga í því að berjast fyrir hagsmuni íslensks almennings og komandi kynslóða.
En yfir í málefnið.
Hvers vegna ætla ég að segja NEI við Icesave III?
Ég tel það vera siðferðilega rangt að velta skuldum einkafyrirtækis yfir á almenning.
Ég óttast að verði Icesave skuldirnar ríkisvæddar þá muni það skapa hörmulegt fordæmi þess að velta skuldum fjármálaheimsins yfir á hinn almenna skattborgara í öðrum löndum. Það leiðir til enn óábyrgari hegðunar fjármálabraskara sem telji sig geta notað almenning til þrautavara.
Ég tel það vera rangt að taka við skuldum sem enginn hefur getað fært rök fyrir að okkur beri lagaleg skylda til þess að greiða.
Við eigum að fara með málið fyrir dómstóla og leita réttar okkar, þrátt fyrir að taka áhættu á því að mögulega þurfum við svo að greiða (sem ég tel reyndar frekar ólíklegt).
Ég tel óskiljanlegt að stjórnmálamenn sem eiga að hafa hag íslensku þjóðarinnar fyrir brjósti skuli ítrekað reyna að ríkisvæða skuldir fjárglæframanna án lagakrafna um það og ætla að senda þjóðinni óútfylltan tékka sem enginn veit í hvaða upphæð endar. Ekki síst í ljósi þess að nú þegar eru skuldir íslenska ríkisins það háar að illfært verður að kljúfa þær nema með stórtækum aðgerðum.
Ég vil ekki bjóða því íslenska barni sem fæddist í dag upp á þá framtíð að það muni mögulega enn vera að borga af Icesave á 35 ára afmælisdaginn sinn. Skuldir sem það á bara ekkert í og eru m.a. tilkomnar vegna gallaðs evrópsks regluverks og brjálæðislegrar græðgi örfárra einstaklinga.
Við eigum að standa í lappirnar í þessu máli og sýna kjark og þor.
Við eigum ekki að láta kúga okkur til þess að taka skuld á okkur sem er siðferðilega og lagalega engin stoð fyrir að borga.
Ef barnið mitt væri kúgað í skólanum af skólahrelli (bully) sem vildi fá 1000 krónur þá myndi ég ekki segja: "elskan mín, láttu hann bara fá 50 krónur, þá verður þetta í lagi." Þannig að það er ekki hægt að kaupa sig frá Icesave vanda og maður á í prinsippinu ekki að greiða eitthvað sama hvaða upphæð það er til þess að kaupa sér frið.
Maður á að leita réttar síns og standa með sjálfum sér.
NEI við Icesave 9. apríl.
Kynna rök gegn Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Vá! Þessi færsla er nákvæmlega eins og ef ég hefði skrifað hana sjálfur.
Guðmundur Ásgeirsson, 11.3.2011 kl. 23:46
Kristbjörg. Alveg sammála við segjum nei við borgum ekki óreiðu skuldir annara.
Gissur Jóhannesson (IP-tala skráð) 12.3.2011 kl. 11:09
Sammála. Blátt nei við Icesafe.
Steingrímur, Jóhanna og Darling vita nákvæmlega hvert Icesafe peningarnir fóru.
Það er lágmarkskrafa að upplýsa þjóðina fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um það. Fyrst þeim finnst sjálfsagt að við borgum.
Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 12.3.2011 kl. 13:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.