Takk

Um síðustu helgi fór fram 15. landsþing Landssambands framsóknarkvenna og 30 ára afmæli sérsambandsins.

Ég bauð mig fram til formanns og var kjörin. Ásamt mér komu margar öflugar konur inn í framkvæmdastjórn og landsstjórn. Ég hlakka mikið til að starfa með þeim glæsilegu konum sem kjörnar voru, ásamt fleiri öflugum framsóknarkonum sem er að finna um allt land á næstu tveimur árum. 

Fyrst og fremst er ég þó að skrifa þessa færslu til þess að segja takk.

Mig langar til þess að þakka þeim konum sem studdu mig. Það er ekki sjálfgefið að fólk komi á svona landsþing og það er ekki sjálfgefið að fá stuðning. Það var mér mikils virði að finna þann stuðning sem ég fékk.

Það sem stóð upp úr eftir helgina var hugsunin um gott fólk! Það er stundum talað um að fólk sem fer út í pólitík sé tækifærissinnar, spillt og upptekið af eigin hagsmunum eða sérhagsmunum. Sem betur fer tel ég það í flestum tilfellum ekki vera rétt. Upp til hópa er fólk sem fer út í pólitík einstaklingar sem hafa hugsjónir og áhuga á því að bæta samfélagið sem við búum í. Stundum greinir okkur á varðandi einstök mál en í heildina erum við góðar manneskjur sem hafa mikið fram að færa.

Því miður slæðast þó alltaf svartir sauðir með sem eru í pólitík til þess að ná sér í völd og tryggja eigin hagsmuni. Þessir einstaklingar svífast einskis til þess að ná sínu fram og er það miður. Því miður fer mikil orka sem gæti farið í uppbyggjandi vinnu fyrir samfélagið í súginn vegna átaka sem fylgja þessum örfáu einstaklingum. 

Það var ómetanlegt að hitta og kynnast sumum þeirra kvenna sem ruddu braut Landssambands framsóknarkvenna fyrir 30 árum. Sumt sem þær börðust fyrir þykir okkur sjálfsagt í dag. Öðru erum við enn að berjast fyrir. Það er ljóst að nóg er af verkefnum sem framsóknarkonur þurfa að berjast fyrir á næstunni. 

Ef þig langar til þess að fylgjast með Landssambandi framsóknarkvenna þá hvet ég þig til þess að gerast aðdáandi að síðunni okkar á Fésbókinni. Þú getur líka sent okkur tölvupóst á lfk@framsokn.is eða kíkt á heimasíðuna okkar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Sigurðsson

Til hamingju. Gott hjá þér.

Óskar Sigurðsson, 9.9.2011 kl. 08:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband