Dagurinn sem breytti engu

9/11Fyrir tíu árum síðan var ég stödd á æskuheimilinu, var á útleið minnir mig þegar eldri systir mín kemur niður stigann og segir okkur að flugvélar hafi flogið á byggingar í New York og fólk telji jafnvel að þriðja heimsstyrjöldin sé hafin. Ég mann enn andartakið, skápinn sem ég horfði á og hugsanirnar sem flugu um í höfðinu á mér. Það er til sálfræðikenning sem kallar þetta flashbulb memory það sem gerist í höfðinu á okkur þegar við fáum svona fréttir. Þá er talið að upplifunin í taugakerfinu sé svo sterk að heilinn skrásetur hvert smáatriði til fastrar minningar. Mjög rökrétt viðbrögð hjá heilanum við áreiti sem kallar fram mjög sterk viðbrögð að skrásetja allt nákvæmlega og koma fyrir á öruggan stað í skjalaskáp heilans. Þessi kenning hefur þó verið umdeild og sumir telja að í raun stafi styrkleiki minninganna frekar af tíðum samtölum um atburðinn og aðstæðurnar eftirá.

Tíu árum síðar hef ég nokkuð aðra mynd af þessum atburðum. Vissulega var þetta dagur sem breytti miklu. Allt í einu var ógnin orðin raunveruleg. Ég hafði sjálf flogið með United Airlines 1998, ég hefði getað verið um borð í þessum flugvélum. Ég hefði getað verið í New York. Hvert og eitt okkar sér lífið með sínum eigin augum. Áður fyrr hafði ógnin alltaf verið fjarlæg. Sorglegar fréttir í sjónvarpinu frá langt-í-burtistan. Atburðir sem snertu mann en ógnuðu manni ekki. Annað fólk, önnur líf, önnur sorg. Svo mikið af stríðsfréttum stundum að þær snertu mann sífellt minna og minna. Upplifunin ekki áþreifanleg.

Núna er ég líka betur meðvituð um mátt fjölmiðla. Sú umræða sem fram fer er ekki endilega sú eina rétta. Umræðunni er jafnvel stýrt vísvitandi inn á ákveðnar brautir. Hryllingur er meðal annars réttlættur í umræðunni.

Hvert einasta líf sem glatast í stríði er einu lífi of mikið. Það er sorglegt að hugsa um alla sem týndu lífinu 11.9.2001 en það hlýtur samt að leiða hugann að sama skapi að þeim margfalda fjölda sem hefur goldið og geldur enn fyrir glæpinn með lífi sínu í Afghanistan og Írak.

R.I.P. The 2.976 people of 86 nationalities that lost their lives on 9/11/01.
R.I.P. the 48.644 Afghan and 1.690.903 Iraqi people that paid the ultimate price for a crime they did not commit (tekið af fésbókarsíður Margrétar Tryggvadóttur).

Í maí á þessu ári fannst loksins Osama Bin Laden. Hann var tekinn af lífi og sökkt í hafið. Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn. Er það líklegt til að fæða af sér betri heim? 

Það sem mér finnst skína í gegn þegar ég hugleiði þessa atburði er að við erum engu nær um betri heim eða frið. Það er auðvelt að flagga friði og frelsi með fögrum orðum en engin breyting verður þegar menn eiga auðveldara með að setja öðrum reglur en fara eftir þeim sjálfir. Ef við viljum frið þá svörum við ekki árás með gagnárás. Ef við viljum mannréttindi þá tökum við menn ekki af lífi og sökkvum þeim í hafið án dóms og laga, óháð því hvað þeir hafa gert. Ef við viljum betri heim þá myrðum við ekki margfaldan fjölda á móti hverjum "okkar" sem myrtur var. 

Heimurinn er ekki við og hinir. Við erum öll í þessu saman. Hver einasta mannvera. Við erum 99% eins. 

Það breytist ekkert í heiminum fyrr en við erum tilbúin að breyta okkur sjálfum.

Þá fyrst upplifum við daginn sem eitthvað breyttist.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband