Einelti

Ég er ákaflega slegin eins og aðrir í okkar samfélagi yfir þeim hryllilegu atburðum sem urðu um helgina. Ég er fyrst að átta mig á þessu núna, sagði ekki orð þegar ég heyrði þetta fyrst, trúði þessu varla, græt núna, er hrygg og sorgmædd.

Við þurfum að vera meðvitaðri um það hvaða áhrif við höfum á hvert annað. 

Við fæðumst inn í þennan heim sem lítill brosandi, hjalandi sólargeisli, óskrifað blað með ógrynni tækifæra. Eins og leirklumpur sem á alveg eftir að mótast eftir því á hvað hann rekst á ferð sinni um lífsveginn.

Smám saman mótar hver einstaklingur sína heimsmynd og hugmyndir um sjálfan sig í þessum heimi. Sú sjálfsmynd og heimsmynd byggir á því hvernig umhverfi okkar er. Hún byggir að gríðarlega miklu leyti á fólkinu í kringum hvern einstakling. Foreldrum, systrum, frænkum, bræðrum, skólafélögum, vinum, ókunnugum, fjölmiðlafólki og svona má lengi telja. Öll höfum við áhrif á litla krílið sem er að reyna að átta sig á og skilja þennan heim. Við berum ábyrgð á okkur sjálfum og við berum líka ábyrgð á hverju öðru. 

Einelti er eitt það skaðlegasta sem börn, unglingar og fullorðið fólk lendir í. Með einelti eru rist sár sem aldrei gróa að fullu og skilja ávallt eftir ör. Svo djúpir og alvarlegir geta áverkarnir orðið að jafnvel barn sér enga leið til að binda enda á þjáningarnar aðra en dauðann. Við sem samfélag berum ábyrgð á skelfilegum afleiðingum eineltis. Við brugðumst.

Ég lenti í einelti á minni grunnskólagöngu. Sú lífsreynsla hafði áhrif á mig. Nánir ættingjar mínir hafa lent í hræðilegu einelti og það hefur mótað þá. 

Ég hef yfirleitt reynt að taka upp hanskann fyrir fólk sem mér finnst verða fyrir barðinu á einelti. Það hef ég samt örugglega ekki alltaf gert. Ég hef eflaust gerst sek um að taka þátt í einelti gegn öðru fólki.

Við erum full ótta innst inni. Við erum skíthrædd við að mistakast, vera ekki nógu góð, vera vond, vera verri en aðrir. Sú leið sem fólk fer til að hylma yfir þann ótta er oft að bíta frá sér, brynja sig og setja upp skel en enginn nema við sjálf veit hvað kraumar undir. Enginn veit á hvað hvert og eitt okkar hefur rekist á lífsleiðinni og hvaða ör við berum. Ef við vissum það þá myndum við oft skilja hvert annað betur og vera betri við hvert annað.

Það er ekki hægt annað en vera tómur þegar slíkur harmleikur verður sem maður veit að hefði getað átt sér stað hjá hverju og einu okkar. 

Í stofunni minni logar á hvítu kerti til minningar um þetta litla líf sem var frá okkur tekið. Annað get ég víst ekki gert í bili en ég get reynt að læra og verða betri manneskja sjálf og reynt að hvetja aðra að verða það líka. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Góður pistill Kristbjörg.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 26.9.2011 kl. 00:37

2 Smámynd: Sigurbjörg Eiríksdóttir

Góður pistill frænka mín..Ég hef verið að hugsa svipað..við verðum öll að skipta um gír :( Látum ekki einn einasta verða fyrir svona sárri lífsreynslu. Hún hefur alltaf viðgengist en eftir því sem þjóðfélagið verður harðara..leyfi mér að segja grimmara fer þetta meira framhjá okkur. Í gamla daga varð ég fyrir biturri stríðni sem var auðvitað ekkert annað en einelti..Ég held ég hafi haft einhvern eiginleika til að ýta því frá mér..En sumir taka allt inn..Ó þetta er svo sárt og bærinn okkar er í rúst..vægt til orða tekið.

Knús til þín elskuleg..Vona að starfið þitt verði mörgum til hjálpar.

Sigurbjörg Eiríksdóttir, 26.9.2011 kl. 09:08

3 identicon

Góður pistill

Hildur Rós (IP-tala skráð) 26.9.2011 kl. 12:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband