Ég fer með friði

green-peace-lovely-flower.jpg
"The more you are motivated by love, the more fearless & free your action will be" (Dalai Lama).
 
Þessi fallegu orð hanga upp á vegg hjá mér. Þau voru útskriftargjöf frá góðri vinkonu.
 
Á laugardaginn verður Alþingi Íslendinga sett. 
 
Líklegt er að fólk muni fjölmenna á Austurvöll til þess að mótmæla. Ég ætla að fara á Austurvöll til þess að mótmæla. Ég ætla að mótmæla á friðsamlegan hátt og ég skrifa þennan pistil til þess að biðja ykkur um að gera slíkt hið sama. 
 
Við skulum standa saman, standa á rétti okkar sem þjóðar. Rétti til þess að eiga von um framtíð í þessu landi. Rétti fyrir því að hrunið verði gert upp með eðlilegum hætti. Rétti til þess að ráðið verði á löglegan og eðlilegan hátt úr þeim fjölmörgu flækjum sem hrunið ljóstraði upp og urðu til í kjölfar þess. Þetta er okkar land, okkar framtíð. Almenningur á ekki að fá sendan reikninginn eftir hrunveisluna í formi stökkbreyttra lána, eignabruna, launa-, kjara-, og lífsgæðaskerðingar. Þeir sem bera ábyrgð eiga að sæta ábyrgð. Þeir sem fóru fram af brúninni í græðgi eiga að fara þangað án okkar sem ekki tókum risakúlulán til þess að lifa eins og Hollywood stjörnur, borða gull og fá okkur fundarsali í háloftunum.
 
Bankarnir eiga ekki að stjórna lífi okkar né framtíð.
 
Ég vil leiðréttingu á lánum heimila og fyrirtækja og afnám verðtryggingar. Ég vil gagnsæi, ég vil að hagsmunatengsl séu gefin upp og ég vil margt fleira.
 
Ég hvet þig til að gerast aðili að Hagsmunasamtökum heimilanna og til að skrifa undir undirskriftarsöfnun um leiðréttingu á stökkbreyttum lánum og afnám verðtryggingar.
 
Við höfum öll það sameiginlega markmið að líða vel í þessu landi.
 
Ein leið til þess að ná því markmiði er að tryggja jafnari skiptingu gæðanna. Það getur ekki talist eðlilegt að örfáir útvaldir sópi til sín sameiginlegum auði þjóðar. Það getur ekki verið eðlilegt að menn geti leikið lausum hala án þess að fylgja lögum og reglum eða að menn komist upp með að fara framhjá lögum og sáttmálum í þessu landi.
 
Við skulum ekki ráðast á neinn á laugardag, reiðin hjálpar engum, að henda matvælum, hlutum eða öðru er ekki í lagi. Við fáum öll reikninginn fyrir brotnar rúður og skemmt hús þannig að það er óþarfi. Tökum blóm með okkur frekar!
 
Tökum Dalai Lama með okkur á öxlinni á laugardaginn. Verum innblásin af kærleika, von um betra samfélag og stígum óttalaus og frjáls inn í nýja og betri tíma. 
 
Kærleikurinn sigrar allt.
 
Taktu blóm, kærleik, frið og von um betri tíð með þér á laugardaginn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband