Fimmtudagur, 24. nóvember 2011
Aðgengi barna að sálfræðiþjónustu
Síðastliðinn föstudag var ég stödd á haustþingi Sálfræðingafélags Íslands. Umfjöllunarefni þingsins var aðgengi barna að sálfræðiþjónustu, núverandi staða og framtíðarsýn. Hér má sjá ágætan pistil um þingið.
Góð erindi voru flutt á þinginu þar sem Hákon Sigursteinsson sálfræðingur og deildarstjóri sérfræðiþjónustu við leik- og grunnskóla á Þjónustumiðstöð Breiðholts fjallaði um sálfræðiþjónustu við börn á Þjónustumiðstöðvum, Ingibjörg Sveinsdóttir sálfræðingur á heilsugæslunni Firði fjallaði um þá sálfræðiþjónustu sem veitt er á heilsugæslunum og Hrefna Haraldsdóttir frá Sjónarhóli fjallaði um málið m.a. út frá sjónarhóli notenda og fjölskyldna þeirra.
Mín upplifun af fundinum var sú að flestir væru sammála um það að bæta þyrfti aðgengi barna að sálfræðiþjónustu, efla þyrfti framlínuþjónustuna og stuðla þyrfti að því að stofnanir ynnu betur saman. Koma þarf í veg fyrir það að börn bíði mánuðum eða árum saman eftir þjónustu á biðlistum.
Meðal annars var rætt um það að endurskoða þyrfti mannaflaþörfina í stofnunum eins og skólum og heilsugæslum. Víða þykir það sjálfsagt að þar starfi námsráðgjafar og hjúkrunarfræðingar en sálfræðingar starfa ekki lengur í sjálfum skólunum og aðeins eru sálfræðingar á nokkrum heilsugæslustöðvum sem sinna eingöngu börnum og unglingum og foreldrum þeirra.
Með því að efla þá þjónustu sem veitt er strax í upphafi er hægt að draga verulega úr þörf á dýrari og flóknari þjónustu á síðari stigum vandans og stytta biðlista. Teikn eru á lofti um það að aukinn þungi sé að færast í umræðu um mikilvægi forvarna og inngripa á fyrri stigum vandans.
Flest vægari tilfelli má leysa strax í upphafi í nærþjónustu við barnið og fjölskyldu þess. Á Þjónustumiðstöð Breiðholts er t.d. verið að keyra PMT foreldrafærni námskeið, Klókir krakkar sem er námskeið fyrir börn og foreldra barna með kvíða, Mér líður eins og ég hugsa HAM námskeið fyrir unglinga, sjálfstyrkingarnámskeið fyrir fullorðna og fleira. Margt fleira gott er í vinnslu í Breiðholti eins og það að allir nemendur í 9. bekk sem það samþykkja eru skimaðir fyrir þunglyndi og kvíða. Þessi þróun er ákaflega jákvæð að mínu mati og um mikið og gott frumkvöðlastarf að ræða. Hópnámskeið og skimanir eru úrræði sem eru mjög hagkvæm í framkvæmd en skila miklum árangri.
Aðkoma heilsugæslunnar var einnig rædd en í dag eru starfandi 6 sálfræðingar á 8 heilsugæslustöðvum á Reykjavíkursvæðinu sem þjónusta eingöngu börn og ungmenni. Þetta veldur því að ekki sitja allir íbúar landsins við sama borð þegar kemur að sálfræðiþjónustu í heilsugæslu.
Sálfræðimeðferð hefur sýnt fram á sambærilegan og jafnvel betri árangur en lyf við ýmsum vanda. Auk þess hefur mikið verið rætt um mikilvægi þverfaglegs samstarfs í heilbrigðis- og félagsþjónustu. Samkvæmt klínískum leiðbeiningum m.a. í Bretlandi og á Íslandi á að veita bestu mögulegu gagnreyndu meðferð og skv. þeim á að veita sálfræðimeðferð við vægari til miðlungs tilfellum og jafnvel alvarlegum tilfellum af vissum tilfinningavanda/geðröskunum eins og kvíða og þunglyndi.
Það er þjóðþrifamál að bæta úr þessu þannig að öll börn hafi gott aðgengi að sálfræðiþjónustu bæði í gegnum heilsugæslu og skóla. Einnig þarf að bæta aðgengi fullorðinna að sálfræðiþjónustu en rannsókn mín til Cand.psych gráðu sýndi að helmingur þeirra sem sitja á biðstofum heilsugæslu finna fyrir vægum, miðlungs eða alvarlegum einkennum kvíða og/eða þunglyndis. Frekari útleggingar á þeim niðurstöðum og framtíðarsýn er efni í fleiri pistla.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:53 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.