Sunnudagur, 4. desember 2011
Sálfræðinga á heilsugæslustöðvar
Viðtal af Bleikt.is sem birtist í dag.
Þriðji hver sjúklingur sem kemur á heilsugæsluna á við tilfinningavanda að stríða, þar af er meirihlutinn konur. Aðeins sex sálfræðingar eru starfandi á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og þá bara til að þjóna börnum og unglingum. Kristbjörg Þórisdóttir sálfræðingur vill að sálfræðingar verði ráðnir á heilsugæslustöðvarnar.
Kvíði og þunglyndi eru helmingi algengari hjá konum en körlum. Þriðjungur allra þeirra sem koma á heilsugæsluna á hverjum tíma eiga við tilfinningavanda að stríða. Helmingur komugesta heilsugæslustöðva finnur fyrir vægum, miðlungs eða alvarlegum einkennum þunglyndis og/eða kvíða. Meirihluti þeirra sem greindir eru með tilfinningavanda er í lyfjameðferð en minnihluta er vísað í sálfræðimeðferð.
Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar Kristbjargar Þórisdóttur sálfræðings, Tilfinningalegur vandi í heilsugæslu á Íslandi: könnun meðal sjúklinga og heimilislækna sem byggir á svörum 251 einstaklings á aldrinum 18-88 ára og heimilislæknum þeirra.
Þar kemur meðal annars fram að meirihluti þeirra sem er með tilfinningavanda telur að sálfræðimeðferð í heilsugæslunni væri gagnlegur valkostur. Heimilislæknar telja líka að sálfræðimeðferð í heilsugæslu væri gagnleg fyrir meirihluta þeirra sem þeir telja eiga við tilfinningavanda að stríða.
Sinna börnum
Kristbjörg telur að heilsugæslan hafi ekki næg úrræði til að takast á við tilfinningavanda eins og staðan er í dag. Hún bendir á að heimilislæknar hafi aðeins 20 mínútur til að sinna hverjum sjúklingi. Þeir hafi líka mismunandi aðstæður til þess að veita samtalsmeðferð. Aðeins sex sálfræðingar starfi á átta heilsugæslustöðvum í Reykjavík og þeir sinni aðeins börnum og unglingum.
Ef sálfræðingar yrðu ráðnir á heilsugæslustöðvarnar gætu þeir tekið sjúklinga í greiningarviðtal, gert drög að greiningu til að sjá hvað vandinn er alvarlegur og hvort hægt sé að veita þjónustu í heilsugæslunni eða hvort sjúklingnum væri vísað á Landspítalann. Í framhaldinu gætu sálfræðingarnir svo veitt sálfræðimeðferð, til dæmis í hóp.
„Hugræn atferlismeðferð er mjög sérhæfð meðferð sem skilar jafngóðum árangri og jafnvel betri en með lyfjagjöf lækna því að oft veikist fólk aftur þegar það hættir að taka lyfin," segir Kristbjörg og bendir á hættuna á því að fólk sem ekki fái viðeigandi meðferð detti út af vinnumarkaði og fari á örorkubætur í stað þess að borga samfélaginu skatta af vinnu sinni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.