Jólin koma með þér

20. desember... Jólaandinn

Fimm dagar til jóla. Eflaust margir á þönum að klára to do listann sinn. Þar á meðal ég!

Verð að...

Þarf að...

Við erum alltaf með svona...

Við gerum aldrei svona...

Tékk...

Hjálpi mér... þetta er eftir... og þetta... og þetta...

Það er svo auðvelt að sogast inn í hringiðu jólakapphlaupsins mikla og jólastreitunnar. Það er líka auðvelt að ætla að grípa jólin í snarheitum úr hillum búðanna eða barma sér yfir að hafa ekki byrjað að undirbúa jólin í ágúst. Það er líka auðvelt að festast í hugsanavillum þess að engin verði jólin ef ekki er keyptur nýr kjóll, nýir fylgihlutir eða ósveigjanlegum rútínum fylgt út í ystu æsar.

Mig langar til þess að minna sjálfa mig og þá sem lesa þessa færslu á að jólin snúast sennilega minnst um þetta, meira um allt annað.

Þau snúast ekki um to do listann

...ekki um kaupmanninn

...ekki um það sem næst ekki að gera

...ekki um hver er fyrstur að undirbúa þau eða hver undirbýr þau best

...ekki um kjólana, skóna, fylgihlutina, greiðsluna, förðunina

Og svo framvegis...

 

Jólin snúast um þig.

Jólin koma með þér.

 

Þegar þú finnur hinn djúpa frið, innilega gleðina og kærleikann sem allt í einu leggur yfir allt eins og fallega dalalæðu og upplifir hamingjuna yfir því sem hefur snert þína innstu strengi í hátíðleikanum.

Jólin koma þannig innra með manni sjálfum í hreinu þakklætinu fyrir að fá að vera til og upplifa þetta kraftaverk sem lífið er. Fyrir að fá að vera með hér á jörð ein jólin enn.

Jólin koma með gjöfunum sem maður færir, kveðjunum sem maður sendir og ljósunum sem maður leggur á leiði þeirra sem maður minnist svo sérstaklega á þessum tíma árs.

Jólin koma með fallegu gjöfunum sem maður gefur og þiggur í öllu mögulegu formi og eru þá efnislegar umbúðir þeirra það sem minnstu máli skiptir heldur hugurinn sem fylgir og þær tilfinningar sem eru þyngdar sinnar virði í gulli.

Jólin koma með kortunum sem minna mann á það að einhver man eftir manni og maður skiptir aðra máli.

Jólin koma með minningunum sem flögra um hugann frá æskunni og allt yfir í endurminningar og hugarflug um árið sem senn kveður.

Jólin eru því þannig endirinn á ákveðnu tímabili og upphafið að nýrri von og nýjum tímum.

Þetta er einmitt það sem svo mikið af jólaboðskapnum og jólalögunum fjalla um en auðvelt er að missa af merkingunni í jólastressinu og fara bara að heyra suð í jólaamstrinu.

Mundu því að to do listinn þinn er ágætur en hann er einungis umbúðir utan um hátíðina og til skipulagningar. Allt umstangið eru einungis umbúðir en ekki jólin sjálf. 

Þau eru ekki á neinum to do lista því þau eru innra með þér og hjá þínum, hafa alltaf verið það og verða þar svo lengi sem við njótum stærstu gjafarinnar, ferðarinnar um móður jörð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband