Matvæli og matvöruverð

Ég velti því fyrir mér þegar ég fór að versla um daginn hversu hátt matvöruverð er hérna heima. Ég keypti eina samloku sem kostaði rúmar 600 kr. og brá heldur betur við.

Mér finnst áberandi hversu hátt verðið er orðið og það er mun hærra hér en í Danmörku, að minnsta kosti á mörgum flokkum matvæla.

Svo virðist sem sú lækkun á matvælaskatti sem margir bundu miklar vonir við í fyrra að myndi hafa ómæld áhrif á rekstur heimilanna hafi varað ansi stutt. Þessi lækkun er fokin út í veður og vind. Ég hreinlega trúði því ekki þegar systir mín keypti örfáa hluti í einn poka fyrir 4.500 kr. og las vel yfir strimilinn. Jú, allt hárrétt!

Þetta er málefni sem ég hef áhyggjur af.

Ég held að það þyrfti að skoða skatta á matvæli enn betur og reyna að ná fram endanlegri lækkun. Mér þótti einnig spennandi athugasemd sem kom fram hjá ungri konu sem ég ræddi við í síma fyrir kosningarnar í vor. Hún óskaði þess að meira framboð væri af hollum mat, ávöxtum, grænmeti, hollustuvörum hvers konar og þessir flokkar væru sem minnst skattlagðir. Ef ég miða við Danmörku þá er alveg áberandi hversu mikið er lagt ofan á gos, kex, sælgæti og fleiri flokka af óhollustu. Ég tel að slíkar aðgerðir geti haft mjög góð áhrif á lýðheilsu.

Mér líst vel á frumvarpið sem Siv Friðleifsdóttir, þingmaður okkar, var að leggja fram um trans-fitusýrur í matvælum. Ég er sammála því að það sé upplagt að fara dönsku leiðina og stuðla að því að auka heilbrigði þjóðarinnar sem dregur úr álagi og eykur sparnað í heilbrigðiskerfinu.

Það er mikil vakning almennt um heilsufæði, ánægjulegt að sjá framboð aukast í verslunum og ég tel mikilvægt að fylgja þessari þróun vel eftir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband