Mikilvægi landbúnaðar

Mjólkurkýrnar
 

Landbúnaðurinn er ein aðalæða atvinnuvega okkar, ein grunnstoða okkar. Hann hefur gríðarlegu hlutverki að gegna fyrir þjóðina alla.

Ég horfi björtum augum fram á veginn til þeirra möguleika sem landbúnaðurinn hefur í framtíðinni. Mikilvægi hollra matvæla er sífellt að koma betur og betur í ljós. Ég tel mikla möguleika fyrir framtíðarbændur að leggja mikið upp úr lífrænum, umhverfisvænum búskap. Lítil fjölskyldubú þar sem vel er búið að búfénaði og jafnframt unnið frumkvöðlastarf til framfara er möguleiki sem ég vona að verði algengur. Ég tel það ekki endilega bestu stefnuna að stórbúskapur verði ríkjandi. Við höfum mikla sérstöðu til þess að framleiða hágæða matvæli og það er og verður enn meiri eftirspurn eftir slíku og lítil umhverfisvæn bú eru kjörin til þess þar sem lögð er mikil áhersla á lífræna ræktun.

Það er mikilvægt fyrir ráðamenn þjóðarinnar að styðja vel við bakið á hvers konar búskap, frumkvöðlastarfi og greiða leið þeirra sem velja sér búskap sem atvinnugrein. Það er sorgleg staðreynd að talsvert er af ungu fólki sem hefur menntað sig til starfa í landbúnaði en getur svo ekki haslað sér völl á því sviði vegna mikillar hækkunar á jarðarverði og kvóta. Frístundabyggð hvers konar og uppkaup auðmanna á jörðum hafa átt þátt í því að verð hefur rokið upp úr öllu valdi og orðið ljón í vegi fólks sem vill verða bændur. Frístundabyggð getur átt rétt á sér, vissulega en það er eitthvað athugavert við það að stór landsvæði leggist í eyði og á meðan komist fólk uppfullt af hugsjónum, menntun og metnaði ekki út í sveit nema eiga úr gríðarlegum fjárhæðum að spila eða taka við búi foreldra. Ég tel ábúðarskyldu vera eitthvað sem hér þarf að ræða og bera okkur saman við nágrannalöndin eins og Danmörku til dæmis þar sem slík skylda er.

Landbúnaðurinn er að mínu mati ein sú öflugasta æð sem heldur lífi í landinu öllu. Í hverjum firði þar sem menn byggja bú sín, þar slær hjarta byggðamálanna. Þannig verður til atvinna því með hverri fjölskyldu sem sest að í sveit og haslar sér völl í landbúnaði eykst þörfin fyrir þjónustu sem skapar einhverjum öðrum atvinnu og þannig byggjast upp og haldast m.a. við þéttbýliskjarnar landsbyggðarinnar. Það er því stóráfall fyrir hverja sveit þegar ungt fólk þarf að bregða búi og leggja upp laupana í landbúnaði. Það er líka áfall fyrir þjóðina því næg er eftirspurnin eftir t.d. mjólkinni og við þurfum að standa sterkan vörð um þessar grunnstoðir okkar.

Við þurfum að leggja mikla áherslu á það að lifa af lífsins gæðum og nóg höfum við af þeim hér á landi.

Hinar einu sönnu mjólkurkýr mega ekki gleymast, þær eru óbrigðular. Það geta banka mjólkurkýrnar hins vegar verið...

 

 


mbl.is Bændur þinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband