Hvers vegna áhersla á sérskóla og sérdeildir?

Þessi hækkun til skóla- og velferðarmála er vissulega fagnaðarefni.

Það sem stakk mig þó í fréttinni er hvers vegna verið er að gefa svona inn varðandi sérúrræðin. Þetta samræmist ekki þeirri stefnu sem hefur verið að ryðja sér til rúms m.a. með tilkomu fötlunarfræðanna að draga úr sérúrræðum í skólakerfinu og í stað þess að leggja áherslu á það að skapa öllum skilyrði til þess að stunda einstaklingsmiðað nám innan almenna skólakerfisins.

Vissulega eru skiptar skoðanir um þetta og mikilvægt að bjóða upp á val sem allir nemendur og aðstandendur þeirra kjósa sér sjálfir.

Raunin hefur verið sú að fötluðum nemendum hefur oftar en ekki verið hafnað í sínum hverfisskólum þar sem þeir kjósa sér að fylgja sínum félögum í almenna skólakerfinu. Margir sem ég hef rætt þessi mál við eru þeirrar skoðunar að sérúrræðin séu betri... en það sé vegna þess að ekki fylgi sá stuðningur sem þurfi að vera inni í almennu skólunum til þess að það sé mögulegt.

Það er ríkjandi stefna baráttuhópa fatlaðs fólks að draga úr þeirri gamaldags aðgreiningu sem átt hefur sér stað í gegnum tíðina á allan þann hátt sem mögulegt er. Það eiga allir sama rétt á menntun í almennum skóla.

Rannsóknir í fötlunarfræðum m.a. rannsókn Kristínar Björnsdóttur doktorsnema hafa sýnt fram á það að nemendur í sérdeildum ná ekki að blandast inn í almennan hóp framhaldsskólanema þar sem þeir eru alltaf sér. Þannig eiga þeir erfitt með að "læra að vera unglingar" sem flestir læra af því félagslífi og starfi sem fylgir skólanum og meðal annars að eignast ófatlaða vini.

Með því að fara í gegnum almenna leikskóla- og skólakerfið þá upplifa fatlaðir nemendur það að þeir eiga sama rétt og aðrir og kröfur eru gerðar á þá eins og aðra. Þannig koma þessir nemendur út úr skólakerfinu með betri sjálfsmynd og væntingar fyrir framtíðina. Við eigum frábært dæmi um Freyju Haraldsdóttur, konu ársins, sem hefur alltaf farið í gegnum allt almenna kerfið og ekki viljað vera "sér" í einu eða neinu sem hefur blómstrað og brotið niður veggi. Þeir nemendur sem kynnast samnemendum sem hafa skerðingar læra einnig mikið af sinni samveru með skólafélögunum, lexíu sem erfitt er að kenna í bókum um margbreytileika samfélagsins og leikni í því að bera virðingu fyrir hverri manneskju og sjá þann styrkleika sem hver býr yfir.

Af skrifum mínum sjáið þið greinilega hver mín afstaða er. Ég tel kostina við það að öll börn eigi þess kost að fara í gegnum almennt kerfi eins og hver annar undirstöðu þess að við byggjum hér upp samfélag þar sem allir eiga sinn rétt. Ég er því ekki hlynnt því að hér sé verið að byggja upp sérúrræði markvisst. Hins vegar veit ég að ekkert er svart og hvítt og í ákveðnum tilfellum getur það verið val einstaklings eða aðstandenda að nota sérúrræði. Í þessum tilfellum er sjálfsagt að verða við slíku en almennt séð held ég að þessir fjármunir hefðu frekar átt að fara í það að byggja upp stuðning við nemendur sem þurfa stuðning inni í hinu almenna skólakerfi án sérskóla eða sérdeilda.


mbl.is 1,6 milljarða aukaframlag til skóla- og velferðarmála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband