Aðgengilegur heimur veraldarvefsins

Þegar ég var ung þá var ekkert internet. Samt tel ég mig ekki vera mjög gamla konu Blush.

Það segir mér aðeins það að veraldarvefurinn hefur tekið heljarstökk einungis á nokkrum árum. Netið er órofinn hluti daglegs lífs okkar.

Við leitum okkur alls konar upplýsinga á internetinu, við pöntum ýmsa vöru og þjónustu, fylgjumst með fréttum, fylgjumst með umræðunni og tökum jafnvel þátt í henni með bloggum og svona má lengi telja.

Það skýtur því skökku við og er kannski of lýsandi fyrir okkar þjóðfélag að internetið er ekki hannað fyrir alla. Það er vel hægt.

Eins og internetið er í dag þá eru sárafáar heimasíður sem gera ráð fyrir því að þeir sem noti þær búi við einhvers konar skerðingu eins og t.d. hreyfihömlun eða sjónskerðingu.

Það er ekki mikið mál að hanna heimasíður á þann veg að sem flestir geti nýtt þær með góðu móti. Til eru fyrirtæki sem hafa sérhæft sig í þessu. Af hverju í ósköpunum er þetta ekki komið lengra? Af hverju er ekki gerð krafa á þau fyrirtæki og hið opinbera sem þjónusta almenning að heimasíður þeirra séu aðgengilegar öllum? Ég skil þetta ekki?

Fyrirtækið www.sja.is sérhæfir sig meðal annars í aðgengilegum heimasíðum. Nokkur fyrirtæki hafa riðið á vaðið með það að gera heimasíður sínar sem aðgengilegastar flestum og má nefna m.a. www.tm.is sem eiga hrós skilið fyrir. Heimasíður eru þá hannaðar þannig að hægt er að stækka textann mjög mikið, breyta lit á bakgrunni, hægt að tengja þær við lesvélar, framsetning skýr og einföld og margt margt fleira. Ég tel það líka mjög alvarlegt mál að sveitarfélög og Ríkið skuli reka heimasíður af skattfé almennings sem eru samt ekki aðgengilegar öllum almenningi.

Varðandi bloggið þá er mikið af samfélagsumræðu sem þar fer fram auk þess sem fólk notar það sem miðil til þess að leyfa sínum nánustu að fylgjast með sér í orði og myndum (eins og ég geri á hinu blogginu mínu) og því væri mjög eðlilegt að bloggið væri hannað með þetta í huga.

Ég bíð spennt eftir þeim degi þar sem þetta er orðin reglan frekar en undantekningin að heimasíður eins og samfélagið okkar séu hannaðar með það í huga að þjóna öllum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband