Matvælaverð

Nú eru matvörur að rjúka upp úr öllu valdi. Meira að segja vörur sem búið var að kaupa inn eru samt sem áður að hækka. Mig grunar að margir ætli að tryggja hag sinn ansi hressilega í þessari blessuðu kreppu!

Það er sorglegt hvað ekkert virðist ganga að lækka matvörurverð heima. Sú góða tilraun sem gerð var fyrir ári síðan á lækkun matvælaskatta fauk fljótlega út í veður og vind þar sem veitingamenn og aðrir verslunarmenn voru iðnir við það að stinga mismuninum í eigin vasa.

Hvað er hægt að gera í þessu? Erum við ekki með nógu sterkt eftirlit? Gísli Tryggvason talsmaður neytenda er heldur betur á vaktinni og á hann stórt hrós skilið fyrir. Ég held að almenningur þurfi sjálfur að vera harðari á vaktinni. Við erum svo vön því að greiða himinháar fjárhæðir fyrir matvæli að við sættum okkur við það oft hljóðalaust.

Hins vegar tel ég að stjórnvöld ættu að skoða skattlagningu á matvæli enn frekar og breyta áherslum.

Það á að vera ódýrt að borða hollan mat!

Það þarf að leggja mikla áherslu á það að lægstu álögur séu á ávexti, grænmeti, grófmeti og annað hollt fæði. Álögurnar á að leggja frekar á feitan mat, sætindi, gosdrykki og aðra óhollustu. Frændur okkar hér í Danmörku eru komnir lengra á veg með þetta.

Ég man eftir ungri stúlku sem ég ræddi við í síma fyrir kosningarnar í vor og hún hafði miklar áhyggjur af þessu. Bað mig að berjast fyrir þessu að mikið framboð væri af hollum mat á Íslandi. Mikið hjartanlega er ég sammála henni og mikið líst mér vel á yngstu kjósendurna sem eru orðnir svona meðvitaðir. Ekki þarf að óttast framtíðina með svona fólk innan raða komandi kynslóða.

Úrval af hollustufæði hefur aukist en enn þarf að bæta um betur. Það þarf einnig að leggja áherslu á það að alls staðar sé hægt að fá sér hollan valkost á móti hinu óholla þannig að fólk eigi alltaf val.

Ég er mjög spennt að sjá hvernig frumvarpi Sivjar Friðleifsdóttur, þingmanns okkar framsóknarmanna, um trans-fitusýrur í matvælum vindur fram og tel það hafa haft góð áhrif hér í Danmörku að banna matvæli með of hátt hlutfall af trans-fitusýrum.

Allar þessar aðgerðir stuðla að lýðheilsu og eru mikilvæg forvörn gegn lífsstílstengdum sjúkdómum sem herja á okkur sem aldrei fyrr og kosta okkur stórar fjárhæðir úr okkar sameiginlegu sjóðum. Færa ætti þann pening sem fer í að bregðast við þessum vanda þegar allt er komið í óefni í það að lækka álögur á hollan mat og vera þannig á undan en ekki ætíð að bregðast við vandamálum. Ég veit að þetta er einföldun en ég er viss um að slíkar aðgerðir skila sér í heilbrigðari þjóð og minni útgjöldum í heilbrigðiskerfinu.


mbl.is Gamlar vörur hækka í verði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband