Mánudagur, 31. mars 2008
Ákall til íslensku ríkisstjórnarinnar frá Vinum Tíbet
Reykjavík 31. mars 2008
Ákall til íslensku ríkisstjórnarinnar
Við sem höfum staðið fyrir því að vekja athygli á hve skelfilegt ástandið er í Tíbet, viljum gjarnan vekja athygli ykkar á því sem er að gerast þar. Tíbetar hafa með friðsamlegum hætti barist fyrir tilverurétti sínum síðan 1959, með afar takmörkuðum árangri. Ef eitthvað, þá hefur ástandið aldrei verið eins slæmt og það er nú. Tíbetar eru orðin minnihlutaþjóð í sínu eigin landi. Um milljón Tibeta hafa verið drepnir síðan Kína hertók Tíbet 1950. Fólki er refsað, pyntað, fangelsað eða hreinlega drepið fyrir að stunda trú sína, fyrir að tala tungumálið sitt, fyrir að virða sinn menningararf. Kínversk yfirvöld hafa virt að vettugi allar tilraunir Dalai Lama til að eiga í opinberum samræðum við þá til að finna lausn á þessum vandamálum, en hann hefur hvatt til sjálfræðis Tíbets, þ.e.a.s. að þeir hafi sína eigin ráðherra. Mjög mikilvægt er að þessi samtöl hefjist nú þegar en það mun væntanlega róa undiröldu hinnar miklu reiði Tíbeta sem hafa horft upp á þjóðmenningu sína visna upp í 50 ár á meðan heimurinn hefur horft í hina áttina. Nú er tíminn til að þrýsta á kínversk yfirvöld. Þið vitið hvað er að gersast í Tíbet. Því berið þið ábyrgð á að bregðast við þessu ákalli. Við trúum því að þið hljótið að setja mannréttindi á oddinn fremur en viðskiptahagsmuni.
Í dag er alþjóðaaðgerðadagur til stuðnings baráttu Tíbeta fyrir mannréttindum í sínu heimalandi. Alþjóðaaðgerðadagurinn er haldinn til að vekja athygli á að nærri 1,5 miljón manna hafa skráð nöfn sín á lista Avaaz Tibet petition, sem kallar á hófsemi í aðgerðum, að mannréttindi séu virt og að kínversk yfirvöld hefji samræður við Dalai Lama.
Aðgerðir verða haldnar um heim allan og kínverskum yfirvöldum afhentur þessi listi á táknrænan máta. Okkar aðgerð í dag er að senda ykkur þessar spurningar og tillögur.
Við óskum eftir greinagóðum svörum við eftirfarandi spurningum:
1. Er rétt að fórna mannréttindum fyrir viðskiptahagsmuni. Styðjið þið það?
2. Hvernig ætlar þú að beita þér fyrir því að aðstoða Tíbeta í baráttu þeirra fyrir að mannréttindi þeirra verði virt?Hér eru nokkrar tillögur að því hvað íslensk stjórnvöld geta gert til að stuðla að lausn á vandamálum þeim er kosta svo marga Tíbeta lífið ár hvert.
1. Það hefur ríkt mikil þögn hérlendis meðal ráðamanna og enginn flokkur tekið skýra afstöðu með málstað Tíbeta. Við köllum eftir þverpólitískum stuðningi gagnvart baráttu þeirra og að íslenskir ráðamenn hvetji kínversk yfirvöld til að hefja samræður við Dalai Lama nú þegar.
2. Hægt er að þrýsta á kínversk stjórnvöld til að þau aflétti herlögum af Tíbet nú þegar og opni landið fyrir sjálfstæðum alþjóða- fjölmiðlum og mannréttindasamtökum.
3. Íslenska ríkisstjórnin getur þrýst á S.Þ. um að senda rannsóknarnefnd til Tíbet nú þegar til að komast að hver hlutskipti mótmælenda eru: talið er að um 100 Tíbetar séu horfnir (drepnir), 1200 í fangelsum og 79 hafa verið drepnir vegna undanfarinna mótmæla.
4. Þrýsta á kínversk yfirvöld að láta lausa pólitíska fanga eða þá sem eru fangelsaðir vegna trúar sinnar eða hafa beitt sér fyrir auknum mannréttindum í Kína og Tíbet.Fjölmargar þjóðir hafa á alþjóðavettvangi stutt við að mannréttindi Tíbeta séu virt. Við hvetjum íslenska ráðamenn að gera slíkt hið sama. Hér eru nokkur dæmi um hvað við getum gert til að styðja Tíbeta í þeirra baráttu fyrir mannréttindum.
Við getum farið að dæmi þjóðverja og stöðvað allar umræður við Kínverja um efnahagsþróun og viðskipti.
Við getum farið að dæmi Karls Bretaprins, Václav Klaus Tékklandsforseta og Merkel Þýskalandskanslara og sniðgengið opnunarhátíð Ólympíuleikana eða farið að dæmi Forsætisráðherra Póllands Donalds Tusk og bókað viðtal við Dalai Lama í stað þess að fara á opnunarhátíðina.
Þetta bréf verður sent á alla alþingismenn allra flokka, þar sem þeir eru hvattir til að svara þessum spurningum samviskusamlega og svör þeirra verða svo birt á netinu, birgitta.blog.is.
Með vinsemd
Vinir Tíbets
(Bréfið er tekið af vefsíðu Birgittu Jónsdóttur http://www.birgitta.blog.is/)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:43 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.