Námsmenn erlendis og mannauður

Það er enginn hægðarleikur að vera námsmaður erlendis í þeim ólgusjó sem umlykur gjaldeyrinn okkar og efnahagsmálin þessa dagana.

Þegar ég flutti hingað út til Danmerkur þá var gengi krónunnar á bilinu 11-12 krónur. Núna er það 15.8 og hefur farið í 16.7 held ég hæst.

Þetta þýðir það að þar sem við námsmenn höfum tekjur frá Íslandi þá gjörbreytist aðstaða okkar. Sem dæmi má nefna það að húsaleigan mín hefur hækkað um rúmlega 35%. Allar tekjur sem við fáum frá Íslandi snarrýrna. Þetta hefur einnig þau áhrif að mikil breyting getur verið á þeim lánum sem reiknuð voru og því sem maður fær svo þar sem aðeins er miðað við gengið á þeim degi sem lánin eru greidd út. Þetta getur þýtt fyrir námsmenn að endurgreiðslubyrðin verður mun þyngri en gert var ráð fyrir.

Þannig hefur fólk í raun sömu tekjur í því landi sem það lærir í en það þarf hins vegar að borga mun meira fyrir hverja danska krónu t.d. þegar lánið er greitt tilbaka. Fyrir þá sem hafa farið heim að vinna eða hafa safnað sjóði sem þeir eru að nota að hluta til að framfleyta sér þá rýrnar sú fjárhæð mjög mikið. Ég hef heyrt það á fólki að þetta hafi þau áhrif að margir treysta sér ekki í nám erlendis sem er mikill missir fyrir þjóðarbúið þar sem alltaf er gott fyrir fólk að fara erlendis, ná sér í nýja þekkingu og víkka sjóndeildarhringinn og koma svo endurnærður heim til þess að dæla þessari upplifun inn í íslenskt samfélag.

Hins vegar er staðan einnig þannig á húsnæðismarkaði heima að ekki er víst að allir námsmenn skili sér heim og reyndar afar ólíklegt og þannig tapast mjög mikil þekking sem hefði verið mikill fengur fyrir þjóðarbúið að fá heim.

Það er margt sem þyrfti að endurskoða varðandi námslánin. Það er til dæmis með öllu óforsvaranlegt að íslenskir námsmenn fái námslánin sín greidd eftir á og þurfi því að framfleyta sér á yfirdráttarlánum bankanna með gríðarlegri vaxtarbyrði sem er enn ein ástæða þess hversu mikið lánin skerðast. Fyrir utan það að þetta getur virkað þveröfugt á fólk og orðið til þess að fólk hrökklast frá námi þegar álagið í prófum snýst ekki aðeins um það að standast prófin heldur einnig að ef fólk stenst ekki prófin eða eitthvað kemur upp á sem hefur áhrif á námsframvindu þá situr það uppi með hátt yfirdráttarlán og þarf að hætta í námi til að vinna fyrir því og brauðfæða sig og fjöskylduna.

Í Danmörku fá danskir nemendur SU sem er styrkur frá danska ríkinu. Hann nemur um 4.000 Dkr. ef ég fer með rétt mál og svo geta þessir nemendur fengið námslán að auki. Styrkinn þurfa þau aldrei að endurgreiða, þau fá þetta fyrirfram og þetta er ekki tengt námsframvindu á sama hátt og heima. Það er löngu kominn tími á það að hluti námslána sé styrkur, fyrirfram eða eins og komið hefur fram í frumvarpi því sem Birkir Jón Jónsson lagði fyrir þingið í haust og er í takt við hugmyndir okkar framsóknarmanna að 1/3 hluti námslána breytist í styrk að námi loknu sé því lokið á tilsettum tíma. Þetta hefur mikil áhrif á ungt fólk, hvetjandi til að ljúka námi og auðveldar þeim baráttuna sem hefst að námi loknu. Ungu fólki sem er oft með börn á framfæri og að koma undir sig fótunum og þarf þá að greiða 1/3 hluta minna tilbaka sem munar gríðarlega um.

Ég tel löngu tímabært að endurskoða þessi mál. Íslendingar þurfa að fara að hugsa meira um það að leggja fjármagn í fólk því það skilar sér alltaf tilbaka í þjóðarbúið. Það er ég sannfærð um. Það er það sem skilar arði. Við erum alltaf að eyða peningum í það að leysa ýmis vandamál sem hefði mátt fyrirbyggja ef fjárfest hefði verið í fólki.

Sem dæmi um þetta má nefna starfsmannamál Ríkisins þar sem engu má eyða í það að fjárfesta í starfsfólkinu eins og til dæmis með launabónusum, með fríum árshátíðum, glæsilegum jólagjöfum og öðrum fríðindum. Þetta er eflaust gert í einhverjum stofnunum á vegum Ríkisins en ekki þeim sem helst þyrfti eins og t.d. hjá starfsfólki á sjúkrahúsum eða í annarri velferðarþjónustu.

Svo eru menn að klóra sér í hausnum og velta vöngum yfir því hvers vegna sé svona mikil starfsmannavelta, óánægja og stundum lítil afköst starfsfólks! Menn í einkageiranum eins og Jón Ásgeir og félagar eru löngu búnir að átta sig á því að hver milljón sem notuð er til þess að gera vel við starfsfólkið sitt hún skilar sér tífalt tilbaka í mannauði. Það þarf enginn að segja mér að allar fríu árshátíðarnar, flottu jólagjafirnar og önnur hlunnindi séu tilkomin þar sem þeir hafi ekkert betra við peningana að gera!!! Þeir eru bara löngu búnir að átta sig á þessu! Þetta er dýrmætasta fjárfestingin sem hvert fyrirtæki gerir. Það gerist ekkert í fyrirtækjum án mannauðs. En það er eins og blessað Ríkið ætli ekki að átta sig á þessu. Það er alltaf að spara á röngum stöðum að mínu mati og dæmið verður miklu dýrara þegar upp er staðið.

Ef þú dekrar við starfsfólkið þá hefur það áhrif á öllum sviðum starfseminnar. Það vinnur betur, það talar betur um fyrirtækið út á við, það helst lengur í starfi, það dregur að nýtt starfsfólk og það sparar fyrir fyrirtækið til þess að skila tilbaka ómeðvitað því sem það fékk. Það er minna álag á því þar sem þekking sú sem hver starfsmaður skapar og öðlast helst á sínum stað. Það er alveg sama hversu mikið fólk les í skólabókunum sínum því það þarf alltaf að læra alveg nýja þekkingu þegar það byrjar í starfi og ná ákveðinni færni og leikni. Þessi færni er heldur ekki eitthvað sem hægt er að negla niður í góðar handbækur! Góður starfsmaður er nefnilega gulls ígíldi!

Ef þú ætlar alltaf að sleppa þessari umbun þá endarðu með fólk sem er orðið dauðþreytt á því að gefa og gefa án þess að fá neina umbun fyrir. Þetta fólk skilar oft minni afköstum, það hringir sig oftar inn veikt, það kallar frekar út aukavakt þegar hefði mátt sleppa henni vegna eigin óánægju og þreytu, það fer ósparlega með auðlindir fyrirtækisins og efni (er að bæta sér upp umbunarleysið!), það talar illa um fyrirtækið sem hefur neikvæð áhrif út á við og það mælir ekki með fyrirtækinu við fólk sem er að leita sér að starfi. Vegna manneklu og sífelldra breytinga fer mikil orka í að þjálfa upp nýtt fólk, þekking og leikni tapast með reynda fólkinu og besta starfsfólkið er dauðþreytt á því að vera ætíð að þjálfa upp nýtt og nýtt fólk. Þannig fer mikill tími og orka til spillis.

Vissulega eru þetta miklar alhæfingar og langt í frá að vera einhlítt en það eru sannleikskorn í þessu og þetta þekkja eflaust margir.

Vonandi förum við að hugsa meira fram í tímann í framtíðinni í stað þess að vera alltaf að bregðast við vandamálum sem hefði mátt draga úr og fyrirbyggja með framtíðarsýn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband